12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla að gefa nokkrar upplýsingar um tilorðningu þessara laga. Mjer datt það í hug, þegar háttv. flm. (M. G.) sagðist hafa borið frv. undir dýralækninn, sem er víst Magnús Einarsson, að það var einmitt að hans tilhlutun, að frv. til laganna var samið af landbúnaðarnefndinni 1904—1905. Mjer finst tilgangur laganna svo mikill, að mikils væri um vert, að fá tilgangi þeirra framgengt. Það eru margir alidýrasjúkdómar hjer á landi, og nauðsynlegt að hafa einhverjar skýrslur um þá. Háttv. flm. (M. G.) sagði, að grundvöllurinn fyrir þessum lögum væri ekki svo góður, að við miklum árangri væri af þeim að búast. Það yrði nfl. að fara eftir skýrslum fjáreigenda sjálfra um sjúkdómana, en þeir væru alls eigi færir um það. Það er auðvitað, að ef hreppstjórarnir hafa ekki manndáð í sjer eða menningarhvöt og vilja ekkert á sig leggja til þess að gera skýrslurnar úr garði eftir skárstu föngum, þá er ekki við góðu að búast. Það er mikið undir þeim komið, sem skýrslunum safna, því að varla koma svo nákvæmar skýrslur frá hverju heimili. En jeg veit um hreppstjóra í mínum hreppi, að hann gerði sjer talsvert far um að fá skýrslurnar gerðar sem næst tilganginum, og við það urðu skýrslur hans vel nýtilegar.

Háttv. flm. (M. G.) nefndi annað, sem sje, að mönnum væri ekki ljóst, hvað að skepnunum gengi. Það er satt, að þeir vita auðvitað ekki vísindalegt nafn á hverjum sjúkdómi, en eigi að síður veit jeg af eigin reynd, að ýmsir sjúkdómar eru hjer þektir af alþýðu manna, sem hefir gefið þeim sín alþýðunöfn, og ætti dýralæknunum að vera vorkunnarlaust að vita hvað þau tákna. Jeg veit, að ýmsir sjúkdómar ganga um alt land og eru þektir af öllum, t. d. doði í kúm, höfuðsótt, vatnssótt o. fl. sjúkdómar í sauðfje. Það er því mjög raunalegt, ef sú verður niðurstaðan, að ekki sje hægt að safna þessum skýrslum, og enn bágbornara er það, ef enginn hefir litið í þær í þessi 10 ár, sem þeim hefir verið safnað. Jeg er hissa, að dýralæknirinn skuli ekki hafa skoðað þær árlega, því að þær eru til orðnar einmitt fyrir tilmæli og tilstilli dýralæknisins hjer í Reykjavík. Það kom í ljós að vísu fyrir nokkrum árum hjer á þinginu, að dýralæknirinn, sem átti að vera til aðstoðar við fjárkláðann, hafði ekki einu sinni kynt sjer þessar skýrslur. Jeg hefi minst á þetta af því, að mjer finst það sneypa að þurfa að afnema lögin, en kannast hins vegar við, að það er ófært að hafa lög, sem bara eru pappírslög.