12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Þórarinn Jónsson:

Þótt jeg hafi gerst meðflutningsmaður þessa frv., er það ekki af því, að reynsla mín sje sú sama og háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Jeg hefi ekki orðið var við, að ilt sje að safna skýrslunum; upphaflega skrifuðu bændur þær sjálfir jafnóðum í mínum hreppi, en svo fór trúin á nytsemina að dofna og bændur að leggja dauðameinin á minnið.

Grundvöllur skýrslugerðarinnar er sá, að menn beri yfirleitt skyn á alidýrasjúkdóma; en mjer hefir reynst, að það sje öðru nær. Bráðapestin er kann ske eini sjúkdómurinn, sem menn geta með vissu sagt um, og auðvitað mikils virði að vita um, hve margt drepst úr henni. En það kemur líka fram á bólusetningarskýrslunum, svo að því leyti verða þessar skýrslur óþarfar.

Jeg skal játa, að tilgangur laganna er ekki einkisverður. En honum hefir ekki verið náð. Þess var ekki heldur að vænta; mönnum er ekki ætlandi að þekkja svo vel sjúkdómana. Í skýrslurnar setja menn t. d., að skepna hafi dáið úr lungnaveiki, en hverskonar lungnaveiki það sje, er ekki nefnt, og er þó lungnaveikin margháttuð. Dýralækninn, sem upphaflega var flytjandi þessa skýrslumáls, hefir reynslan sannfært um, að skýrslurnar sjeu einkis virði.

Það myndi enga þýðingu hafa að setja nein sektarákvæði.

En aðalatriði þessa máls er, að bændur þekkja ekki sjúkdómana, eins og jeg hefi áður tekið fram, enda ekki til þess að ætlast, og því er jeg orðinn flytjandi þessa máls.