14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Pjetur Jónsson:

Síðan þetta frv. var tekið til 1. umr. hjer í deildinni hefi jeg hugsað málið betur og vil nú stinga upp á, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar. Mjer skilst það ekki rjett að afnema þessi lög svona í flýti og umhugsunarlítið. Jeg vjek að því við 1. umr., að tilgangur þessara laga væri góður, og finst mjer, að taka verði til yfirvegunar, hvort ekki er hægt að breyta þeim svo, að þau komi að einhverju gagni. Jeg nefndi sjúkdóma í sauðfje, sem alþýða þekkir vel og hefir gefið nöfn. Fjárkláða þarf jeg ekki að nefna, enda eru önnur lög til, sem gera ráð fyrir athugun á honum.

Jeg nefndi til dæmis skitupestina. Það hefir ekki litla þýðingu að vita nákvæmlega um hana, því að hún er einhver sá mesti vogestur fyrir sauðfje okkar, sem komið hefir, og það nálega í öllum hjeruðum landsins. Dýralækni ætti að gefast kostur á að kynna sjer, hve mörg tilfelli koma fyrir af henni árlega.

Í öðru lagi er höfuðsóttin. Gott væri að geta vitað, hvort hún vex eða minkar, ekki síst þar sem hún stendur í sambandi við sullaveikina, sem menn hafa á síðustu árum unnið að að útrýma með miklum áhuga. Þá má og nefna vatnssótt og ýmsa fleiri kvilla, sem mjer finst vert að gera sjer grein fyrir.

Þá eru og ýmsir sjúkdómar í hestum og kúm, sem menn þekkja talsvert. Í þeim tilfellum, er kýr eða hestar hafa veikst, hefir oft verið leitað til dýralækna, og við það hefir vaxið þekking manna á t. d. ýmsum hestakvillum.

Mjer finst einnig, að bæta mætti úr ókunnugleika manna með prentuðum leiðbeiningum dýralækna. Það er t. d. afarmikils virði, að almenningur geti þekt ýmsa lungnakvilla, og ætti ekki að vera ókleift.

Jeg legg þá til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar, til frekari íhugunar.