14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Þorleifur Jónsson:

Jeg efa ekki, að þessi lög um skýrslur um alidýrasjúkdóma hafi verið samin og sett í góðum tilgangi. En okkur frumvarpsflytjendum er það ljóst, að lögin hafa ekki orðið að hinum minstu notum, og því sjáum við enga ástæðu til að láta þau vera lengur í gildi. Tilgangurinn var að safna skýrslum, svo að dýralæknar hefðu eitthvað úr að moða, hvað sjúkdóma snertir á alidýrum, en þessi skýrslugerð hefir orðið hreinasta pappírsgagn, af því að dýralæknir hefir aldrei í skýrslurnar litið. Magnús dýralæknir sagði mjer fyrir skemstu, að hann vissi ekki, hvar skýrslurnar væru niður komnar. Þar sem dýralæknar hafa ekki unnið neitt úr skýrslunum, og vita ekki einu sinni hvar þær liggja, þá sýnist vera mjög þýðingarlítið að vera að stritast við að safna þeim. Ef til vill er skýrslugerðin ófullkomin, en jeg held þó, að hreppstjórar hafi gert sjer far um að vanda þær eftir mætti. En þegar hingað kemur, er þeim fleygt í eitthvert skúmaskotið, svo að ekki einu sinni dýralæknir getur athugað þær, því síður að unt sje að vinna úr þeim hagfræðilega.

(P. J.: Má ekki breyta þessu?) Best að vera að káka ekki við þetta lengur. Hins vegar hefi jeg ekkert á móti því að vísa málinu til landbúnaðarnefndar, ef það gæti komið málinu að einhverju gagni.