09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. í þessu máli með fyrirvara, en var ekki viðstaddur þegar málið var til 2. umr. Jeg skal þó ekki vera langorður nú. Það, sem jeg hafði að athuga við gerðir nefndarinnar, var það, að mjer fanst eiga best við, að um leið og lögin um skýrslur um alidýrasjúkdóma eru afnumin þá væri flutt frv. um dýralækna, þess efnis að fjölga þeim og gera þeim að skyldu að safna þessum skýrslum um alidýrasjúkdóma. Mjer finst óviðkunnanlegt að nema úr gildi lög, sem áður hefir verið óskað eftir og þá þótt nauðsynleg. Að vísu hefir það verið tilfært sem ástæða gegn þessum lögum, að þau hafi ekki gert neitt gagn. Jeg geri það þá ekki heldur að kappsmáli, að lögin sjeu látin standa, og set mig því ekki á móti frv., sem hjer liggur fyrir. En jeg hefði þá viljað, að dýralæknalögin væru endurskoðuð um leið. Jeg álít þess fulla þörf, þó að lögin sjeu ekki eldri en frá 1915. Það, sem einkum þyrfti að gera, er að fjölga dýralæknunum, að minsta kosti um helming. Landbúnaðarnefndin sá sjer þó ekki fært að flytja frv. í þá átt að þessu sinni. En engum getur blandast hugur um, að þörfin á fleiri dýralæknum er mikil, Það er óhætt að fullyrða, að sveitirnar hjer fyrir austan fjall sjeu sama sem dýralæknislausar, því að svo erfitt er að ná til dýralæknisins hjer í Reykjavík. Sama er að segja um vestursýslurnar fyrir norðan, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Þar munu menn varla nokkurn tíma sjá sjer fært að sækja dýralækninn frá Akureyri. Fyrir þá sök, að svona erfitt er að ná til læknis, þá rísa upp skottulæknar úti um hjeruðin, sem að vísu oft hafa gert gagn, en miklu oftar talsvert ógagn. Þessir menn hafa venjulega, eins og við er að búast, lítil tæki og ófullkomin og stundum alls engin. Þess vegna eru oft lagðar óþolandi píslir á skepnurnar hjá þessum mönnum.

Jeg vildi að eins benda á þetta atriði, þó að jeg sjái mjer ekki fært að flytja frv. um það að þessu sinni. En jeg tel aðkallandi nauðsyn á að endurskoða dýralæknalögin og geng út frá, að þess verði ekki langt að bíða, að það verði gert.