16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

55. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Í símalögunum frá 1913 var svo ákveðið, að símalínan frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar skyldi liggja um Unaós. Jeg geng út frá því sem vísu, að þetta hafi verið ákveðið svo sökum þess, að á Unaósi var þá verslun, og þar er eini lendingarstaðurinn við Hjeraðsflóann. Auk þess hafi þetta verið álitin tryggilegasta símaleiðin til Borgarfjarðar. En svo var þessu breytt á þinginu 1915 þannig, að símalínan skuli leggjast frá Egilsstöðum um Sandaskörð til Borgarfjarðar. Með því móti yrði línan dálítið styttri. Með þessa breytingu eru Hjeraðsbúar óánægðir. Að vísu hefir lagst niður verslun aftur á Unaósi, en fluttar eru þangað á sjó vörur frá verslunum á Seyðisfirði og Borgarfirði, og mikil líkindi eru til, að þar verði verslun eða verslanir settar á stofn að stríðinu loknu. En þótt svo verði ekki, þá er það víst, að haldið verður áfram nú uppteknum hætti, að skipa þar upp vörum frá næstu höfnum, en þar sem nú höfnin eða lendingin á Unaósi er mjög slæm, þá er þar því meiri þörf síma, því að þá er hægt að síma þangað og spyrjast fyrir um, hvort gerlegt sje að lenda þar. Ella kynni ferðin að verða til ónýtis.

Þótt símalínan um Sandaskörð til Borgarfjarðar sje dálítið styttri en hin, þá ber þess þó að gæta, að snjóþyngsli á leiðinni um Gönguskarð eru miklu meiri á vetrum. Þar að auki er fjallvegurinn miklu lengri um Sandaskörð en Gönguskarð. Því er fyrirsjáanlegt, að viðhaldskostnaður yrði miklu minni á símalínu, er lægi um Gönguskarð en í Sandaskörðum. Sjálfsagt virðist mjer að kosta kapps um, þar sem því verður við komið, án mikils kostnaðarauka, að leggja frekar síma um bygðir en óbygðir.

Jeg hefi átt tal við símastjórann um þessa breytingu, og fellst hann á hana. Kostnaðaraukann taldi hann mundu mjög lítinn.

Hann kvaðst hafa skilið breytinguna, sem gerð var á þinginu 1915, svo, að síminn ætti að liggja beina leið frá Eiðum til Borgarfjarðar, en þá fengi Hjaltastaðaþinghá ekkert símasamband. En nú er þess brýn nauðsyn, bæði vegna verslunarinnar á Unaósi og líka vegna þess, að Hjaltastaðaþinghármenn verða að sækja lækni til Borgarfjarðar.

Jeg býst við, að þetta mál verði sett í nefnd, enda þótt jeg skilji ekki, að nokkur maður geti verið á móti því. Jeg tel rjett, að máliuu verði vísað til samgöngumálanefndarinnar.