03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

55. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson); Fyrir breytingum þeim, sem samvinnunefnd samgöngumálanna á þessu þingi vill að gerðar sjeu nú á símalögunum, eru færðar nokkrar ástæður í áliti hennar, á þgskj. 741, er jeg vænti að háttv. deildarmenn hafi fyrir sjer.

Að fara að þylja þær upp hjer í salnum væri að eins til þess, að þær kæmu á tveim stöðum í Alþingistíðindunum, og finst mjer það ekki viðeigandi; og þar sem jeg hefi litlu við þær að bæta, verður ræða mín stutt.

Nefndinni þótti rjett, að 4. gr. símalaganna yrði prentuð upp og inn í hana teknar breytingar þær, er á henni voru gerðar með lögunum frá 3. nóv. 1915, ásamt breytingum þeim á þessum ákvæðum, er hún leggur til að verði gerðar nú. Er það miklu hentugra fyrir þá, er nota vilja símalögin, að hafa ákvæðin um það, hverjir eigi að vera III. flokks símar, á einum stað.

5. gr. frv., eftir till. nefndarinnar, er nauðsynleg vegna viðbótar þeirrar, er nefndin leggur til í 1. gr. að komi við 2. gr. símalaganna frá 1913. Verði undantekningu þeirri, sem þar ræðir um, ekki bætt inn í 7. gr. símalaganna, væri eigi hægt að leggja neina III. flokks síma fyr en lokið væri lagningu þeirra tveggja I. flokks síma, er þar bætast við.

Kröfur þjóðarinnar um það, að landssíminn greiði framvegis meira en hingað til af kostnaðinum við rekstur símastöðva, eru að verða háværari og háværari, enda lítur nefndin svo á, að þær sjeu á rökum bygðar. Hagur landssímans stendur, sem betur fer, með miklum blóma. Eftir síðasta landsreikningi, sem prentaður er — hann er fyrir árið 1915 — eru tekjur símans

samtals .............................. kr, 316.524.07

Hins vegar nam símakostnaðurinn .... —152.927.57

Vextir af símaláni............................... — 12.999.99

og afborgun......................................... — 33.333.34

Útgjöld landssjóðs vegna

símanna því alls.................................. kr. 199 260.90

Nettótekjur af símanum

því........................................................ kr. 117.263.17

Hins vegar þótti nefndinni viðsjárvert að láta allan rekstrarkostnað símastöðva, annara en I. flokks A., hvíla á landssímanum, og fer því í till. sínum bil beggja, eins og grein sú, sem koma á í stað 9. gr. símalaganna frá 1913, ber með sjer.

Með þessum ummælum leyfi jeg mjer, fyrir samvinnunefndarinnar hönd, að leggja til, að brtt. á þgskj. 741 verði samþyktar.