08.09.1917
Neðri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

55. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki vera langorður; jeg vildi að eins segja nokkur orð viðvíkjandi símalínunni milli Borgarness og Svignaskarðs. Háttv. framsm. (Þór. J.) hefir drepið vel og rjettilega á það, hve bráðnauðsynleg þessi lína er orðin. Leið manna frá Vestur- og Norðurlandinu hingað til Reykjavíkur liggur um Borgarnes, og auk þess streymir nú orðið mjög mikið af fólki úr Reykjavík upp í Borgarfjörð á sumrin. Að vestan er engin stöð á þeirri leið nær Borgarnesi en Búðardalur, og að norðan engin nær en Sveinatunga. Nú hefi jeg jafnvel heyrt, að í ráði sje að leggja stöðina í Sveinatungu niður. En hvað sem um það er, þá væri stöð í Svignaskarði enn gagnlegri ferðamönnum. Símastjóri hefir og lagt eindregið með, að sú stöð verði reist sem fyrst, og það þegar á þessu hausti. Vegalengdin er 10 km. Stöðin yrði mikið notuð. Símastjóri segir, að nógur efnisafgangur sje til að koma upp línunni. Kostnaðurinn er áætlaður 9 þús. kr., en sú áætlun er miðuð við nýtt efni. En þar sem til er gamalt efni, verður efniskostnaðurinn því ef til vill helmingi minni. Símastjóri hefir lofað því, að þessi spotti verði lagður eingöngu á landssjóðs kostnað, því að þegar línan frá Grund til Borgarness var lögð, var lagt meira til hennar af hjeraðinu en venja hefir verið til um slíkar línur, Enda verða notin af símastöð í Svignaskarði miklu meiri fyrir landsmenn yfir höfuð en fyrir hjeraðsbúa eina út af fyrir sig. Þess vegna mælir öll sanngirni með, að landssjóður beri einn kostnaðinn.