03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) tók fram þá er það óþægilegt, að allir úr stjórninni skuli ekki vera viðstaddir, en jeg ætla samt sem áður að minnast á einstöku atriði í ræðu hans. Það er vitanlega eðlilegt, að þessi hv. þd. vilji hafa tal af stjórninni, þó að vandsjeð verði, hvort vilji deildarinnar komi fram, þó að einn eða tveir þingmenn taki til máls, þegar málið er ekki afgreitt í neinu sjerstöku formi.

Það er rjett, sem háttv. þingm. (M. T.) mintist á, að aldrei hafa stjórn á þessu landi verið lagðar þyngri skyldur á herðar en þeirri, er nú situr, enda mun hún hafa fundið mikið til ábyrgðarinnar við að taka að sjer að koma þjóðinni út úr ógöngunum, sem að líkindum lágu fram undan. Jeg kemst svo að orði sökum þess, að í raun og veru var ekki um miklar ógöngur að ræða, þegar þingi sleit. Og það má vitanlega þakka það ýmsu, að ástandið er nú ekki verra en raun er á orðin. Það má þakka það forsjóninni, samtökum einstakra manna og væntanlega landsstjórninni, að einhverju leyti. Því að jeg vil vera svo djarfur að halda því fram, að furðanlega vel hafi úr ráðist, enn sem komið er. Regluleg neyð hefir hvergi átt sjer stað, en vitanlega nokkur vöntun á ýmsu, þar sem við erum svo langt frá heimsmarkaðinum og svo örðugt hefir verið um skipakost. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á skort á kolum og olíu. Jeg sje ekki ástæðu til að þylja langt mál um það efni. Stjórnin hefir sent bjargráðanefndunum skýrslu, þar sem gerð er grein fyrir tilraunum landsstjórnarinnar til þess að birgja landið sem best. Jeg held, að nokkuð megi af því ráða, hvernig stjórninni hafa farist þessi mál úr hendi, af því að þær nefndir hafa ekki enn borið sig upp undan neinu sjerstöku í þeirri skýrslu.

Það er alveg rjett hjá háttv. þm. (M. T.), að tvö atriði skifta hjer mestu máli og hafa aðallega vakað fyrir stjórninni. Annars vegar var það að draga sem mest af vörum til landsins og hins vegar að koma þeim til landsmanna. En eins og útlitið var hlaut stjórnin að leggja meiri. áherslu á aðdrættina. Það var ekki hægt að segja um, hve nær fullkomnum slagbrandi yrði skotið fyrir alla aðflutninga á nauðsynjavörum, jafnvel frá Ameríku. Háttv. þm. (M. T.) ljet það í ljós, að seint hefði gengið fyrir stjórninni að útvega skipin. Þetta er að vísu vægilega að orði komist, en mikið álitamál er, hvort stjórnin gat verið fljótari, og fram á það sýndi þm. (M. T.) eigi. Hjer var úr vöndu að ráða, og ekki álitlegt að hlaupa eftir hverju tilboði, hversu óaðgengilegt sem það var. Um skipakaupin er það að segja, að jeg hygg, að fullyrða megi, að þau hafi tekist heldur vel. Og jafnvel þótt þess sje gætt, að alt var verra eftir því sem lengra leið, verður ekki annað sagt en að kaupin hafi verið eins góð og frekast var hægt að búast við, eftir að kafbátahernaðurinn hófst.

Það er rjett hjá háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að stjórnin hefir fyrst og fremst hugsað um að afla matvæla til landsins, og þá ekki eingöngu fyrir þá, sem landbúnað stunda, því að sjávarútvegsmenn þurfa einnig slíkra muna með. Hitt er vitanlegt, að landbúnaðarmenn fylgja fremur þeirri reglu að birgja sig upp með matvöru á haustin heldur en t. d. íbúar Reykjavíkur, Akureyrar og Ísafjarðar.

Minst hefir verið á tilraunir stjórnarinnar til að viða að kol og salt. Úr þeim tilraunum hefir það dregið nokkuð, að stjórnin hafði treyst á merkt fjelag hjer í bænum, sem gerði ráð fyrir að fá mörg skip með þær vörur hingað. Þetta fórst fyrir af ýmsum orsökum, og sama er að segja um skip landsstjórnarinnar; þremur þeirra var sökt. Jeg vil taka það fram, að salt það, sem komið hefir til landsins, hefir mestmegnis gengið til sjávarútvegsins, svo að jafnvel sauðfjárbændur hafa nú ekki nægilegt salt til haustkauptíðar, þótt vonandi rætist úr því. Oftast hefir verið um það hugsað að bæta úr brýnustu þörfunum, í því trausti, að ekki yrði loku skotið fyrir frekari aðdrætti.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) spurði að því, hvaða ráðstafanir stjórnin hefði gert, sjerstaklega viðvíkjandi salti, kolum og steinolíu til sjávarútvegsþarfa. Um steinolíuna er það að segja, að allmiklar líkur eru til, að hægt verði að draga sæmilegar birgðir til landsins. Vitanlega er ekkert hægt um það að fullyrða, því að segja má, að engu megi treysta fyr en skipin eru komin í höfn. En ekkert mun verða vanrækt, er að gagni má koma í því efni. Sama er að segja um saltið. Má gera sjer góðar vonir um, að einnig takist að ná því, þótt auðvitað sje ekki hægt að sjá í bráð fyrir fjarlægum vertíðum, hvað það snertir.

Um úthlutunina má það segja, að flestu var svarað um hana, er fyrirspurn um það efni var á ferðinni hjer í deildinni fyrir nokkru. Jeg sje á einu af þgskj., sem útbýtt hefir verið hjer í hv. deild í dag, að komið hefir fram fyrirspurn í háttv. Nd. um líkt efni. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) lagði áherslu á olíufarm Steinolíufjelagsins, en jeg býst við, að um það atriði verði rætt í sambandi við fyrirspurnina í hv. Nd., og mun jeg þá geyma mjer að svara því þangað til þar að kemur.

Eins og jeg gat um í upphafi ræðu minnar hygg jeg, að fullyrða megi, að ábyrgðartilfinning stjórnarinnar hafi verið vakandi, og þótt ef til vill megi hitt og annað finna að gerðum hennar og benda á ýmislegt, sem betur hefði mátt fara, þá er líklegt, að svo hefði farið um fleiri, sem þessum störfum hefðu átt að gegna. Enda mun það um flest störf mega segja, eftir á, einkum ef ekkert þarf að rökstyðja, að betur hefði mátt haga ráðum og framkvæmdum. Þykist jeg því mega vona, að það komi síðar fram, að stjórnin hafi ekki átt minstan þátt í því, að ekki hefir orðið meiri skortur á nauðsynjavörum en raun hefir á orðið.