21.08.1917
Efri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

61. mál, málskostnaður einkamála

Framsm. (Magnús Torfason):

Nefndin hefir leyft sjer að gera nokkrar breytingar á þessu frv.

Fyrsta breytingin, sem vert er að vekja máls á, er 2. brtt. við 4. gr. Þar er það lagt til, að orðin »samkvæmt 3. gr.« falli niður. Þessi breyting var gerð af því, að líta mátti svo á, að málsaðili fengi því að eins greiddan málskostnað sinn, að hann sendi reikning yfir hann.

Þá hefir nefndin gert breyting við 5. gr. a. Henni þótti greinin heldur þröng, eins og hún var orðuð. Það geta verið margskonar athafnir, sem valda því, að eitthvað verður þýðingarlaust í máli, en getur þó aukið kostnað. Nefndinni þótti því rjett að rýmka þetta ákvæði.

Þá er 4. brtt., sem á við 6. gr., er ákveður, hve nær málskostnaður má falla niður. Þetta ákvæði þótti nefndinni líka ofþröngt í frv., og leggur til, að það verði rýmkað.

Aðrar breytingar nefndarinnar eru að eins orðabreytingar, sem henni virtust vera til bóta. Jeg sje þess vegna ekki ástæðu til að fjölyrða um þær; jeg vona, að þær sjeu hæstv. deild fullljósar.