03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Því miður átti jeg ekki kost á að vera hjer viðstaddur, er umræðurnar hófust, þar sem jeg þurfti nauðsynlega að vera í háttv. Nd. Enda hygg jeg ekki, að þess hafi verið brýn þörf, þar sem jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðherra hafi svarað ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.).

Jeg finn ástæðu til að taka það fram einnig hjer, sem jeg tók fram við samskonar tækifæri í háttv. Nd., að jeg get ekki viðurkent, að stjórnin hafi verið sein á sjer í skipakaupum. Áður en heimildin fyrir stjórnina til skipakaupa var samþykt af þinginu í vetur, ljet stjórnin biðja framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, herra Emil Nielsen, sem þá var staddur í Kaupmannahöfn, um að grenslast eftir skipakosti. Síðar var endumýjuð beiðnin til nefnds framkvæmdarstjóra um útvegun skipa. En það viðurkenni jeg, að verði það talið seinlæti, að stjórnin gaf herra Nielsen ekki þegar í stað ótakmarkað umboð til skipakaupa, þá hefir hún gert sig seka í seinlæti. En slíka heimild áleit stjórnin ekki verjandi að gefa einum manni fyrirfram. Svo leið og beið. Hr. Nielsen fjekk ekkert tilboð, sem hann hugði stjórnina geta gengið að, nema um eitt skip, er bundið var við skylduferð til Englands. Það getur verið, að kaup á þessu skipi hafi farist fyrir vegna þess, að hr. Nielsen hafði ekki umboð til að kaupa, án nánara samþykkis ráðuneytisins, en önnur skipakaup, sem vert var að sæta, hafa ekki gengið undan. Nú fór svo fyrir stjórninni, sem oft vill verða, að hún gerðist óþolinmóð og ljet þá óþolinmæði sína í ljós við framkvæmdarstjórann og stjórnarskrifstofuna í Kaupmannahöfn. Fjekk stjórnin það svar frá framkvæmdarstjóranum, að ekki væri viðlit að kaupa hvern skipsræfil, sem kostur væri á, og margfalt betra væri að bíða í heilan mánuð eftir góðu skipi heldur en að kaupa strax skip, sem ekki væri hægt að nota hjer við land. Fyrir aðstoð hans keypti stjórnin svo skip, sem álitin eru mjög hentug, fyrir sæmilegt verð. Jeg hygg því ástæðulaust fyrir háttv. þingmenn og aðra að ásaka stjórnina fyrir aðgerðaleysi og seinlæti í þessu efni. Jeg viðkenni, að stjórnin á lítið þakklæti skilið fyrir þessar aðgerðir sínar; þær eru aðallega að þakka herra Emil Nielsen og herra Krabbe, skrifstofustjóra. Hefði illa farið, myndi stjórnin hafa hlotið ámæli af, en af því að vel tókst til, þá hygg jeg, að hún eigi ekki álas skilið. Þessar ásakanir á stjórnina eru því alveg ástæðulausar; það var ekki hægt að ná hentugum kaupum fyr, og vilji háttv. þm. sjá brjefið frá herra Nielsen, þá er það velkomið.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mun hafa fundið að því, að stjórnin hafi ekki sjeð fyrir sjávarútveginum sem skyldi. Það getur satt verið, en því er til að svara, að það var bókstaflega ókleift fyrir stjórnina að sinna honum sem skyldi, Stjórnin tók þau skip á leigu, sem nokkur vegur var að fá. Urðu þau skip fyrst framan af að flytja til landsins matvæli og kol. Að vísu sá stjórnin ekki fyrir salti þá, því að útlit var fyrir, að útgerðarmenn myndu annast það sjálfir, og tóku margir þeirra skip á leigu í þeim tilgangi. Eins og þegar er sagt áleit stjórnin því, að flutningur á matvælum, sykri og kolum ætti að ganga fyrir, meðan svo þröngt var um skipakost. Landsstjórnin átti þá talsvert af kolum og gat hjálpað útgerðarmönnum um, og var það fremur að þakka fyrverandi stjórn, sem hafði sjeð fyrir talsverðum kolabirgðum. Í vor tók svo stjórnin að útvega salt. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mun hafa fundið að því, að brugðið hafi verið loforði við útgerðarmenn á Vestfjörðum um saltbirgðir. Það getur verið, að eitthvað sje í þessu hæft, en jeg verð að segja, að stjórnin á enga sök á því, og gerði það eitt, sem sjálfsagt var. Ísfirðingar munu hafa átt von í um 500 smálestum af salti úr ákveðnu skipi, og hefðu ekki átt að vera nein vandræði, að þeir fengju það, þar sem öðrum landsfjórðungum var ætlað salt úr 3 öðrum skipum. En þegar saltskip það, sem Ísfirðingum var ætlað salt úr, kom til landsins kom sú fregn, að öllum hinum skipunum þremur hafi verið sökt, svo að segja á sama tíma. Austfirðingar voru þá saltlausir, og var því til bragðs tekið að láta þá fá nokkuð af því salti, sem Ísfirðingum var ætlað; en Ísfirðingar fengu að eins 300 smálestir. Það er síður en svo, að Ísfirðingar hafi verið rangindum beittir með þessu, þar sem þeir eru ekki enn þá orðnir saltlausir, en aftur á móti er saltlaust á Austfjörðum, eða sama sem.

Það er satt, að Ísfirðingum hafði verið gefinn ádráttur um saltið, en þegar svona atvik komu fyrir, var ekki hægt viðgerðar. Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á þetta atriði nú, því að jeg var ekki inni, er hann hóf ræðu sína, en jeg vildi taka þetta fram í tilefni af ummælum hans um þetta efni hjer áður í deildinni.

Þá talaði háttv. þingm. Ísaf. (M. T.) um úthlutun steinolíunnar.

Jeg er þessu atriði ekki vel kunnugur, en jeg hygg, að hjer sje um nokkurn meiningarmun að ræða.

Jeg býst við, að háttv. þingm. Ísaf. (M. T.) og ýmsir háttv. þingm. hafi viljað láta taka allan hinn umrædda steinolíufarm eignarnámi, en ráðuneytið taldi það ekki rjett, enda hefir það aldrei verið gert við vörur þær, er kaupmenn hafa flutt til landsins. Það hefir verið talið rjett, yfirleitt, að þeir mættu sjálfir selja þær. Að vísu hefir það einu sinni komið fyrir, að fáeinar tunnur, er fluttar voru hingað á dekki, voru keyptar af landsstjórninni, en það var gert eftir samkomulagi við flytjanda; annars hefir verið álitið, að það væri ekki rjett að hindra það, að kaupmenn gætu flutt vörur til landsins, og að þeir gætu sjálfir selt varning sinn. Stjórnin hefir að eins viljað hafa hönd í bagga um það, hvernig vörunum hefir verið úthlutað. Jeg skal ekki með vissu segja um það, hvort úthlutunin hefir verið í lagi, en það mætti síðar upplýsa um það.

Í sambandi við þetta var það, er háttv. þingm. Ak. (M. K.) var að ræða um flutningskostnaðinn til Akureyrar. Það er satt, að flutningskostnaðurinn á steinolíunni til Akureyrar varð mikill. Háttv. þingm. Ak. (M. K.) taldi, að skipið væri fullhlaðið með 3000 tunnur af steinolíu (M. K.: Alt að 4000 tunnur). Það er rjett, að full hleðsla af steinolíu í Botniu er um 3000 tunnur, og er fullhátt. Háttv. þingm. Ak. (M. K.) hjelt, að 10 kr. flutningskostnaður væri nægur á hverja steinolíutunnu.

Jeg held, að háttv. þm. Ak. (M. K.) geri sjer enga hugmynd um, hversu mikið fje skipin kosta; kostnaðurinn við för Botniu norður nemur alls um 60 þús. kr., og þótt gjaldið væri sett eins hátt og gert var, 20 kr. á steinolíutunnuna, þá varð samt halli á förinni; jeg held, að hann nemi eitthvað 6—8 þús. kr. Því hefir verið haldið fram í háttv. Nd., að það beri að reka svo verslun landssjóðs, að hún beri sig.

Jeg skal játa það, að það er hart fyrir Norðlendinga að greiða 20 kr. í flutningskostnað á hverja steinolíutunnu, þegar Vestfirðingar þurfa ekki að greiða nema 10 kr. í flutningskostnað á tunnuna, eða helmingi minna, en það er að vísu miklu styttra þangað, og það munar mjög miklu.

Áður en steinolían kom til Steinolíufjelagsins voru Eyfirðingar mjög hræddir um það, að þá mundi vanta steinolíu til útgerðarinnar, og báðu landsstjórnina að sjá um, að þeir gætu fengið steinolíuna þegar í stað, og þyrfti landsstjórnin að vera búin við því að flytja hana norður til þeirra, en þegar steinolían kom, þá var nauðsynin ekki jafnbrýn. En vegna þessara óska þeirra, hafði Botnia verið leigð til að flytja steinolíuna norður. Eyfirðingar töldu þá, vegna þess, að þeim lá ekki eins á olíunni, að eins hagkvæmt að flytja olíuna norður með mótorskipum. En landsstjórnin taldi það ekki heppilegt. Mótorskipin eyða miklu af olíu á móts við, hversu mikið þau flytja, og af því að við vitum, að það getur komið fyrir, að allir flutningar til landsins á olíu verði hindraðir, þá telur landsstjórnin það ekki rjett að eyða olíunni til flutnings, og því fanst henni rjett að leigja Botniu til þessa. Ef hið háa Alþingi vill, að landssjóður skaðist á flutningum, þá mun landsstjórnin ekki hafa á móti því, en á annan hátt getur flutningsgjaldið ekki orðið eins lágt og háttv. þingm. Ak. (M. K.) vill. En jeg hygg, að landsstjórnin gæti má ske bætt upp flutningskostnaðinn svo, að hann yrði 15 kr. á tunnuna; það getur verið, að það mætti afsaka það, og mun ráðuneytið athuga það, en eins og jeg hefi áður tekið fram hefir það komið fram í háttv. Nd., að rjett sje að setja flutningsgjaldið eftir því, hvað förin kostar.

Sami háttv. þingm. (M. K.) talaði um það, að lægra flutningsgjald hefði tekið verið fyrir eitthvað af vörum til Húsavíkur., Jeg er ókunnugur þessu atriði. Jeg heyrði það fyrst nú alveg nýverið, en jeg hefi spurst fyrir um það. Afgreiðslumaður Sameinaða gufuskipafjelagsins sagði mjer, að dálítið af vörum þeim, er landsstjórnin sendi til Akureyrar og Húsavíkur, hafi verið flutt gegn lægra gjaldi. Það er nú komin fram fyrirspurn um þetta efni í háttv. Nd., og verður því þá svarað nánar, enda þá betur upplýst.

Háttv. þingm. Ak. (M. K.) var að tala um fyrirkomulag landsverslunarinnar, og geta ummæli hans í sjálfu sjer verið góð og bending fyrir bjargráðanefndina, er hefir málið með höndum, en þau koma í bága við það, er bjargráðanefnd háttv. Nd. hefir ætlast til. Mjer hefir skilist svo, sem hún vildi, að sjerstök skrifstofa, laus við stjórnarráðið, annaðist útbýtinguna á vörum innanlands, en að stjórnarráðið annaðist innkaupin. Þar sem háttv. þingm. (M. K.) var að tala um það, að rjett væri að setja þriggja manna nefnd til að standa fyrir landsversluninni, þá verð jeg að skilja það sem hverja aðra bendingu til bjargráðanefndar.

Jeg býst ekki við því, að landsverslunin verði eins og aðrar verslanir landsins. Það skyldi þá helst vera sykurverslunin. Jeg geri ráð fyrir því, að kaupmenn fái vörur, og ef ekki hindrast aðflutningar hingað frá Ameríku, þá stendur kaupmönnum þar opinn markaður. Eins og nú er þá er ekki öll sykurverslunin, ekki öll steinolíuverslunin og ekki öll mjölverslunin í höndum landsstjórnarinnar, og hlutverk landsverslunarinnar er það fyrst og fremst að sjá um, að nógar birgðir sjeu í landinu og að hvergi sje skortur. Að þessu er unnið, meðal annars með skýrslusöfnun, og jeg held, að skýrslurnar sjeu í sæmilegu lagi.

Jeg held, að það sje ekki hægt að gera þá kröfu til landsstjórnarinnar, að hún sjái um nóga aðflutninga og vöru handa sjávarútveginum. Einhvern tíma hættir stríðið, og þá falla vörur í verði, og þá verður tap á þeim fyrir landsverslunina, og tjónið verður þeim mun meira sem birgðirnar eru meiri.

Háttv. þingm. Ísaf. (M. T.) var að tala um skýrslu stjórnarinnar til bjargráðanefndarinnar, og um að hún væri ekki öllum kunn. Það er satt, en jeg var hálfvegis að vona, að skýrslan yrði prentuð svo að segja öll, og þá fá háttv. þingm. skýringu á ýmsum atriðum, sem þeir eru nú að spyrja um.