24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

45. mál, útsæði

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Till. sú til þingsál. um útsæði, sem komin er frá háttv. Nd., inniheldur tvennskonar fyrirmæli: 1. að vekja athygli landsmanna á því, að sjá sjer fyrir útsæði, og 2. að verja fje úr landssjóði handa landsstjórninni til þess að afla útsæðis og til þess að láta gera geymslustað fyrir það. Bjargráðanefnd þessarar deildar hefir ekki viljað ganga að síðara atriðinu, því að hún lítur svo á, að því muni fylgja allmikil fjárútlát, og þó vafasamt, að útsæðisgeymsla í stórum stíl muni hepnast. Auk þess gæti það haft þau áhrif, að sveitarfjelögin köstuðu áhyggjum sínum í þessu efni upp á landsstjórnina og gerðu minna til þess að afla útsæðis en ella.

Nefndin leggur því til, að 2. liður á þgskj. 139 falli niður og í staðinn komi 3. liður á þgskj. 194.