16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

49. mál, styrkur og lánsheimild til flóabáta

Frsm. (Þorsteinn Jónsson); Þessa viðaukatill. á þgskj. 132, frá háttv. þm. N.-Ísf., (S. St.) hefir verið tekin til athugunar í samgöngumálanefndinni, og hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að í henni felist mjög sanngjörn krafa.

Í fjárlögum í fyrra var samþ. að styrkja bátaferðir á Ísafjarðardjúpi með 7.500 kr. árlega. En landsstjórnin hefir ekki viljað láta styrkinn lausan, nema með því skilyrði, að sá, sem tæki að sjer bátsferðirnar um Djúpið, annaðist póstflutninga þar, og eins þótt ís hamlaði sjóferðum. Nú er oss sagt, að báturinn, sem Ísfirðingar hafa, sje 30 smálesta stór. Flestir hinir flóabátarnir, sem hafa 18 þús. kr. styrk hver, eru um 50 smálestir. Og þegar þess er gætt, að bátur þessi þarf að vera póstbátur og útgerðarmaður hans þarf að kosta póstferðir um Djúpið þótt báturinn geti ekki gengið, þá virðist sanngjarnt, að hann fái þessa umbeðnu styrkhækkun, sem nemur einum 1.500 kr. Ef enginn flóabátur gengi um Ísafjarðardjúp, þá þyrfti landið að kosta póstflutninga þar á annan hátt.

Samgöngumálanefndin leggur því til, að þessi till. sje samþ.