17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

52. mál, rannsókn mómýra

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Bjargráðanefndin hefir leyft sjer að bera fram þessa till. Ástæðan til þess er fyrst og fremst skýrsla frá Þorkeli Clementz, sem hefir legið fyrir bjargráðanefnd, og ræðir um mómál, vinslu kola úr mó o. fl. En þetta mál er þannig til orðið, að Clementz fór utan í vetur, sumpart af eigin hvötum og að nokkru leyti með styrk frá landssjóði; fjekk hann til þeirrar ferðar 2.000 kr. styrk af opinberu fje Tilgangur ferðarinnar var sá, að rannsaka móiðnað á Norðurlöndum í ýmsum greinum. Þegar hann kom heim, skrifaði hann þessa skýrslu, sem jeg gat um áðan; hefir verið getið um hana í blöðum og lokið lofsorði á. Hann skýrir svo frá, að hann hafi í þessari ferð sinni sjerstaklega rannsakað nýjustu og fullkomnustu aðferðir við mómjölsgerð, mótöflugerð, mókoksgerð, mógasgerð og loks votkolun. Lýsir hann nokkru nánar hverri aðferðinni fyrir sig, en sjerstaklega er það síðasta aðferðin, sem hann leggur mesta áherslu á og telur líklegasta til að geta komið að notum hjer á landi, ef um móvinslu er að ræða. Með þessari skýrslu sinni hefir hann aðallega bent á tvent, sem hann hyggur að hjer geti komið að notum, og fengið upplýsingar um það. Í fyrsta lagi bendir hann á ýmsar vjelar — og hefir hann sýnishorn af þeim — til flýtisauka og vinnusparnaðar, svo sem við upptöku á mó og fleira.

Í öðru lagi, og er það aðalatriðið fyrir honum, að komið geti til mála að setja upp fullkomna móeltistöð eða móvinslustöð í stórum stíl, með svo nefndri Laval aðferð eða votkolun Það er sú aðferð, sem hann leggur sjerstaklega áherslu á og telur að hjer geti átt við. Þessi aðferð, Lavals aðferðin, er í stuttu máli í því fólgin, að skila mónum saman pressuðum og þurrum, þegar umferðinni er lokið. En það, sem hjer kemur þá fyrst til greina, í sambandi við þessa hugmynd um móvinslu í stórum stíl, er það, hvort hjer sje mór á svo stóru svæði og svo góður, að tiltök sjeu að reisa slíka verksmiðju. Það, sem till. fer fram á, er ekki annað en það, að þetta atriði sje nákvæmlega rannsakað. Það segir sig sjálft, að slík rannsókn verður að fara fram á undan öðrum undirbúningi í þessu máli, því að á henni grundvallast í rauninni alt annað. Till. fer fram á, að landsstjórninni heimilist að gera slíka rannsókn og leggja fram fje til þess En þegar um þetta er að ræða, þá vil jeg benda á, að ekki koma til tals til athugunar nema vissir staðir á landinu. Slíkur móiðnaður verður að vera í námunda við hentugan hafnarstað, þar sem hægt er að koma hinum þurra mó frá sjer og senda hann þangað, sem markaður er fyrir hann. Og þegar á það er litið, að þörfin fyrir slíkan iðnað mundi helst vera í stærri bæjum, allra helst í Reykjavík, liggur það í hlutarins eðli, að slík stöð þyrfti að vera hjer í nánd. Með þetta fyrir augum hefir nefndin sett í till., að þessi rannsókn verði framkvæmd með tilliti til mómýra hjer í grend eða við Faxaflóa. Það eru ýmsir staðir hjer, sem komið geta til greina, og skal jeg þá sjerstaklega nefna mómýrarnar nálægt Borgarnesi og við Búðir á Snæfellsnesi. Ekki mundi heldur frágangssök að athuga staði til slíkrar móvinslu á Vestfjörðum; þar eru hafnir góðar og mórinn ágætur. Álítur nefndin því, að slík rannsókn geti náð þangað.

En svo er fleira, sem kemur til greina þegar um stofnun slíkrar móiðnaðarverksmiðju er að ræða. Menn hugsa sjer hana í stórum stíl, með fullkomnum tækjum og vjelurn, sem reknar væru með einhverjum krafti, og kemur þá til greina annaðhvort rafmagn eða að mórinn sjálfur væri notaður til kraftframleiðslu En það hefir sína ókosti að þurfa að nota móinn, sem unninn er, vegna þess, að það ódrýgir mjög framleiðsluna. Hitt lægi nær, að setja slíka móvinslustöð í samband við vatnsafl og reka hana með rafmagnskrafti, og þess vegna verður rannsóknin að taka sjerstakt tillit til þeirra staða, þar sem auðið væri að setja slíka verksmiðju upp í sambandi við rafmagnsstöð.

Það skilja víst allir, svo að jeg skal ekki fjölyrða um það, að slík móvinsla, sem hjer er um að ræða, mundi koma að mjög miklu gagni hjer á landi, ef auðið yrði að koma henni á fót, en fyrsta spurningin er þó það, hvort mór landsins sje til þess fallinn að vinna úr honum með Lavals-aðferðinni. Þorkell Clementz og fleiri, sem hafa rannsakað hann, telja, að mórinn sje mjög öskumikill; bæði sje innan um lögin aska frá gömlum eldgosum, og sjálfur sje hann mjög öskuborinn. Þetta er svo mikill galli, að mörg sýnishorn, sem rannsökuð hafa verið, sýna það, að þau eru með öllu óhæf til móvinslu á þennan hátt, og er það mjög leitt og óhagkvæmt, að mórinn, einmitt hjerna í kring um Reykjavík, skuli hafa þennan mikla ókost. Það má telja áreiðanlegt, að ef mórinn er svo mjög öskuborinn, þá sje það illkleift og um of kostnaðarsamt að vinna úr honum með Lavals-aðferðinni, og því verður nákvæm rannsókn að fara fram áður en hægt er að hugsa um móvinslu hjer á landi í stórum stíl. Þetta er nefndinni ljóst, og þess vegna leggur hún til, að slík rannsókn verði framkvæmd. Verði þessi till. samþykt, liggur það í hlutarins eðli, að stjórnin á að annast um, að þessi rannsókn fari fram. Nefndin hefir ekki gert neina áætlun um, hvað þessi rannsókn muni kosta, en með tilliti til þess, að hún hlýtur að miðast við ákveðna staði hjer á landi og ekki mjög langt frá Reykjavík, mætti ætla, að hún þyrfti ekki að kosta mjög mikið; jeg hefi hugsað mjer svona 3—4.000 krónur, en þetta segi jeg nú á mína ábyrgð. En mjer finst sjálfsagt að kosta til þeirrar rannsóknar.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í till. að sinni. Við hana er komin brtt. á þgskj, 131, frá háttv. þm. Dala. (B. J.); hún er í mörgum liðum, og kennir þar margra grasa. En jeg skal geta þess, að það er annar maður úr nefndinni, ritari nefndarinnar, sem tekið hefir að sjer að fara nokkrum orðum um þá tillögu.