17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

52. mál, rannsókn mómýra

Bjarni Jónsson:

Jeg byrja á því, svo að eigi gleymist, að mjer láðist að gera tillögu um að breyta fyrirsögn tillögunnar. En þetta þarf eigi að saka, þótt till. færi til 2. umr. með hjáleitri fyrirsögn, því að þá mætti færa hana í rjett lag.

Jeg heyri að komið er gorhljóð í hv. sessunaut minn (S. St.), því að hann vonar að sjer og öðrum jafnsnjöllum bjargráðafrömuðum muni takast að fella þessa tillögu mína. Jeg býst og við því sjálfur, en mun þó mæla nokkur orð fyrir henni. Og fyrirfram mun jeg leggja áherslu á það, að það verður á ábyrgð þeirra háttv. þm., sem fella till. en ekki á minni, þótt fátt verði um bjargráðaráðstafanir þessa þings.

Mjög svo eðlilegt er það, að stjórnin vildi hafa þingið sjer við hlið, er ákveða skyldi um ráðstafanir til þess að tryggja líf landsmanna. Því að oss er nú þörf á allri varúð og þörf á að búa svo um, sem gera þyrfti, ef landinu væri lokað. Eins og allir vita, hefir verslun vor eigi verið frjáls frá því er ófriðurinn hófst, og hefir æ farið versnandi. Það er því engin furða, þótt stjórnin hafi óskað að hafa þingið við hlið sjer, einkum þar sem nú standa yfir samningar við aðra hlið ófriðarins. Má auðvitað segja, að þingið hafi unnið mikið afrek í bjargráðamálunum, er það hefir fyrir sitt leyti ráðið fram úr samningamálinu, heyrt málaleitanir frá báðum hliðum, hugsað þær, rætt þær og gert ályktun um þær á 1½ klukkustund. En þótt hjer væri sýndur mikill dugnaður, skjótvirkni og snarræði, ef vel var ráðið, þá er þó þörf áframhalds. Því að enn þá er samningum ólokið, og vitum vjer því eigi, hvort nokkrar vörur verða fluttar inn í landið, og eigi við hverju verði, þótt þær fáist. Það er því eigi seinna vænna að gera ráðstafanir til þess að landsfólkið geti lifað, þótt taki fyrir alla aðflutninga.

En þótt úr samningum verði, og vjer fáum loforð fyrir nægilegum innflutningi, þá er eftir að tryggja aðflutning vörunnar. En það getur enginn gert. Vjer höfum eigi svo mikinn skipakost, að vjer megnum að flytja að oss miklar birgðir á skömmum tíma, heldur verðum vjer að selflytja og verja til þessum löngum tíma. Þá gæti svo farið, að önnurhvor hlið ófriðarins svifti oss skipunum, áður en vjer hefðum náð að flytja helming forðans heim. Væri því lítil forsjón í því, ef Alþingi færi heim vongott í þeirri trú, að öllu væri borgið, en veturinn kæmi yfir oss óviðbúna. Þykir jafnan seint að herklæðast þegar á hólminn er komið.

Þess vegna hefi jeg leyft mjer að koma fram með till. um ýmsar sjálfsagðar ráðstafanir, sem gera þarf nú þegar. Jeg hefi flutt þessar till. sem brtt. við till. um eina sjerstaka ráðstöfun, nefnilega að rannsaka mómýrar. Jeg fer fram á það, að í einni till. sjeu talin upp þau atriði, sem nauðsynleg eru til þess að tryggja líf landsmanna. Jeg hefi gert tilraun til þess að nefna höfuðatriðin, en vel má vera, að jeg hafi gleymt einhverju, en hitt er jeg sannfærður um, að jeg hefi eigi talið neitt, sem óþarft er.

Jeg vil geta þess í upphafi, að þessi till. mín hvílir á þeirri skoðun, sem jeg lýsti fyr, að nauðsyn krefji að tryggja líf landsmanna, ef illa fer. Hitt er auðvitað, að þetta felur í sjer ýms óþægindi og fyrirhöfn, sem er óþarft, ef vel gengur. En þau ófriðaröfl, sem nú eru að starfi í heiminum, minna oss ljóslega á að búast við því illa, það góða skaðar ekki. Enda væri það ill byrjun á þeirri sjálfstæðisöld, sem þessir stórhuga háttv. þingmenn ætla að láta renna upp yfir þessu landi í sumar, ef menn fjellu af hungri fyrir ráðleysi þingsins.

Það er alkunna, að veðurátt er hjer svo köld og landshættir allir með þeim hætti, að gróður landsins getur ekki fætt íbúana. Verða þeir því að lifa við dýrakjöt láðs og lagar, og hefir landslýður afgang þar, sem hann selur fyrir þær fæðutegundir og aðrar nauðsynjar, er hann þarf að fá að. Má það og kalla hyggilega búið, meðan samgöngur eru í því horfi, sem orðið var fyrir styrjöldina. En þótt gróður sje eigi ríkulegri hjer en sagt var, þá grær þó margt hjer á landi, sem hafa má til þess að blanda fæðuna og gera hana margbreyttari og hollari. Og jeg er sannfærður um, að landsfólkið getur bjargast við það, sem landið gefur, ef það er notað rjett. Er það í rauninni hið æskilegasta, að svo sje ætíð, en nú er það lífsnauðsyn. Saga vor sýnir, að þetta má takast. Því að á fyrri öldum var verslun svo háttað, að lítið fluttist til næringar og eigi átti reiða sig á, að þetta litla kæmi. Þá urðu menn að lifa við það, sem landið gaf. Raunar má segja, að nú sje fleira fólk í landinu og því erfiðara að alast við afurðir landsins. En þetta er þó annars vegar ekki alveg rjett, því að á blómaöld landsins var hjer fleira fólk en nú og þó miklu minna flutt að af matvöru. Á hnignunartíma landsins var oft færra fólk en nú, en það breytir engu. Því að enginn skortur þarf að vera á þeim tegundum hjer á landi, sem hafa má til manneldis.

Íslendingar hafa og frá landnámstíð lagt stund á að hagnýta sjer gróður landsins til manneldis, og hafa þeir lært margt í því efni af reynslunni. Byggrækt var allmikil hjer á landi frá því fyrsta og hjelst langt fram í aldir, að minsta kosti fram til miðrar seytjándu aldar. Og þótt hún hafi nú lagst niður, þá er ósannað, að það hafi verið fyrir þá sök, að það væri ekki tilvinnandi. Miklu nær liggur hitt, að hún hafi lagst niður af öðrum orsökum. Það má vera, að nú á tímum borgi sig lítt að rækta hjer bygg, þegar samgöngur eru í því horfi, sem kornið var fyrir heimsstyrjöldina. En á einokunartímunum hefir það vissulega borgað sig. Orsökin til þess, að hætt var, hefir vafalaust verið sú, að verslunin hefir eigi flutt þau áhöld og efni, sem nauðsynleg voru til akuryrkju. Eymd og ódugnaður gæti verið samverkandi orsök, en hitt má telja víst, að á þeim tímum hafi menn vitað, í hverju landi þeir bjuggu og reynt að hagnýta sjer alt, sem þeir vissu vaxa nýtilegt í landinu. Nú er þetta með öðrum hætti, því að svo er að sjá, sem mönnum hafi komið það mjög á óvart í vetur sem leið, að frost gætu komið á Íslandi. Ýms verk manna á síðari árum benda til þess, svo sem þá er menn fleygja ræsum í vegi svo ofarlega, að þau hljóta að frjósa nema í bestu vetrum. Þeir menn, sem muna eigi frostaveturinn 1880—81, sýnast eigi vita, hvar þeir búa, og vera einskonar útlendingar hjer á landi.

En þótt framkvæmd væri þessi till. um að hagnýta sjer gróðrarríki landsins og gróðrarmáttugleika þess, þá er ekki þar með sagt, að komist verði hjá öllum aðflutningi, en með því mætti spara þann kornmat, sem er og verður í landinu, svo mikið, að vjer þyrftum eigi að taka öllum afarkostum næstu ár

Safna má ýmsu og geyma hitt og þetta af þeim tegundum, sem jeg hefi nefnt í till., og þótt það sje ekki alt í stórum stíl þá hjálpar það þó alt til þess að gera matinn fjölbreyttari, og nokkurt næringargildi hafa þær allar, þótt misjafnt sje.

Söl og fjörugrös má taka að mun og geyma til forða. Fjallagrösin þekkja allir, og heimulan þykir mörgum sælgæti. (St. St.: Á ekki stjórnin að fara á berjamó?). Já, vel á minst, þá eru berin. Jeg heyri, að ýmsir háttv. þm. reyna að færa háð að þeirri till. En þeir ættu að vera komnir til Noregs. Þar var í hverju blaði áminning um að nota berin, og þó var jeg þar fyrir stríðið; þar voru boðin ber í hverju veitingahúsi, og Austmenn flytja árlega út ber fyrir miljónir króna. Það þarf því vel heimska menn til þess að hlæja að berjunum, enda segja menn, sem vit hafa á, að vjer myndum mega flytja út ber fyrir tugi þúsunda af krónum.

Það vex sjálfkrafa, sem jeg hefi enn þá nefnt. En nú mun jeg drepa á hitt, er rækta má. — Jarðeplin þekkja allir og kunna meira og minna til jarðeplaræktar, enda hefir nýlega verið gefinn út leiðbeiningabæklingur í því efni. Enginn efi er á því, að vjer getum ræktað nægju vora af jarðeplum, jafnvel á sultartímum, þegar þau eru höfð í korns stað, og meira að segja heila skipsfarma til útflutnings. En nú má eigi bíða þess, að jarðeplaræktin smáaukist þar til þetta næst. Nei, nú verður að vinda bráðan bug að framkvæmdum, svo að vjer förum eigi á mis við jarðeplauppskeru nú í sumar.

Þá kem jeg að bygginu. Það hefir verið ræktað frá landnámstíð og fram á miðja 16. öld að minsta kosti, bæði norðanlands og sunnan. Fyrir norðan hjet einn akurinn Vitazgjafi, af því að hann brást aldrei, og á Suðurlandi voru margir ágætir akrar. Björn Magnússon Olsen hefir ritað um þetta efni mjög svo ítarlega í Búnaðarritinu. Getur hann þess þar, að uppskeran í Görðum á Álftanesi hafi verið 60 tunnur af korni eftir íslensku máli, en 63.18 tn. að dönsku nútíðarmáli. Segir hann og, að uppskeran á Bessastöðum hafi eigi verið minni og þá eigi heldur að Útskálum. Ekki mundi slíkt talið ónýtt búsílag, ef aðflutningur teptist. Jeg minnist þess, að mjer var svarað því til um annað mál hjer í salnum, að „þótt vjer gætum alist við eigin fæði og hreint með því forða vorn til næsta vors, hvað yrði þá?“ Nú, þá yrði oss það fyrir sem fornmönnum, að rækta bæði bygg og aðrar nærandi jurtir. — Það má yfir höfuð að tala kalla heimsks manns hátt að sækja það um langa vegu og torfæru, sem sprottið getur úr skauti landsins sjálfs.

Jeg gat þess fyr um káltegundir þær, sem till. nefnir, að þær eru ekki sjerlega næringarmiklar, en þó allar hin bestu nytjagrös. Jeg hirti þó eigi að telja allar tegundir þær, er rækta má eða safna sjálfvöxnum. T. d. nefndi jeg ekki skarfakálið, er menn söfnuðu áður og geymdu í skyri eða sýru. Jeg hefi eigi heldur nefnt íslenska kornið eða melinn, en það vex, sem menn vita, hjer austur um sandana, og má vel rækta það hvar sem er. Skaftfellingar hafa haft það til brauða, og er það vafalaust nýtanda, einkum ef jurtafæðu vantar, til þess að hafa með slátri eða fiski. Mun sá siður hafa haldist um margar aldir. Að minsta kosti telja menn, að þar hafi geymst meðferð hinna fornu Íslendinga á korni, skrýfing, þresking o. fl.

Jeg kann því miður eigi deili á efnasamsetning allra þessara hluta, enda þekkja menn þá flesta. Tel jeg sjálfsagt, að stjórnin fái bestu lækna landsins til þess að gera þjóðinni matseðil, er greini, hversu alíslenskum fæðutegundum má haga svo, að vel sje. Um þarana veit jeg lítið eitt, hversu þar er efnum blandað:

1. Söl (Rhodymenia palmata): þurefni 17,45%, köfnunarefnissambönd (mest eggjahvítuefni) 15,37% af þ. e., önnur efni (mest kolvetni) 54,76% af þ. e.

2. Sjóarkræða (Gigartina mamillosa): köfnunarefnissambönd 22,75% af þ. e., önnur efni (mest kolvetni) 54,83% af þ. e.

3. Purpurahimna (Porphyn umbilicali): köfnunarefnissambönd 27,80% af þ. e , önnur efni 51,99%.

(Samkvæmt rannsókn Ásgeirs Torfasonar).

Þessar tegundir eru þannig fyrirtaks næring, einkum þar sem meltanleiki köfnunarefnissambanda er mikill (Porphyn 73,0%, Rhodymenia 78,9%, en Gigartina minst 51,7%).

Næringargildi hinna tegundanna er svo alþekt, að ekki þarf að tilgreina það.

Þá er eldiviður ein af helstu nauðsynjum landsmanna, og við það afarverð, sem er nú á erlendu eldsneyti, þá er það lífsnauðsyn að afla hans innanlands. Verður því að knýja hvern einstakling til þess að fá til bús síns sem mest af innlendu eldsneyti. Mætti meðal annars skipasýslunefndum, hreppsnefndum og hreppstjórum að ganga mjög ríkt eftir, að þetta sje framkvæmt. En þar sem líkur eru til, að það nægi ekki, sem einstaklingar afla, þá er ekkert að því, að eldiviðartekja fari fram á alþjóðarkostnað eða hjeraða, einkum í bæjum og verstöðvum.

Þar er þá fyrst að nefna surtarbrandstekjuna. Þótt námugröftur í stórum stíl borgi sig ef til vill eigi í vanalegu ári, þá er þó víða svo handhægt að ná því eldsneyti, og ætti að mega fá það svo ódýrt, að það margborgaði sig nú. — Landssjóður mundi þá sennilega halda áfram námu þeirri, sem hann hefir unnið, er fenginn er maður, sem til kann og notar rjett verkfæri. En auk þess væri sanngjarnt, að hann hjálpaði mönnum um vegarspotta til flutnings, ef þeir vildu sjálfir vinna surtarbrand, og að sjálfsögðu fengi menn að nota sjer surtarbrandstekju á landssjóðsjörðum. Sumstaðar gætu menn tekið jöfnum höndum mó og surtarbrand, eftir því sem landshættir eru.

Sama er um mótekju, að þingið þarf að leggja ríkt á við stjórnina að ganga eftir því, að afla hans sem mest má verða, án þess að slökt sje niður enn þá nauðsynlegri störfum, svo sem heyskap.

En ekki kunna allir að leita að mó, og ætti því að fá almenningi sjerstaka móleitarmenn, og mætti landssjóður vel kosta nokkru til þess. Jeg hefi tekið eftir því, að búnaðarsamband Austurlands hefir haldið sjerstakan móleitarmann og hefir gefist ágætlega, t. d. í Vopnafirði.

Þá er kolmógerðin. Þar eru till. mínar viðaukatill. við þingsályktunartill. þá, sem er hjer til umr. Hníga þær að því, að eigi sje að eins rannsakað, hvar mór sje, heldur og vídd, dýpt og gæði, og vitað verði, hvort og hvar muni borga sig að gera Lavalstöflur. Ekki legg jeg mikið upp úr því, sem hæstv. forsætisráðherra mintist á, að eitthvert gróðafjelag hefði sent hingað mann til þess að rannsaka mó, og hefði sá lítinn eða engan fundið. Jeg trúi ekki þessum erlendu hlaupatíkum, er útlend fjelög senda og enginn veit, hvort nokkurt vit hafa á málinu. Enda þurfum vjer eigi að spyrja slík aðskotadýr um það, því að vjer vitum þó miklu meira sjálfir. Helgi bróðir minn hefir haft á hendi rannsóknir á mómýrum og hefir látið leysa móinn sundur til rannsóknar í efnarannsóknarstofunni hjer. (sjá skýrslu Ásgeirs Torfasonar í Búnaðarritinu. Nú gæti hann vel rannsakað það, sem hjer um ræðir, vídd mómýranna og dýptina á mónum, ef hann hefði verkfæri. En nú heyri jeg, að Búnaðarfjelagið hafi selt þann eina mónafar, sem það átti. Vera má, að Þorkell Clemenz geti bætt úr þessu, því að hann hefir einn eða tvo nafra, ef jeg man rjett. Nú mætti spara sjer mikinn kostnað með því að biðja Helga að gera þessa rannsókn á Austfjörðum, því að hann fer nú hvort sem er norður og austur til grasfræðirannsókna og sjerstaklega til þörungarannsókna þeirra, sem um var rætt á síðasta þingi. Annars vita menn, að mór er víðast til hjer á landi, en misjafn mjög bæði að vöxtum og gæðum. Bestur mór og dýpstur er á Vestfjörðum og Austfjörðum. Er mjer t. d. sagt, að á Hjeraði sjeu 20 stungur niður. Sagt er mjer og, að Borgarfjörður eystra sje ein mómýri og hún góð, og mun svo víðar vera á Austfjörðum. Nú þarf helst að fara saman nógur og góður mór og góð lending eða höfn. Þetta mun hvorttveggja vera til á Vestfjörðum og Austfjörðum á ýmsum stöðum. En það var þó rjett, sem ráðherra hafði eftir útlendingnum, að á norðanverðu Snæfellsnesi er góður mór, en á miklu minna svæði en því, sem jeg hafði nefnt. Við Faxaflóa er og mór víðast hvar, en þó eigi svo góður og djúpur sem á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Kolmórinn kemur úr vjelinni í litlum töflum; eru þær jafnhitamiklar sem jafnþungi af kolum, og má því brenna þeim á skipum, en rúmtak þurfa þær nokkru meira, og eru því óþægilegri en kol. En ekki væri það þó lítilsvert, ef vjer gætum látið skip vor ganga fyrir innlendum aflvaka og þyrftum eigi að sæta afarkostum Jeg legg því til, að stjórninni sje heimilað að veita 400.000 —500.000 kr. fúlgu til þess að setja á stofn kolmógerð, því að vel gætum vjer grætt á því, og átt þó við betra að búa en ókjör þau, sem nú eru. En menn þurfa eigi að kvíða því, að þessu fje verði kastað á glæ, því að fyrst verða gerðar allar rannsóknir, en stöðin því að eins sett á fót, að líklegt sje, að hún borgaði sig. En þótt það sje í óvissu, hvort hún kemst á fót eða ekki, þá þarf þó nú heimildarinnar, því að of seint væri að fá hana á næsta þingi. Það mundi fresta framkvæmdinni um eitt ár. Jeg kann eigi frá því að segja, hvort vjelar Lavals eru þýsk smíði og geta því eigi fengist, en hitt veit jeg, að þær má gera í Svíþjóð, og er þar nóg efni.

Þessi mótekja, kolmógerðin, kemst eigi á í sumar, af því að ekkert var gert í fyrra. Það er gamla sagan, að þurfa að naga sig í handarbökin á hverju ári fyrir gleymsku og framkvæmdaleysi árið áður. Nú er að gæta þess, að vjer þurfum eigi að naga oss í handarbökin næsta ár. Því að þá megum vjer betur við því að neita ókjörum næsta ár, ef svo ilt skyldi um heiminn hugsa, að einhverjir yrðu til þess að bjóða oss þau. En kæmi slíkt fyrir, þá er betra að hafa þó einhver framleiðslu- og flutningatæki í höndum.

Jeg segi það nú hjer í heyranda hljóði og lýsi yfir því, að þetta mál er eigi á minni ábyrgð framar, heldur þeirra, sem fella till. mína. Er óvandari eftirleikurinn fyrir mig að fella dóminn síðar.

Jeg hverf frá þessum lið og skal minnast nokkrum orðum á þriðju tegund eldsneytiskaflans, skógarhöggið. Viða þarf að grisja skóga, og má fá þaðan feikn af eldivið án skemdar á skógunum. Skógræktarstjórinn bað um litla upphæð um daginn til þess að láta höggva, og er vonandi, að það verði veitt og vinnan rekin vel. Sjálfsagt er og að hlutast til um, að menn höggvi sjálfir undir eftirliti skógræktarmanna.

Bátavið er lífsnauðsyn að eiga í landinu. Jeg gat þess í ræðu á síðasta þingi, að rjett væri að fiska sem mest á opna báta, og yrði þá að fá til efnivið. Bar jeg fyrir mig einn af duglegustu útgerðarmönnum hjer, Elías Stefánsson. Kom okkur ásamt um, að sá útvegur mundi borga sig lengst, ef atvinnuvegurinn yrði beittur ofbeldi. Þótt olía og kol verði svo dýrir aflgjafar, að fiskverðið hafi eigi við, þá er mannaflið hið sama og vindurinn samur, að eins efnið í bátinn nokkru hærra. Mætti því vel borga sig að fiska með þessum hætti. Og rjett væri að afla efnis eða láta afla til færa og netja, svo að menn hefðu verk að vinna í landlegum. Þarf eigi að orðlengja hjer um, því að þessir hlutir eru hverjum manni auðskildir.

Þá hefi jeg lagt til, að fengin yrðu verkfæri til þess að vinna salt úr sjó, því að betra er að hafa það en ekki, ef samningar ganga nú eigi saman og oss verða meinaðar allar siglingar. Þetta hefir verið gert á mestu vesaldómsárum og öldum þjóðarinnar, og hefi jeg sjeð á nokkrum stöðum leifar af saltbrenslutækjum. Jeg býst eigi við, að slík saltvinsla yrði arðvænleg þegar viðskifti komast aftur í samt lag, en þangað til mætti vinna nóg til matar. Sumir menn hafa borið brigður á það, að vjer mættum lifa hjer við það, sem landið gefur, og fært það til, að oss vantaði salt. En þeir hafa gleymt því, að hjer hefir verið unnið salt og má vinna salt til matar. Auk þess má komast af með miklu minna salt en nú er neytt. Má t. d. herða fiskinn. Deyr enginn, sem hefir nægan harðfisk að eta og aðrar íslenskar fæðutegundir að tiltölu. Hangið kjöt er og góð fæða og jafnvel vindþurkað. Auk þess mætti hafa íshús á hverju strái. Gætu menn því lifað við minna salt en nú og jafnvel ekkert. En betra er þó að hafa það, ef menn geta fengið það heima hjá sjer.

Ef svo færi, að vjer yrðum hjer inniluktir á hólma vorum, þá mundum vjer síður komast í kjötskort eða fiskjar heldur en feitmetis og mjólkur. Og er því alveg sjálfsagt að sjá um, að fært sje frá öllum ám og málnytan hagnýtt sem best til smjörgerðar, osta, skyrs og sýru. Vel má vera, að sumstaðar hagi svo til, að eigi sje þar kjarngott undir bú, eða að einhvern mann skorti fólk, en fje svo fátt, að eigi borgi sig að bæta manni við En þá er hægurinn hjá að flytja fjeð á betri haga og hafa það í samlögum við annan eða aðra, annaðhvort í heimahögum eða í seli. Nú er eigi á það hyggjandi að græða eða hafa mikinn ágóða af atvinnu sinni, heldur hitt, hvern veg megi tryggja líf allra landsmanna. Nú er sjávarútvegur svo lamaður, að gera má ráð fyrir, að þriðjungur manna, er hann hefir stundað, missi atvinnu sína og hafi ekkert að lifa á. Þá verður þeim helst bjargað með því að fá þeim vistir uppi í sveitum. En það verður að gera svo tímanlega, að bændur geti notið sumarvinnu þeirra, því að annars væri þeirra kosti þröngt. En kvikfjárræktin er hið eina líf landamanna ef að kreppir, og ber því að auka hana sem mest. Verður því að fá bændum vinnukraft, en tilskilja það, að þeir búi fyrir alla þjóðina og semji búskap sinn eftir því.

Menn verða að gæta þess, að jeg hefi borið þessar till. fram í því skyni, að tryggja líf þjóðarinnar, ef illa fer, til þess að koma í veg fyrir, að helmingur þjóðarinnar falli úr hungri. Eða hvort mundu menn eigi vilja leggja þetta á sig, til slíkrar tryggingar, jafnvel þótt óttinn rætist ekki? Jeg segi ekki, að þetta verði, en jeg segi, að það geti orðið. Og þá vildi jeg, að vjer værum færir til þess að taka á móti. Eða hver er svo djarfur, að hann þori að taka líf þjóðarinnar í ábyrgð, ef skipum vorum yrði sökt eða þau tekin áður en vjer hefðum flutt að oss forðann? Hver þorir að taka það á sína ábyrgð, að ekkert sje gert til þess að tryggja líf vort ? Hver þorir að ábyrgjast að láta heila þjóð fljóta sofandi að feigðarósi?

Til þeirra framkvæmda, sem nú voru nefndar, þarf stjórnin víðtæka heimild til þess að ráðstafa mönnum og fje, í því skyni að tryggja líf þjóðarinnar fyrir yfirvofandi hættu. Gæti jafnvel komið fyrir, að gera þyrfti sömu ráðstafanir sem tíðkast, þegar borg er lýst í hergirðingu. Þá hefir daglegt líf eigi sína eðlilegu rás, heldur fyrirskipar stjórnin eða herstjórnin mönnum starf og lifnaðarháttu. En ef til þess þarf meiri heimildir en stjórnin hefir, þá verður Alþingi að veita henni þær, og yrði þá að gefa sjer tíma til þess að athuga ekki smærra mál en það, hvort rjett sje að sjá lífi þjóðarinnar borgið, eða hvort hana eigi að setja á guðs náð og gaddinn. Rjettast væri, að stjórnin legði nú fyrir þingið nauðsynleg lög í þessu efni, ef tími vinst, en geri þá bráðabirgðalög, ef það er satt, sem heyrst hefir, að háttv. þm. hafi eigi tíma til þess að bjarga mannfólkinu í landinu, áður en bjargráðanefndin heldur heim af þingi.

Jeg bið háttv. frsm. bjargráðanefndar (S. S.) að fyrirgefa mjer, hversu stuttorður jeg hefi verið um svo mikið mál og svo ágæta nefnd. En að endingu vil jeg geta þess, að þar sem háttv. þm. með rjettu telja það mjög mikilsvert, að fjenaði sje ætlað nóg fóður yfir veturinn, þá muni þeim eigi síður þykja ástæða til um þessa háttv. þm. og kjósendur þeirra, að setja þá vel á og ætla þeim að sínu leyti jafnmikið fóður og hinu sauðfjenu.