17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

52. mál, rannsókn mómýra

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla, úr því að mjer hefi yfirsjest við þessa till., að taka hana aftur og leggja hana aftur fram við síðari umr. Svo skal jeg leyfa mjer að þakka þessum háttv. þm., sem hafa rætt þessa till. Það var reyndar sök sjer um hinn fyrri háttv. þm. sem talaði (P. J.),en um hinn síðari (E. J.) er það að segja, að hann er snjallastur við að styðja þau málin, sem hann vill fella. Annars var það illa til fallið fyrir þennan háttv. þm. (E. J.) að nota þessa till. til þess að ráðast á Helga bróður minn. Annars hefði hann líka mátt heyra það, að jeg las upp næringargildi ýmsra þeirra jurta, sem hann hefir rannsakað, og er því illa til fallið að nota þessa till. til þess að gera einskonar grímuklædda árás á bróður minn, án þess að mál þetta snerti hann nokkuð. Hefði jeg náttúrlega ekki nefnt verk hans að neinu, ef ekki hefði staðið svo á, sem nú er. Að öðru leyti þakka jeg háttv. þm. (E. J.) fyrir stuðninginn og trúi því, að satt sje, sem annar þeirra sagði, að gott væri að senda þá heim, — ef ekki færu fleiri.