21.06.1918
Sameinað þing: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

52. mál, rannsókn mómýra

Pjetur Jónsson:

Það vill nú svo til, að frsm. Nd. nefndarinnar í máli þessu, háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), er ekki viðstaddur, en það vill líka svo til, að jeg hygg, að jeg þurfi ekki að mæla langt um málið.

Það hefir orðið lítils háttar ágreiningur milli deildanna út af þessu máli, en þó sje jeg ekki, að hann sje svo lagaður, að ekki geti orðið samkomulag. Háttv. Ed. hefir viljað takmarka framlagið til þessara mómýrarannsókna við 3.000 kr, en það sjer Nd. nefndin sjer ekki fært og getur því ekki fallið frá sinni till., því að hún kom með hana í því skyni, að það fengist full rannsókn á, hvort svo mikinn mó myndi að fá í nokkurri af mómýrum landsins, að leggjandi væri þar út í móiðnað í stærri stíl, og þá helst með Lavals-aðferð svokallaðri, sem þykir best. Er hún nú notuð mikið í Svíþjóð, þar sem móvinsla í stórum stíl er lengst komin. Nú skilst oss, að Ed. nefndin sje ekki á móti því í sjálfu sjer, að svo grandgæfilega sje rannsakað, en að hún vilji láta 3.000 kr. nægja til kostnaðar. En vjer teljum vafasamt, að það nægi, því að ítarlega rannsókn verður að fá á stórum mýraflákum, til þess að fá vissu fyrir, að þar sje svo mikið, að nægi til þess að stofna á því móiðnaðarfyrirtæki.

Við fyrri umr. málsins hefir verið skýrt frá því, hvað slíkt fyrirtæki með Lavals-aðferðinni myndi kosta hjer. Það var áætlað ekki yfir ½ milj. kr , ef lagt er út í það með nokkurri fyrirhugun. En þá verður að vera farin á undan svo góð og fullkomin rannsókn, að menu geti gengið út í það með sæmilegri vissu. Og það, sem vjer ætluðumst til í Nd., var að ljetta þessum kostnaði við fullkomna rannsókn sem mest af þeim einstöku mönnum, sem hug hefðu til að ráðast í fyrirtækið.

Að öðru leyti ber nefndunum ekki það á milli, að ástæða sje til fleiri orða um það.