21.06.1918
Sameinað þing: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

52. mál, rannsókn mómýra

Pjetur Jónsson:

Það er fjárspursmálið, sem jeg vildi minnast á. Það er alls ekki rjett að toga það fram sem hreina mótsetningu, þótt Nd. nefndin vilji ekki tiltaka vissa fjárupphæð, rjett eins og hún vildi heimila að verja ótakmörkuðu fje, jafnvel svo tugum þúsunda skifti, í þessa rannsókn. Auðvitað gerum við þessa till. okkar á þeim grundvelli, að ekki sje lagt meira fje í hana en nauðsynlegt er. Stjórninni hafa svo oft verið falin lík mál, og hjer um bil aldrei verið tiltekin ákveðin fjárhæð, nje legið fyrir ábyggileg áætlun um kostnaðinn. En nú leikur vafi á því, hvort hægt sje að nota innlendan mann til rannsóknarinnar, eða að það verði að fá útlendan sjerfræðing til þess, og hvort nauðsynleg verkfæri sjeu til í landinu, eða þau verði að fá frá útlöndum. Um þetta er má ske ágreiningur, og geri jeg ráð fyrir, að það vaki fyrir hv. Ed., að notast megi við innlendan mann. Jeg get ekki sagt, að það hafi verið neitt einskorðað í Nd., hvort maðurinn skuli vera inniendur eða útlendur, heldur verði að fela stjórninni að velja svo hæfan mann, að rannsóknin verði fullkomin, eða svo ábyggileg, að sjeð verði, hvort leggjandi sje út í móiðnað með Lavals-aðferðinni eða öðrum móvinsluaðferðum. Jeg held þess vegna, að jeg geti ekki lýst yfir fyrir hönd bjargráðanefndar Nd. neinu ákveðnara en þessu. Væri maður innanlands, sem stjórnin treysti til að rannsaka svo, að byggja mætti á þeirri rannsókn, samkvæmt því sem jeg hefi tekið fram, og að það gæti orðið undirstaða fyrir fjelagsstofnun innanlands til að ráðast í fyrirtækið, þá væri það auðvitað best, en væri hann ekki fáanlegur, þá yrði að taka útlending. Af þessum ástæðum ljet nefndin upphæðina óákveðna. Hún taldi ekki svo gott að áætla nákvæmlega, hvað útlendur maður mundi kosta.

En um það er enginn ágreiningur, að rannsóknin verður að bindast við takmarkað svæði. Það eru ekki margir mýraflókar, sem til greina geta komið. Það er því ekki ætlast til að leita um alt landið. Upphaflega var svo til ætlast, að aðallega yrði leitað fyrir sjer við Faxaflóa, t. d. í Borgarfirði og á Snæfellsnesi, því að þar eru stærstar mómýrar og eigi sem verst aðstaða til að vinna móinn og flytja hann þangað, sem hann yrði mest notaður, t. d. til Reykjavíkur. Þess vegna er enginn ágreiningur um það. Að vísu kom okkur í hug, að það gæti komið til mála að leita á Vesturlandi, því að þar er að allra dómi góður mór. En hitt er vafamál, hvort þar eru svo stór mósvæði, að þar sje leggjandi út í verksmiðjuiðnað í stærri stíl. En við höfum viljað benda stjórninni á að miða rannsóknina við það, að fyrirtækið yrði í stórum stíl, og höfum nefnt Lavals-aðferðina, af því að hún er nú talin hagkvæmust aðferð til að vinna mó, þannig að hann verði sem fyrirferðarminstur og þægilegastur til flutninga og um leið sem nota best eldsneyti. En það er enginn meginmunur á því, hvort það er Lavals-aðferðin eða einhver önnur samskonar aðferð, sem notuð yrði og viðurkend er í móiðnaðarlöndum eins og Svíþjóð. Rannsóknin verður mjög eða alveg hin sama, hver aðferðin sem er, ef á henni á að byggja „plan“ fyrir verksmiðjuiðnað. Það liggur alls ekki í till. okkar, að landssjóður skuli fara að ráðast í slíkt fyrirtæki. Hugsunin er, að einstakir menn eða fjelög „privat“-manna leggi í það, svo framarlega sem efni eru til og staðhættir leyfa, og höfðum við dálítið fyrir okkur í því, að svo mundi verða.

En aftur á móti ef fara ætti að rannsaka mómýrarnar til þess að hafa svipaða aðferð og nú, að elta móinn, og fjölga móeltivjelum hjer á landi, en ekki væri ætlunin að hefja móiðnað, þá fanst oss ekki ástæða til að kosta opinberu fje til slíkrar rannsóknar, að minsta kosti ekki að svo komnu. Jeg held því, satt að segja, að ef brtt. okkar nefndarmanna Nd. verður ekki samsamþykt, þá geti farið svo, að þessi þingsályktun komi ekki að tilætluðum notum.

Mjer skildist það á háttv. frsm. Ed. nefndarinnar (G. G.), að hann álíti þetta heldur seint til komið til þess, að í því gæti talist nokkur bjargráðaráðstöfun. Getur það verið rjett að nokkru leyti. En þó hygg jeg, að svo geti farið, að aðfengið eldsneyti geti um alllangt skeið orðið svo dýrt, að það þurfi svona „bjargráð“, ef framkvæmanleg eru, til þess að efla sjálfstæði landsins í eldsneyti, og gæti þá móvinslan náð tilgangi sínum. Það hefir þegar sýnt sig í Svíþjóð, að mór er ef til vill ódýrasta eldsneytið sem til er. Gæti og farið svo hjer, og ef rannsóknin sýndi, að móland væri hjer nóg, væri það varla áhorfsmál að ráðast í móiðnaðarfyrirtækið, enda þótt það kostaði hátt upp í 1 milj. kr. til að byrja með. En þetta liggur ekki fyrir nú. En ef þessi rannsókn kæmist á svo tímanlega, að henni yrði lokið fyrir næsta þing, þá stæði þingið betur að vígi um að ákveða, hvort það skyldi eiga nokkurn hlut að slíkum móiðnaði. Þetta vakti fyrir oss nefndarmönnum, og gerðum við ráð fyrir, að ef stofnað yrði fjelag til þess að reka fyrirtækið, mundi það þurfa einhvern stuðning.

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að ef hjer hefði verið komið á stofn móiðnaði fyrir stríðið, þá hefði það verið eitthvert hið þarfasta fyrirtæki fyrir þetta land, eins dýrt og nú er að afla eldsneytis. Þá hefðum vjer getað sparað oss kol að miklu eða öllu leyti.