17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Flm. (Stefán Stefánsson:

Um þessa till. þarf jeg sjálfsagt ekki svo mjög að fjölyrða, og þá sjerstaklega vegna þess, að greinargerðin sýnir ljóslega, hvers vegna hún er fram komin. En það, sem einkum hefir komið mjer til þess að beitast fyrir þessu máli, er það, að bæði sveitungar mínir eiga og reka sparisjóð, og sömuleiðis eru slíkir sparisjóðir víðar í kjördæminu, og flestir þessir sjóðir hafa óskað undanþágu frá reglugerðarákvæðunum um þá bókfærslu, sem er fyrirskipuð, þannig að henni yrði hagað „eftir því, sem forstöðu- og ábyrgðarmönnum sjóðsins kæmi saman um, með hliðsjón af reglugerðarákvæðunum“, eftir því, sem þeir þá álitu til bóta og væri vel framkvæmanlegt eftir staðháttum og efnahag sjóðsins. En þessum tilmælum sparisjóðsstjórna og ábyrgðarmanna hefir verið neitað af stjórnarráðinu, með þeirri skýringu, að því að eins fengju frv. til laga fyrir sjóðina staðfestingu stjórnarráðsins, að ákvæða 1. gr. reglugerðarinnar frá 5. maí 1917 — sem eingöngu ræðir um bókfærslu sjóðanna — sje fyllilega gætt, eða tekin upp í starfrækslu sjóðanna, og frestur á þeirri bókfærslu veittur að eins nú til ársloka, enda gerir reglugerðin ekki ráð fyrir neinum undanþágum. En þessi undanþága þarf nauðsynlega að fást, því að þótt jeg hafi heyrt þess til getið, að ekki mundi verða gerð veruleg gangskör að því, að breyting yrði á bókfærslunni, þótt ákvæðið væri sett inn í lög sjóðanna, ef reikningarnir sýndu, að alt væri í góðu lagi um hag þeirra og reikningshald að öðru leyti, en jeg hygg, að menn mundu ekki vilja nota þá eftirlátssemi, sem eðlilegt er.

Undanþágan er beint nauðsynleg, í fyrsta lagi af því, að bókhaldið er óþarflega margbrotið og flókið; í 2. lagi kostar öll þessi bókfærsla óþarfa tímatöf, því að athugavert er, að forstöðumenn sjóðanna,og þá sjerstaklega gjaldkerarnir, sem þó auðvitað mest vinna fyrir sjóðina, hafa þetta starf ekki að neinu leyti sem aðalstarf, heldur leggja það á sig auk venjulegra heimilisstarfa, og að baka þeim allsendis óþarfa tíma- og verkatöf með margbrotinni bókfærslu, er með öllu ógerlegt; í 3. lagi af því, að kostnaðurinn við rekstur sjóðanna, einkum hinna smærri, verður óhæfilega mikill. Laun starfsmanna hljóta að hækka að mun, og kaup á t. d. 12 bókum með nafnaskrá, þar sem nú eru að eins 4—5 bækur, mundu kosta 200—300 krónur. Stjórnarkostnaður og annar kostnaður mundi því nema svo miklu, að litlum sjóðum mundi seint safnast sá varasjóður, sem þeir að sjálfsögðu þurfa til þess að tryggja sem best að verða má aðalsjóðinn, með öðrum orðum, að þar sem bókfærslan, samkvæmt reglugerðinni, á að miða að því að tryggja sjóðinn, þá verður þó afleiðing hennar sú, fyrir litla sjóði, að fjeð þverrar að sama skapi sem hún og þar af leiðandi annar rekstrarkostnaður eykst.

Í 4. lagi er þessi undanþága nauðsynleg vegna þess, að ef hún fæst ekki, mun stofnun nýrra sparisjóða, að minsta kosti í sveitum, naumast vera gerleg, þar sem allar bækur yrði að kaupa strax á fyrsta ári, og stjórnarkostnaður þá hlutfallslega eftir sjóðmagni óhæfilega mikill.

Jeg tel engan vafa á því, að gjaldkerar smærri sjóðanna munu sem fyrst vilja losast við starfann, verði þess ekki kostur, að undanþága fáist, en þá væri mörgum sjóðnum óþarfur greiði gerður, því að víða hagar svo til, það er mjer kunnugt um, að gjaldkerar eru valdir fjárgæslumenn, og eru því besta tryggingin fyrir því, að rekstur sjóðanna sje í fullkomlega góðu lagi. Og þar álít jeg að missist enn meiri trygging fyrir sjóðina en sú, sem fæst með þessari bókfærslu.

Jeg ætla, að bókhaldið, eins og það gerist við flesta sparisjóði, og eins og mjer er kunnugt um að það er við þann sparisjóðinn, sem jeg er formaður fyrir, sje svo tryggilegt, að sjóðirnir þess vegna standi ekki í hinni allra minstu hættu. Jeg held því, að fyrirmæli reglugerðarinnar verði því að eins til þess að gera bókhald sjóðanna óþarflega flókið og erfitt. En því margbrotnara sem það er, því fremur veldur það gleymsku og skekkjum. Jeg held því, að enginn skaði væri skeður, hvað þetta snertir, þótt undanþága væri veitt. Eins og bókhaldið er nú við sjóðina, geta menn sjeð, hve nær sem er, hvað er í sjóði, hvað hver inneigandi á mikið í sjóðnum, hvað hver einstakur skuldar og í hve miklum ábyrgðum einstakir menn standa, sem sagt yfirlit yfir allar tryggingar sjóðsins. Alt þetta geta menn sjeð af bókunum, næstum að segja um leið og þær eru opnaðar.

Þetta, sem nú hefir verið nefnt, verða menn að viðurkenna að eru aðalatriðin eða aðalskilyrðin fyrir því bókhaldi, sem verður að teljast nauðsynlegt. Það er vitanlega sjálfsagt, að þetta standi ljóst fyrir, hve nær sem menn vilja grenslast um það.

Mjer hefir dottið í hug, að til þess að undanþága yrði veitt ætti stjórn sjóðsins að gefa landsstjórninni skýrslu um hag hans og um þá bókfærslu, sem er viðhöfð. Þyki stjórninni skýrsla þessi nægilega skýr, þá veiti hún undanþáguna. En þyki stjórninni það ekki, þá sje stjórnendum sparisjóðsins gefinn kostur á að sýna bækur sjóðsins einhverjum verslunarfróðum manni, t. d. stjórnanda þess bankaútibús, sem sjóðstjórnin á hægast með að ná til. Líki honum bókfærslan og hafi hann ekkert við hana að athuga, þá virðist mjer sjálfsagt — að fengnu vottorði þessa manns — að stjórnin veiti undanþáguna. Þetta ætlast jeg til að verði til þess að gera sjóðnum hægara fyrir með að fá undanþáguna, að ekki verði heimtað, að bækur sjóðsins sjeu beint sýndar í stjórnarráðinu.

Áður en jeg lýk máli mínu, skal jeg leyfa mjer að benda þingdm. á það, að hjer liggur frami á lestrarsalnum umkvörtun um fyrnefnda reglugerð, frá sparisjóði Ólafsvíkur. Umkvartanir þessar eru í fullu samræmi við það, sem hjer hefir verið haldið fram. Aðallega er það sú breytta bókfærsla, sem sjóðnum þykir erfið og með öllu óþörf. Í þessu skjali er ljóst skýrt frá agnúunum á því að breyta til með bókhaldið, samkvæmt reglugerðinni, og jafnframt lýst yfir því, hve miklum vandkvæðum það geti valdið fyrir sjóðina, einkum þá, sem ekki mega við miklum kostnaði.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta mál, en leyfi mjer að óska, að því verði vel tekið. Vel má vera, að till. hefði verið betur orðuð á annan veg. En jeg vona, að háttv. þingdm. skilji, hvað verið er að fara fram á, og geti því gefið henni atkv. sitt, þar sem það er skýrt tekið fram, að undanþága sje því að eins veitt af landsstjórninni, að hún álíti bókfærsluna nægilega trygga.