17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Benedikt Sveinsson:

Mjer sýndist, að enginn ætlaði að taka til máls, annar en háttv. flutnm. (St. St.). Vildi jeg því, áður en gengið er til atkvæða, láta í ljós það álit mitt, að jeg tel till. hafa við mikil rök að styðjast. Mjer er kunnugt um það, að til stjórnarinnar hafa borist miklu fleiri kvartanir yfir sparisjóðsreglugerðinni en þær, sem hjer hafa verið nefndar, en stjórnin hefir ekki viljað sinna neinni þeirra. Mjer hafa t. d. borist ýmsar óskir frá mínum kjósendum um það að leita undanþágu frá fyrirmælum þessarar reglugerðar hjá stjórninni, því að óskir manna og áskoranir til hennar hafa enga áheyrn fengið, Þykir mjer því gott að fá hjer tækifæri til þess að styðja þessar rjettmætu óskir.

Sparisjóðslögin frá 1913 voru til þess ætluð, að tryggja eignir sjóðanna, og stjórninni var falið að semja reglugerð um starfrækslu þeirra. Í þessari reglugerð, sem stjórnin gaf út fyrir rúmu ári, er enginn munur gerður á starfrækslu sjóða eða lánstofnana, sem velta fje svo að miljónum skiftir, og smásjóða, sem aldrei hafa nema örlítið fje til meðferðar. En á því er þó mikill munur. Það er erfitt fyrir smásjóðina að fylgja sömu reglum og hinir stærri og ekki virðist nein ástæða til, að gengið sje eftir að þeir fylgi svo fullkomnum reglum með bókfærslu, sem þörf þykir á við stærri peningastofnanir. Það mun algengt, að sparisjóðir hafi ekki ráð á að borga starfsmönnum sínum nema lítilfjörlega þóknun, og því varla hægt að ætlast til þess, að starfsmennirnir geti tekið að sjer mikið aukna bókfærslu fyrir þau laun.

Annars er mál þetta mjög ljóst, og jeg efast um, að það skýrist nokkuð við langar umræður. Lögin voru nógu ströng í þessu efni, reglugerðin er miklu strangari, og það, sem verst er af öllu, að ómögulegt er að fá undanþágu frá neinum ákvæðum hennar. Ef stjórnin sjer ekki fært að veita undanþágu, vegna þess, að lögin girði fyrir það, þá verður þingið strax að taka sparisjóðslögin til meðferðar og ráða bætur á þeim. Að öðrum kosti er ekki annað sýnna en að margir sparisjóðir verði að leggjast niður, og vita allir, hver afturför það væri, því að mönnum kemur mjög vel að hafa smásjóði að grípa til heima í sveit, og eins glæðir það áhuga almennings að leggja fje í sjóðina, að þeir sjeu sem víðast, og eflir sparnaðaranda og samhaldssemi. Er einsætt, að þingið styðji svo gott málefni með því móti að gera mönnum sem hægast fyrir, samfara því, að sæmilega tryggilega sje um hnútana búið.