17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eins og kunnugt er, voru lögin um sparisjóði lengi á leiðinni, og þá var mikið talað um þá tryggingu, sem þyrfti að setja fyrir því, að fje sjóðanna lenti ekki í óreiðu. Nú er hjer farið fram á að breyta reglugerð um starfrækslu sparisjóða, sem gefin var út 5. maí 1917, því að það liggur í augum uppi, að stjórnin getur ekki veitt undanþágu frá ákvæðum reglugerðarinnar, meðan hún stendur óbreytt. Sá, sem samdi reglugerðina að mestu, er sá maður, sem manna lengst hefir verið bankastjóri hjer á landi, og því einnig haft sparisjóðsfje með höndum. Jeg álít því varhugavert að breyta þessari reglugerð með þingsályktun, áður en það er athugað af sjerfróðum mönnum, hvort breytingin sje tiltækileg eða ekki. Að minsta kosti ætti að setja málið í nefnd, til þess að hún fái tækifæri til að leita umsagnar sjerfræðings um málið. Jeg held, að kostnaðaraukinn við þessa auknu bókfærslu sje meira í orði en á borði, og efast um, að hann þurfi að verða tilfinnanlegur.

En jeg skal ekki lengja umr. með því að þrefa um það. Ef flm (St. St.) vill ekki, að umr. verði frestað og málið athugað í nefnd, þá held jeg, að hyggilegast væri að vísa því til stjórnarinnar, með skírskotun til þess, sem hjer hefir komið fram í málinu.

Jeg segi ekkert um það, hvernig því mundi tekið af stjórninni. En jeg tel þó víst, að reynt mundi — með aðstoð sjerfróðra manna — að finna einhverja leið til þess að minka kostnaðinn við starfrækslu sparisjóðanna, án þess að tryggingin skerðist.