17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg er mjög þakklátur þeim háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) fyrir þeirra góðu undirtektir.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra skal jeg játa það, að á meðan reglugerðin stendur óbreytt, og þingið hreyfir ekki neitt við þessu máli, er varla við því að búast, að stjórnin veiti undanþágu frá ákvæðum hennar, þó að einstakar sjóðstjórnir fari fram á það. En þess vegna er þetta mál flutt, að stjórnin fái fullkomna ástæðu og jafnvel skyldu til þess að slaka eitthvað til, þar sem hún sjer þess þörf og enga hættu. Til þess er till. flutt. Þetta verður hæstv. atvinnumálaráðherra að skilja. Hann sagði, að stjórnin gæti ekki veitt undanþágu frá reglugerðinni, og þá vitanlega hæpið, að hægt væri að samþykkja svona till. á þingi, án frekari undirbúnings. Hæstv. atvinnumálaráðh. hyggur má ske, að þingmenn hafi ekki vit á því, hvernig beri að stjórna sveitasparisjóðum og hvernig þeim hefir verið stjórnað til þessa. En kunnugt ætti hæstv. atvinnumálaráðh. að vera um það, að ekki hafa verið mikil brögð að því, að sparisjóðir hafi tapað fje fyrir ónóga bókfærslu. Í það minsta veit jeg, að þeir sparisjóðir, sem jeg þekki best, hafa ekki tapað fje alla þá tíð, sem þeir hafa starfað, og hafa þó ekki haft nema 4 eða má ske 5 bækur. Það er öldungis víst, að bókakostnaðurinn og bókfærslan er ofvaxin byrði fyrir litla sjóði. Kostnaðurinn við stjórn smærri sparisjóðanna hefir lengi vel leikið á sem næst 100 kr., en er nú síðustu ár eitthvað á annað hundrað kr. En hvaða sjóður mundi verða rekinn samkvæmt reglugerðinni fyrir það fje?

Þar sem hæstv. atvinnumálaráðherra gaf það eiginlega í skyn, að tryggingin fyrir eignum sjóðsins minkaði eftir því, sem bókhaldið yrði minna, þá hefi jeg sýnt fram á, að tryggingin minkar einmitt við það, að bókhaldið er gert svona margbrotið. Þegar rekstrarskostnaðurinn, kostnaður til bókakaupa og stjórnarkostnaður, margfaldast, þá er loku fyrir það skotið, að varasjóður geti aukist, með öðrum orðum, að minstu sjóðirnir hljóta að verja öllum ársarðinum til greiðslu á því, er til þarf að kosta á árinu.

Að vísa þessu máli til stjórnarinnar er jeg eindregið mótfallinn. Jeg ber að vísu gott traust til hennar að ýmsu leyti, en í þessu máli ber jeg eðlilega ekki það traust til hennar, að hún fari að breyta í þá átt, sem jeg fer fram á, þar sem hún kannast ekki við, að þörf sje á slíkri breytingu, enda sje reglugerðin „samin af þeim manni, sem lengst hefir verið bankastjóri hjer á landi“. Hann yrði því sennilega fyrsti og helsti „sjerfróði“ maðurinn, sem stjórnin leitaði aftur til í þessu máli, og má því nokkurn veginn ráða í aðgerðirnar og úrslitin úr þeirri átt.

Þá held jeg, að jeg hafi svarað þeim helstu atriðum, er hæstv. atvinnumálaráðherra tók fram. En viðvíkjandi því, er háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var að tala um samvinnu okkar á þingi, er sparisjóðslögin voru samþykt, þá er það rjett, að við vorum á nokkuð öndverðum meið um ýms veruleg atriði. Og jeg verð að segja, að hefði margt af því gengið fram, er hann vildi koma inn í lögin, þá hefðu þau ekki orðið betur liðin eða reynst hagkvæmari. Annars minnist jeg þess, að sá maður, sem jeg átti mesta samleið með þá í þessu máli, var háttv. 2. þm. S.-M., sem þá var (G. E ). Fyrir okkar aðgerðir urðu þau nothæfari og aðgengilegri en ætlast var til í byrjun, og hefðum við ekki unnið að því að koma að ýmsum breytingum, tel jeg engan vafa á, að þau hefðu gert meiri skaða en gagn. Að því leyti efast jeg um, að vinna hv. þm. (M. Ó) hafi verið nokkuð affarasælli en mín í þessu máli. En hann nefndi ekki neinar sjerstakar ástæður fyrir ákúrunum í minn garð, en það fanst honum taka út yfir, að bankastjóri skyldi veita mjer eða till. minni liðsyrði. Jeg álít það þakkarvert, ekki af því, að jeg flyt till., heldur af því, að hann skilur, að þörf er á undanþágunni. Því að jeg vil segja, að sparisjóðir í sveitum sjeu hinar mestu þarfastofnanir. Það vill svo vel til, að annar bankastjóri, er situr hjer skamt frá (B. K.), gefur mjer upp tölu þeirra bóka, er hann telur nægilega, í það minsta við alla smærri sparisjóði, og eru þær fimm. Jeg held því, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), þótt hann sje bankastjóri, þurfi alls ekki að bera kinnroða fyrir orð sín, enda þykist jeg sannfærður um, að hann talar af fullri þekkingu á þessu máli. Hann hefir veitt því sitt góða fylgi, og það þakka jeg honum fyrir.

Þá kom háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) með það, að skilyrðin mættu síst vera vægari fyrir smærri sjóði, eða veita þeim linkind fremur en stærri sjóðum. Væri þessari merkilegu tilhögun beitt gagnvart sjóðunum, væri fyrst og fremst gengið lengra en lögin benda til, og auk þess beitt þeirri megnustu ósanngirni, sem við engin rök hefði að styðjast. Eða hvers ættu þeir smærri sjóðir að gjalda? Nei, það mundi vel fallið til þess, að ekki stofnuðust fleiri nýir sjóðir, og jafnvel þeir sveitasparisjóðir, sem nú eru, mundu eyðileggjast. Þessi mundi afleiðingin, því að það gefur öllum að skilja, að stórir sparisjóðir, sem skifta hundruðum þúsunda, geta borið meiri kostnað en smærri sjóðir og þolað betur, þótt þeim sje gert erfiðara fyrir.

Jeg býst svo ekki við, að jeg hafi fleira að segja gagnvart þeim, sem talað hafa á móti till., og býst ekki við að taka aftur til máls, nema sjerstakar nýjar ástæður komi fram.