17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Magnús Guðmundsson:

Jeg vildi leyfa mjer að mæla nokkur orð til stuðnings þessari till. Jeg þekki dálítið til sparisjóða, þar sem jeg hefi sjálfur verið í stjórn sparisjóðs í 5 ár, og er það víst annar stærsti sparisjóður á landinu. Þótt þessi sparisjóður væri svona stór, reyndist þó þessi fyrirskipaða bókfærsla auka töluvert fyrirhöfn, og má þá nærri geta, hvort svo er eigi í stórum mæli að því er kemur til hinna smærri og smæstu sjóða.

Og það virðist alls ekki rjett að láta sömu reglu gilda um sparisjóði, sem hafa fáar þúsundir að ávaxta, og aðra, sem hafa ef til vill miljónir að ávaxta. Það virðist alveg auðsætt, að þar ætti að vera munur á, en eftir reglugerð stjórnarráðsins er enginn munur á því gerður.

Það er vitaskuld fjarstætt allri skynsemi, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó) sagði, að reglurnar um bókfærslu sparisjóða ættu að vera því strangari, sem sjóðirnir væru minni. Þetta er auðvitað alveg öfugt. Það fer eigi heldur í bága við sparisjóðslögin að hafa bókfærsluna mismunandi eftir stærð sjóðanna, því að í enda 12; gr. sparisjóðslaganna stendur ekki annað en:

„Stjórnarráðið setur reglur um bókfærslu sparisjóða og ákveður fyrirmynd allra skjala.“

Þetta ákvæði sýnir, að ekkert er því til fyrirstöðu, að þessar reglur sjeu mismunandi fyrir sjóðina, eftir stærð þeirra.

till. sje óheppilega orðuð fæ jeg ekki sjeð. Þar er talað um að veita undanþágu, þegar bókfærslan er nægilega trygg. Það er auðvitað á valdi stjórnarráðsins sjálfs að meta, hve nær hún er trygg. Jeg þekki það vel, að allur þessi bókafjöldi er óþarfur við hina smæstu sjóði. Í þeim sumum er kann ske ein afgreiðsla á dag. Hana þarf að færa í margar bækur. Þetta fyrirkomulag, sem fyrirskipað er, er miðað við banka, sem hafa margar afgreiðslur á dag, og á því eigi við um litla sparisjóði.

Hvað það snertir, að vísa till. til nefndar, þá verð jeg að segja, að jeg sje ekki beint ástæðu til þess, þótt hins vegar sje ekki ástæða til þess að vera beint á móti því. En jeg er fastráðinn í því að greiða atkvæði með þessari till. eða till. í svipaða átt.