17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Björn Kristjánson:

Þegar mál þetta var tekið á dagskrá, fór jeg að athuga sparisjóðslögin sjálf, að því er til bókfæralunnar kemur. Um hana er talað í 12. gr. laganna. Er þar gert ráð fyrir, að 5 bækur sjeu haldnar að minsta kosti. Jeg vil því benda á, að lögin vilja ekki kveða þyngra á um bókhald smærri sparisjóða. Það er sparisjóðsbók, höfuðbók, þar sem skráð eru öll lán úr sjóðnum, lántakendur, tryggingar o. s. frv., enn fremur skuldaskrá og gerðabók stjórnarinnar. Það er auðvitað, að stjórnarráðið hefir heimild til þess að ákveða, hvernig bókfærslu skuli hagað. En mitt álit er, að fyrir smærri sparisjóði nægi þessar bækur: kassabók, höfuðbók og sparisjóðsbók (bækur). Fyrir stærri sparisjóði bætist svo við skuldaskrá („obligo“-bók), auk fundarbóka sparisjóðsstjórnar, af því að lögin áskilja hana. En í smærri sparisjóðunum er hún óþörf, því að stjórnin veit hverjir skulda.

Mjer finst orðalag till. óheppilegt, eins og sumum öðrum. Væri víst betra að orða till. í þá átt að skora á stjórnina að breyta reglugerðinni. Væri þá líklega heppilegast, að málið færi snöggvast í nefnd. En yfirleitt mundu þessar 5 bækur við smærri og 6 við stærri sparisjóði vera nægileg bókfærsla. Vil jeg því mæla með því, að málinu sje vísað til nefndar. En jeg held, að ekki sje rjett að gera sparisjóðum þyngra fyrir en lögin ætlast til. Jeg þekki vel, hvað það er að halda bækur, sem komast má af án. Þetta margbrotna bókhald getur að eins átt við stærri stofnanir, svo sem banka.