31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Stefán Stefánsson:

Jeg get nú í raun og veru þakkað háttv. fjárhagsnefnd fyrir hennar undirtektir í þessu máli. Þótt hún geti ekki fallist á till. mína nema að nokkru leyti, þá hefir hún þó kannast við, að undanþága frá sparisjóðsreglugerðinni sje nauðsynleg fyrir litla sjóði. En háttv. nefnd hefir ekki fundist ástæða til að veita undanþágu sjóðum, sem hafa meira en 75.000 kr. ávaxtafje. En jeg verð að líta svo á, að það geti verið erfitt fyrir sjóði innan við 100.000 kr. að fullnægja kröfum reglugerðarinnar. Það verður erfitt fyrir þá að taka upp það bókhald, sem eykur að miklum mun stjórnarkostnað og bókakaup. Þegar þeir taka ekki nema ½ eða ¾% hærri vexti af allmiklu af því fje, sem þeir lána út, en þeir greiða af því, sem tekið er til ávöxtunar í sjóðnum, þá verður ekki mikið, sem safnast, þegar búið er að greiða allan rekstrarkostnað. Gerum ráð fyrir, að í sjóði sjeu alls 100.000 kr. Af því lánar hann út í sjálfskuldarábyrgðarlán og fasteignaveðlán, segjum 80.000 kr. Nú mun það vera venjan — jeg veit að minsta kosti við þann sparisjóð, sem jeg veiti forstöðu, — að af þessum lánum hafa ekki verið teknir hærri vextir en 5%, en greiddir 4¼% af innlögum í sjóðinn. Þetta er til þess að gera mönnum í sveitinni sem hægast fyrir með lánveitingar úr sjóðnum. Af þessum 80.000 kr. hefir þá sjóðurinn 600 kr. í ágóða. Segjum nú, að hinar 20.000 kr. sjeu lánaðar í víxlum. Á þeim græðir sjóðurinn 1½% því að það mun vera algeng venja að kaupa víxla gegn 6% forvöxtum. Á víxlaupphæðinni græðir sjóðurinn þá 300 kr. Allar tekjurnar eru þá 900 kr. á ári. Af þessum tekjum þarf sjóðurinn svo að greiða sínum starfsmönnum, og þeir geta orðið ærið dýrir, þegar sjóðurinn er orðinn svona hár og umfangsmikill. Jeg get varla hugsað mjer, að formanni og gjaldkera sparisjóðs, sem hefði nær 100.000 kr. ávaxtafje, yrði greidd minni þóknun en 500 til 600 kr., en þá verður lítið eftir til aukningar varasjóði, þegar annar sjálfsagður kostnaður er tekinn til greina. Jeg vænti því, að háttv. þingdeild samþ. brtt. mína. Jeg sje ekki heppilegt og enga ástæðu til að halda sjer við upphæðina 75.000 kr.

Geri ráð fyrir, að hjer í deildinni sjeu fleiri, sem þekkja vel til um rekstur sparisjóða í sveit, og hve nauðsynlegt það er að ávaxta vel sparifje manna, og þá um leið gera sveitarbúum sem hægast fyrir að fá fje til þarfra og nauðsynlegra framfara. Þess ber að gæta, að þetta eru sjóðir, sem sveitirnar eiga, og eiga að vera til hagnaðar bæði fyrir þá, sem fjeð eiga, og þá, sem fjeð þurfa að nota.

Svo finst mjer allathugavert það ákvæði í nefndartill., að undanþágan veitist að eins þeim sjóðum, „sem eru í sveitum“. Hvað er átt við með þessu „í sveitum“? Mundi ekki sá sparisjóður teljast í sveit, sem hefir aðsetur sitt í löggiltu kauptúni eða sjávarþorpi? Þeir staðir lúta þó sveitarstjórnum, en ekki bæjarstjórnum. Það getur því í það minsta leikið vafi á því, hvernig eigi að skilja þetta. Eigi að skilja það svo, að sparisjóðir í löggiltum kauptúnum og í sjávarþorpum teljist ekki í sveit og fái þar af leiðandi ekki undanþágu, þá get jeg ímyndað mjer, að fullerfitt geti orðið í litlum eða fámennum kauptúnum og í sjávarþorpum að starfrækja sparisjóði, samkvæmt reglugerðinni, sem kunna að hafa aðsetur sitt þar á staðnum, en starfa þó miklu fremur fyrir sveitina eða sveitirnar í kring en sjálft kauptúnið. Það er sem sje alls ekki víst, að í fámennu þorpi sje auðvelt að skipa svo stjórn sjóðsins og kosta þar dýra og erfiða bókfærslu, að ljettara verði en þótt í sveit sje, eftir því, sem jeg ætla að nefndin meini með þessu orðalagi. Eigi aftur á móti að skilja þetta svo, að kaupstaðirnir fái ekki undanþágu, þá kemur það auðvitað ekki að sök, því að í kaupstöðunum eru víst ekki sparisjóðir, sem hafa minna fje til ávöxtunar en 75.000 kr. Það varðar því miklu og er nauðsynlegt að fá skýringu á því hjá nefndinni, hve nær sparisjóður getur talist í sveit og hve nær ekki. Með minni brtt. hefi jeg því lagt til, að þessi orð „sem eru í sveitum“ falli úr nefndartill., og að í stað „75.000 kr.“ komi 100.000 kr. Með þessu er sneitt fyrir allan misskilning og upphæðin gerð þó nokkru viðunanlegri.