31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Pjetur Jónsson:

Jeg held nú, að þetta mál sje komið í verra efni en þegar byrjað var á því hjer í deildinni. Jeg álít, að nefndin hafi tekið alveg skakka stefnu. Jeg fór fram á það við umr. um daginn, að málinu yrði snúið við og afgreitt með rökstuddri dagskrá, þess efnis að vísa því til stjórnarinnar, að taka sparisjóðsreglugerðina til nýrrar yfirvegunar og breyta henni. Þessi till., ef hún verður samþ., hvort heldur með brtt. eða ekki, kemur ekki að haldi þeim sjóðum, sem mest hafa kvartað undan reglugerðinni. Sparisjóðir í sveitum eru ekki starfræktir daglega. Það væri ómögulegt, — algerlega ókleift að gera það. Þar er því sparisjóðsstörfunum oft gegnt endurgjaldslaust að mestu leyti. Þetta breytist ekki heldur við reglugerðina, og þessir sjóðir eiga því ekki erfiðast með að komast af. í reglugerðinni er alls ekki skipað, að sjóðirnir skuli starfræktir daglega. í kauptúnum hagar svo til, að þar verður ekki komist hjá því að hafa daglega afgreiðslu, þótt sjóðurinn nemi ekki svo miklu sem 100.000 kr. Það er því alveg óhugsandi og ómögulegt til þess að ætlast, að menn fáist til þess að annast sparisjóðsafgreiðslu þar fyrir mjög litla eða enga þóknun. Nú er reynslan sú, að flestir sparisjóðir geta ekki staðið sig við að borga nauðsynlegum starfsmönnum, eins og verið hefir, hvað þá heldur ef þarf að fjölga þeim og gera afgreiðsluna margbrotnari. Þótt teknir sjeu 6% vextir af víxlum og 5% af öðrum lánum, þá hrökkva tekjur sjóðanna ekki langt til þess að launa mörgum starfsmönnum mjög fyrirhafnarsama bókfærslu og daglega afgreiðslu. Jeg álít því, að hv. fjárhagsnefnd hafi algerlega misskilið sitt hlutverk, þegar hún vill veita undanþágu einungis þeim sjóðum, sem hafa 75.000 kr. stofnfje. Rjettast hefði verið að miða við ekki lægri upphæð en 250 þús kr., ef farin er þessi undanþáguleið á annað borð, því að það eru sjóðirnir í bilinu milli þessara upphæða, sem örðugast eiga, ef þeir eru í kauptúnum, því að þá hafa þeir daglegt kvabb. En mjer finst hitt vera miklu eðlilegra, að vísa málinu til stjórnarinnar og fá hana til að breyta reglugerðinni. Jeg er ekki hræddur um, að hún tæki það neitt strangt upp eða yrði neitt illa við þeim tilmælum. Hvað þýðir það að hafa strangar reglugerðir, þegar ekkert eftirlit er með því, að þær sjeu haldnar? Niðurstaðan verður ekki önnur en sú, að reglugerðin verður bara brotin.

Jeg leyfi mjer því að stinga upp á því, að málinu sje vísað til stjórnarinnar, samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar.