14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með viðaukatill., á þgskj. 94, við brtt. meiri hluta bjargráðanefndar við frv. til laga um almenna hjálp vegna dýrtíðarinnar, á þgskj. 88.

Í stjórnarfrv., sem lagt var fyrir þetta þing, um almenna hjálp vegna dýrtíðarinnar, er í 6. gr. þess heimilað að verja fje úr landssjóði til atvinnubóta, svo sem til að undirbúa stórhýsi, hafnargerðir, brýr, vegi o. fl. Þessari gr. leggur háttv. meiri hl. til að breyta í þá átt, að þessi heimild nái að eins til þess að kaupa af bæjar- eða sveitarfjelögum efni til stórhýsa, vega eða brúa, sem unnið hafi verið þar sem dýrtíðarvinna. Mjer þótti þetta of skamt gengið í raun og veru, og þar ,af leiðandi leyfði jeg mjer að bera fram þessa brtt, sem þó fer ekki fram á það að upphefja brtt. nefndarinnar, heldur bæta við hana, þannig að aftan við gr. komi ný málsgrein, sem heimili stjórninni, ef atvinnuskortur verður, að verja fje til atvinnubóta, og er þetta skilgreint nánar með því að tiltaka garðrækt, heyskap og stærri eða minni áveitufyrirtæki. Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) og minni hl. (J. B.) mintust ekki á þessa brtt. einu orði í framsöguræðum sínum. Jeg vil lita svo á, að þögn þeirra þýði sama og samþykki, enda er það eðlilegast, og sjeð frá hálfu minni hl. get jeg ekki annars vænst en að hann fylgi þessu. Hæstv. fjármálaráðherra kvaðst hins vegar ekki geta tekið tillit til tillögunnar fyr en hann heyrði, við hvaða rök hún hefði að styðjast frá hendi flutnm.

Nú skal jeg með fáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna jeg hefi flutt brtt. Jeg álít, þó að stjórninni sje heimilt að verja fje til að undirbúa stórhýsi, þá snerti það ekki framleiðsluna í landinu, og ekki að vita, hve langt verði þess að bíða, að slík stórhýsi verði reist. Sama er að segja um heimild stjórnarinnar til að undirbúa vita, brýr o. fl.; það er að vísu nær, en jeg sje þó ekki, að hægt sje að gera neitt að því, nema þann undirbúning, sem hægt er að framkvæma hjer í Reykjavík eða grend. Jeg skal nefna sem dæmi, að heimilað var fje til þess að undirbúa brú á Jökulsá á Sólheimasandi. Þetta er nauðsynlegt og gott, ef hægt er að verja dýrtíðarvinnu til þess. En hjer er ekki svo auðhlaupið að því, vegna þess að staðurinn liggur langt frá öllum bæjum og fjarri þeim stöðum, þar sem helst er að óttast atvinnuskort. Og svona mætti nefna fleiri dæmi, þegar um það er að ræða að undirbúa brýr og vegi; það getur að eins náð til þess, sem bægt er að undirbúa í Reykjavík. Hins vegar hefir krafan altaf verið sú hjá þeim, sem rætt hafa um málið, að stjórninni væri veitt heimild til að láta þurfandi menn fá atvinnu, og ætti sú krafa oftast að miðast við framleiðslu. En þegar á það er litið, verður ekki um margt að velja. Vitanlega er þá að eins að ræða um framleiðslu til lands eða sjávar, en svo þegar litið er á atvinnuþörfina, eða öllu heldur hve nær hennar er mest þörf, þá er það einkum síðari hluta sumars, að haustinu og fram eftir vetrinum. En þá er ekki svo auðhlaupið að því að veita þessa atvinnu til sjávar, og verður þá að sjá um að gera það á landi. En þá er aðallega unnið að því, sem snertir landbúnaðinn, eða öðru, sem stendur í sambandi við hann. Hjer er í þessari viðaukatillögu minni nefnd garðrækt í stórum stíl. Jeg skal strax taka það fram, að þó að hún sje nefnd, þá er það ekki af því, að jeg geti búist við verulegum atvinnubótum af því, vegna þess að venjulega er unnið að henni á vorin. En jeg hefi tekið hana með, bæði af því, að stjórnin tekur það með í sitt frv., og sömuleiðis af því, að hún rekur nú garðrækt í stórum stíl suður á Garðsskaga. Jeg nefndi einnig heyskap, en jeg hefi orðið þess var, að sumir háttv. þm. hafa hálfhneykslast á því, og þykir mjer það einkennilegt.

Það er nú viðurkent, að öflun heyja er eitt af því allra nauðsynlegasta, sem heyrir til framleiðslu hjer á landi, og get jeg ekki betur sjeð en að stjórnin gæti að einhverju leyti, meira eða minna, gripið til þess ráðs að láta reka heyskap, ef atvinnuskortur verður hjer í Reykjavík. Þegar liður á sumarið, er það oft svo, að þeir, sem hafa stundað sjó, hætta róðrum þegar afla lýkur, og hafa þá ekkert að gera. Meira að segja heyri jeg nú að menn, sem stundað hafa róðra síðari hluta vetrar og í vor, sjeu jafnvel að hugsa um að hætta, af ótta við lágt verð á fiskinum. Hvað satt er í þessu veit jeg ekki, en það er sem sagt oft svo, að afli hættir þegar kemur fram á sláttinn, og þá væri það gott, ef atvinnulaust yrði, að stjórnin ljeti þá heyja. Hún gæti þá látið heyja uppi í Borgarfirði, austur í Ölfusi, uppi á Mosfellsheiði og Mosfellssveit, sett heyið í lanir og látið tyrfa það þar, eða flutt það strax hingað til Reykjavíkur. Hvað á svo að gera við heyið? Jeg er sannfærður um, að það yrðu ekki vandræði með að koma því út. Jeg hefi nú heyrt suma menn, fróða og forsjála, geta þess til, að næsti vetur verði harður, og kæmi sjer þá vel að eiga heyforða, ef á þyrfti að halda. En burtsjeð frá öllum spádómum um það, skal jeg að eins benda á það, sem skeð hefir síðustu árin að undanförnu. Vorið 1917 var hey flutt hingað ofan úr Borgarfirði og víðar að og keypt og flutt norður fyrir land með skipum, alla leið norður á Húsavík, og þaðan flutt svo lengst upp í sveit og fram til dala, því að þá var heyskortur norðanlands. Og hvað gera menn ekki þá? Menn klifa þá þrítugan hamarinn og horfa ekki í neinn kostnað til þess að reyna að bjarga skepnum sínum.

Í sambandi við þetta má benda á, að bannað er nú að nota korn til skepnufóðurs, enda geri jeg ráð fyrir, að það verði engin leið til að bjarga skepnum frá hordauða eða felli með korni næsta vetur, en altaf má bjarga með heyi, ef það er til. Vorið 1914 var neyðarár hjer syðra og heyleysi og fellir; þá voru menn svo aðkreptir, að þeir keyptu hey frá Danmörku og Svíþjóð. Og þess vegna segi jeg það, að þó að heyforði væri hjer nokkur til, þá þyrfti ekki að kvíða því, að landsstjórnin gæti ekki gert sjer verð úr honum, og það jafn vel strax á næsta vori, og því engin fjarstæða að heimila stjórninni þetta. Og jeg vil segja, að stjórnin eigi að vinna að því, sem hún getur, að aflað sje svo mikilla heyja, sem kostur er á, og sjálf að skerast þar í leikinn; það eru sjálfsögð bjargráð nú á þessum tímum.

Jeg hefi farið nokkrum orðum um þessa heyöflun, vegna þess að sumir líta svo á, að hún geti ekki komið til mála. En jeg þykist hafa leitt rök að því, að slík ráðstöfun sje rjettmæt og geti komið að góðu liði, jafnvel næsta ár.

Um það atriði, að stjórninni heimilist að framkvæma strax áveitufyrirtæki að meira eða minna leyti, skal jeg svo segja nokkur orð.

Vil jeg þá strax benda á, að slík vinna, við skurðgröft o. fl., sje einmitt sú allra álitlegasta dýrtíðarvinna, sem hægt er að hugsa sjer. Síðastliðinn vetur var verið að vinna hjer suður í Fossvogi, og hygg jeg, að það hafi kann ske verið sú besta vinna, sem int var af hendi, að því leyti, að þar unnu menn næstum fullkomin dagsverk, að minsta kosti fram undir jólaföstu. Jafnvel þótt nokkur frost geri, þarf það ekkert að tefja fyrir skurðgrefti, því að við skurðagröft er hægt að vinna þegar ekki er hægt að vinna að ýmsri annari vinnu. Með þetta fyrir augum verður því að álíta, að áveitufyrirtæki, og þar með framræsla, sem stendur í sambandi við það, sje eitt af því, sem einna tiltækilegast er að ráðast í og nota sem dýrtíðavinnu.

Nú get jeg búist við þeirri mótbáru, að slíkum áveitufyrirtækjum sje ekki beint til að dreifa hjer í nágrenninu. Það er satt, að slík áveitufyrirtæki eru ekki það nærri hjer, að menn geti farið heiman frá sjer að morgni og heim aftur að kveldi. En jeg vil minna á það, að austanfjalls er stórt fyrirtæki fyrir hendi, Flóaáveitan. Jeg álít, að vel gæti komið til mála, ef atvinnu skortir, að stjórnin ljeti menn fara þangað til vinnu, þegar þeir t. d. koma austan af fjörðum eða úr kaupavinnu, og vinna þar að skurðagreftri fram eftir hausti. Menn gætu legið þar í tjöldum fram eftir, og svo þegar færi að kólna fengið peningshús til að búa um sig í, ef menn gætu ekki þá skift sjer niður á bæina. En peningshúsin eru svo góð, að menn geta vel búið í þeim, ef ekki er því kaldara. Jeg vil í þessu sambandi benda á, að jeg er ekki að ráða til, að stjórnin taki þetta verk að sjer í heild sinni Hitt gæti komið til mála, að hún semdi við áveitunefndina um að taka einhvern hluta af verkinu að sjer, og færi þetta vitanlega eftir samningum milli landsstjórnarinnar og áveitunefndarinnar. Þetta vildi jeg taka fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning. Mjer er það sem sagt sannfæringarmál, að slík vinna, við framræslu, skurðagröft eða þess háttar, sje álitlegasta vinna sem fæst, og hún lýtur áreiðanlega að framleiðslu og liggur að minsta kosti miklu nær en undirbúningur stórhýsa.

Jeg vona nú, að háttv. þm. skiljist, hvað jeg á við með till, og vona, að menn sannfærist um, að hjer er í raun og veru farið fram á það, sem rjett er og hyggilegt. Og það er að mínu áliti frámunalega vanhugsað, ef till. er feld, því að hún getur komið til mikilla bóta og hagsmuna, ef á liggur, en aldrei gert neinn skaða.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) flytur brtt. á þgskj. 124; hún fer að því leyti í sömu átt og mín till., að hún vill veita stjórninni heimild til að verja fje úr landssjóði í beinar þarfir framleiðslunnar. Er hún að því leyti skilgetin systir minnar till., og hefði háttv. flutnm. (G. Sv.) viljað tilgreina nánar í till., hvað hann hefði fyrir augum, býst jeg við, að við hefðum getað orðið samferða. En þar sem mín tillaga er mikið ákveðnari heldur en hans, þá mun jeg halda því fast fram, að hana beri að samþykkja.

Jeg raun svo ekki taka fleira fram viðvíkjandi tillögu minni, heldur minnast að eins lítillega á brtt. meiri hlutans.

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og skal jeg geta þess, að þessi fyrirvari liggur í því, að nefndin vildi ekki heimila stjórninni að verja fje til dýrtíðarvinnuráðstafana. Og svo í öðru lagi í því, að hún vildi ekki heimila stjórninni að taka lán til ákveðinna atvinnabóta. Auk þess er jeg ekki heldur alls kostar ánægður með ýmisleg einstök atriði í breytingartillögum meiri hlutans, og skal jeg sjerstaklega nefna eftirlitið, sem gert er ráð fyrir, en þó hefir þetta atriði ekki skilið svo mjög á milli okkar, að jeg hafi sjeð ástæðu til að koma fram með breytingartillögur viðvíkjandi þessu atriði.

Jeg vil svo vona, að háttv. framsögumenn meiri og minni hluta, og hæstv. fjármálaráðherra athugi tillögu mína vel, áður en þeir leggja dóm á hana, því að annars er hætt við, að dómar þeirra verði ljettvægir sleggjudómar.

Að endingu vona jeg, að háttv. deild samþykki till. mína, og teldi jeg það vel farið.