25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Sveinn Ólafsson:

Jeg veit ekki, hvort það verður vel virt af háttv. þm. Barð. (H. K), að jeg skuli fara að blanda mjer í þetta mál, en jeg vil lýsa yfir því, að mjer þykja það einkennilegir búnaðarhættir þar vestra, að hver hreppurinn af öðrum biður um lán vegna stórfyrirtækja, sem þeir ráða eigi við. Patrekshreppur fór í strand með rafveitufyrirtæki í fyrra og fjekk 55.000 kr. lán til hennar úr landssjóði. Nú er eins ástatt fyrir Suðurfjarðahreppi í sömu sýslu, og fer hann fram á 35.000 kr. lán. Ætla má, að þriðji hreppurinn í Barðastrandarsýslu komi í líkum erindum að ári, því að jafnauðsær búhnykkur hvetur til eftirdæmis.

Á síðasta þingi fór jeg fram á lánsheimild úr landssjóði til rafveitu á Fáskrúðsfirði, sem líka var búið að búa talsvert undir og kosta til, en þeirri málaleitun var synjað, og fyrirtækið fór í strand.

Hjer er því ekki um neitt jafnrjetti að ræða, ef till. þessi verður samþykt. Þörfin fyrir rafveitur er hvarvetna á landinu, og margir mundu kjósa að koma þeim upp — og einnig geta — ef landssjóður tæki jafnan við, þegar geta einstaklings eða hreppa þryti.

Jeg get alls ekki stutt þessa till. og tel eigi viðurkvæmilega þá aðferð, að varpa á þennan hátt byrðum á landssjóð á þessum tíma, og því síður að skapa það fordæmi, að hreppar ráðist í ókleif fyrirtæki og velti síðan öllum vandanum á landssjóð.