25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Sveinn Ólafsson:

Úr því að jeg fór að skifta mjer af þessu máli. er best að jeg tali mig dauðan. Háttv. þm. Barð. (H. K.) fanst það fjarstæða, sem jeg tók fram um það, og ætla jeg að lofa honum að álíta hvað sem hann vill um það efni, en jeg ætla að svara því, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði um það, að gott væri, að hreppsbúar þar vestra fengju ljós og hita. Jeg efast ekki um það, og þykir meira að segja líklegt, að nógar hendur mundu verða til þess að taka við peningum til þess að fá fyrir ljós og hita, ef þeirra væri kostur, og að færri fengju en vildu; þörfin og óskin er til á hverju heimili landsins.

Nú hafa öðrum hreppi í þessari sýslu þegar verið lánaðar 55.000 kr. til rafveitu, og virðist því minni ástæða til en ella að hlaupa undir bagga, því að engin forrjettindi mun þó Barðastrandasýsla eiga til lána úr landssjóði.

Sami háttv. þm. (B. J.) sagði, að þetta fje yrði goldið aftur. Jeg hefi lesið greinargerðina og litið svo á, að lánstraust hreppsins væri ekki meira en það, að hann treystist ekki til þess að fara til bankanna. Er þess vegna ekki óhugsandi, að næsti búhnykkurinn yrði sá, að biðja um eftirgjöf á láninu. Hins vegar hefir mjer skilist af greinargerðinni, að þarna væru margir efnaðir menn, sem gætu gert mikið, ef þeir vildu að sjer leggja, og verð jeg að telja það öllu mennilegra af hreppsbúum að afla sjer fjárins á eigin ábyrgð en að fara þessa leið eftir því. Þegar tveir hreppar í sömu sýslu eru búnir að mata krókinn á þennan hátt í landssjóði, mundi engan furða á því, þótt fleiri hreppar landsins kæmu í kjölfarið, og þeim væri vissulega erfitt að neita.

Að öðru leyti skal jeg svara háttv. þm. Barð. (H. K.) því, út af véfengingu hans á rjettmæti erindis míns á síðasta þingi, rafveituláns til Fáskrúðsfjarðar, að þar stóð einmitt líkt á og vestra. Undirbúningur var gerður, verkið hafið og búið að leggja fje í kostnað. En munurinn var hins vegar sá, að eystra voru hlutaðeigendur eigi svo gálausir, að halda áfram ókleifu verki, fjevana, með það fyrir augum að varpa öllu á landssjóð.