29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

64. mál, lán handa Suðurfjarðahreppi

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Nefndin lítur öðrum augum á þetta mál en háttv. 1. þm. S-M. (Sv. Ó.). Hún hefir ekki getað sjeð, að neinn voði væri á ferðum, þótt lánveitingin væri gefin, því að varla getur verið nein sjerstök ástæða til að bera kvíðboga fyrir því, að hvert sveitarfjelag á landinu kæmi í kjölfar þessa hrepps með ósk um lán í svipuðum tilgangi. Hjer stendur svo alveg sjerstaklega á, að óhætt er að segja, að það er alveg einsdæmi. Alt efni og öll áhöld, sem til rafveitunnar þarf, eru komin á staðinn, — ekkert vantar nema peninga til að koma fyrirtækinu af stað. Það er ekki svo að skilja, að verið sje að hjálpa til að ráðast í fyrirtækið, eins og venjulegast er, þegar um slíkar lánveitingar er beðið. Þá er oft ekki einu sinni búið að benda á veg til að ná í efnið, hvað þá heldur að það sje fengið. Jeg hygg því, að ekki komi oft lánbeiðnir, sem svona sjerstaklega stendur á. Ef efnið hefði ekki verið komið á staðinn, þá hefði nefndinni ekki dottið í hug að mæla með þessari lánveitingu, þótt einhver von hefði verið um efni í útlöndum, sem óvíst væri um hvort næðist, og því engin vissa fyrir því, að verkið yrði fullgert. En nú leikur enginn efi á því, að verkinu verður lokið á þessu sumri, ef þetta fje fæst.

Brtt. nefndarinnar fer líka í sömu átt og álit háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó), með því að þröngva hreppsbúum til að leggja fram 10.000 kr. frá sjálfum sjer. Það er að vísu ekki hægt að segja, að þeir hafi lagt mikið í sölurnar fyrir þetta fyrirtæki í beinum framlögum. Þó hefir hreppurinn lagt á sig þetta, sem kunnugt er, tekið stórlán upp á eigin ábyrgð, 75.000 kr., sem þegar eru komnar í fyrirtækið.

Svo vil jeg benda háttv. 1. þm S.-M. (Sv. Ó.) á það, sem líka stendur í nál., að það er siðferðisleg skylda þingsins að veita þessa lánsheimild. Á þinginu 1915 var samþykt að veita hreppnum 15.000 kr. lán til rafveitu, en þetta lán hefir hann aldrei fengið. (Sv. Ó.: Hvers vegna er þá ekki farið fram á, að hann fái þá upphæð nú?. — Hvers vegna er ekki látið sitja við þá upphæð?) — Af drættinum, sem orðið hefir á því að greiða þetta lán, hefir verkið farið svo langt fram úr þeim kostnaði, sem sú lánveiting var miðuð við. 25.000 kr. eru síst meira nú en 15.000 kr. voru þá.

Jeg get ekki annað sjeð en að það sje með öllu óhætt að veita þetta lán. Það er ekki hægt að benda á neina rafveitu á öllu landinu, sem jafnmikil sanngirni mælir með að veita lán til.