14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

78. mál, hækkun á styrk til skálda og listamanna

Matthías Ólafsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að fjárveitinganefndin hefði eigi rjett til þess að víta gerðir þessarar nefndar nje láta í ljós skoðanir á starfi hennar, úr því að henni væri falið málið til meðferðar. En tildrögin til þess, að nefndin lagði til, að styrkur þessa skálds yrði hækkaður, voru þau, að stjórnin hafði komið fram með breytingu í þá átt, að styrkurinn skyldi hækkaður um helming. Annars hefði nefndin látið málið afskiftalaust. En þegar nefndin sá, hversu mönnum þessum var gert mishátt undir höfði, tók hún það fram, að þeir yrðu aðnjótandi jafnmikils styrks framvegis Og jeg tel það ámælisvert, að ritlaunanefndin skuli ekki hafa kynt sjer málið frá báðum hliðum. En það er auðvitað vitanlegt, að stjórnin hafði leyfi til þess að koma fram með till. um styrkveitingu þessa, engu síður en fjárveitinganefndin

Um ágreininginn milli meiri hl. fjárveitinganefndar og háttv flm. þingsál (B. J) er það að segja, að nefndinni þótti gengið helst til langt, að hækka styrk þessara skálda nú um helming. Henni virtist hæfilegt, að styrkurinn hækkaði um 400 kr. hjá hvorum. Vitanlega getur fjárveitinganefndin á engan hátt breytt því, sem ritlaunanefndin hefir gert, á sama hátt og þingið getur eigi breytt gerðum stjórnarinnar. En hitt er jafnvíst, að þingið getur breytt um stjórn, ef hún fer eigi að vilja þingsins, og eins hefir þingið leyfi til þess að gera till. um nýja ritlaunanefnd, ef þessi fer ekki að vilja þess.