14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

78. mál, hækkun á styrk til skálda og listamanna

Gísli Sveinsson:

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) taldi sig hafa sagt, að fjárveitinganefnd hefði rjett til að gera athugasemd við það, sem ritlaunanefndin hefði ákveðið. Við því er ekkert að segja, en jeg held, að hvorki stjórnin eða fjárveitinganefndin geti gefið ritlaunanefndinni nokkra skipun um það, hvernig hún skuli haga starfi sínu. Jeg álít, að hún fari og eigi að fara eftir alt öðru en slíkri „skikkan“ frá þinginu, og hvernig því ef til vill þóknast að taka einn fram yfir annan. Hins vegar vil jeg benda á, að háttv. fjárveitinganefnd hefir alls ekki í greinargerð sinni við till. haldið þeirri braut, að þessir menn, er um ræðir, ættu að vera jafnir. Hefir nefndin þar einmitt horfið frá þeirri leið, er hún var inni á í fyrra, og það tel jeg vel farið, því að þótt hún hefði í alvöru viljað þar einhverju um ráða, þá gat ekki verið að tefla um annað en tilmæli, sem ritlaunanefndinni hefði eftir eðli málsins verið í sjálfsvald sett, hvort hún vildi sinna eða ekki.