07.06.1918
Neðri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

90. mál, Fiskifélag Íslands

Flm. (Matthías Ólafsson):

Þetta mál er þannig vaxið, að haustið 1915 var Fiskifjelagi Íslands boðið kaup á hálfum steinolíufarmi til móts við Jónatan kaupmann Þorsteinsson hjer í bæ. Festi fjelagið þegar kaup á hálfum farminum, og voru það um 3.500 tunnur.

Fjelagið hafði vitanlega lítið fje til umráða, og leitaði það því á náðir landsstjórnarinnar. Veitti stjórnin fjelaginu lán úr landssjóði til kaupanna, að upphæð 20.125 dollara, og reiknaði hvern dollara á 4,07 kr., og nam lánið því í krónum 81.908,75.

Þegar steinolían kom, var henni skipað á land til geymslu í Örfirisey. Fyrst í stað gekk nokkuð tregt að selja olíuna, sumpart vegna þess að hún kom á óhentugum tíma, og einnig af þeirri ástæðu, að erfitt var að fá hana flutta út um land. Steinolíufjelagið hafði sem sje trygt sjer allmikið rúm í skipum Sameinaða fjelagsins og ljet það rúm heldur autt heldur en gefa Fiskifjelaginu kost á því. Olían lá því lengi hjer í geymslu.

Um nýár gengu þau lög í gildi, að ekki mætti selja olíu nema eftir þyngd. Hafði olían þá rýrnað svo mjög, að ekki var heimilt að selja tunnurnar í því ástandi, sem þær voru í, og var því tekið að fylla þær, svo að þær næðu löglegri þyngd. Nam rýrnunin 282 tunnum, og varð tap fjelagsins á þessu, með 34 kr. verði á tunnunni, alls 9.558 kr.

Fjelagið hafði ekki gert ráð fyrir svo mikilli rýrnun, og þegar reikningar voru gerðir upp, kom það í ljós, að kr. 2.988,60 halli hafði orðið á steinolíuversluninni. Gat fjelagið ekki staðið landssjóði skil á þessari upphæð, þar sem það hafði skaðast um þetta á sölunni.

Þegar tekið er tillit til þess, að fjelagið gat haldið steinolíuverðinu niðri með þessari verslun sinni, virðist ekki nema sanngjarnt, að landssjóður gefi þessa skuld upp. Því að undir eins og steinolían var uppseld, hækkaði Steinolíufjelagið verðið um 15 kr. á tunnunni, og hefði hækkað það fyr, ef Fiskifjelagið hefði ekki átt neinar birgðir. Áður hafði þetta sama fjelag farið fram á, að Fiskifjelagið seldi því steinolíubirgðir sínar, en Fiskifjelagið hafnaði því boði í samráði við landsstjórnina, þar sem við mátti búast, að Steinolíufjelagið mundi þá þegar hækka verðið.

Fiskifjelagið mun hafa ráðfært sig við landsstjórnina um verð á olíunni, og var þá ákveðið 33 kr. verð á hverri tunnu. En þar sem olían varð að liggja óhæfilega lengi og rýrnaði óhæfilega mikið, var verðið hækkað í samráði við landsstjórnina um 1 kr., eða upp í 34 kr. á tunnu. En sú hækkun var ekki nægileg, eins og komið hefir á daginn.

Nú hefir forstjórn landsverslunarinnar krafist þess, að þessi upphæð, kr. 2.988,60, yrði greidd þegar í stað, ásamt vöxtum. Fiskifjelagið skrifaði þá fjármálaráðherra og fór þess á leit, að skuldin yrði gefin því upp. Ráðherra svaraði aftur þ. 27. maí, á þá leið, að hann hafi enga heimild til þess. Fer fjelagið því fram á, að þessi heimild verði veitt stjórninni. Vona jeg, að háttv. deild verði vel við þessum tilmælum fjelagsins. Það hefir ekki annað fje til umráða en styrkinn úr landssjóði, svo að gagnslaust virðist að ganga hart að því.

Jeg hefi borið þetta mál undir háttv. fjárveitinganefnd og óska því, að málinu verði vísað til hennar. (E. A.: Það mun öllu fremur eiga heima í fjárhagsnefnd). Jeg er á því, að þetta mál eigi heima í fjárveitinganefnd, eins og önnur samskonar mál, er til hennar hefir verið vísað. Annars er það óverulegt atriði, í hverja nefndina málinu er vísað.