11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þessi till., sem hjer liggur fyrir, er einföld mjög og ljóst, hver tilgangur hennar er. Jeg hygg, að flestum háttv. þm. sje kunnugt um það, að í þessa átt hefir allmikið verið starfað erlendis og gefist vel.

Það, sem vinst við sameiginlegt mötuneyti og almenningseldhús, er meðal annars það, að fæðan verður þeim ódýrari, er hennar neyta. Margir hverjir hafa úr litlu að spila og lítið fyrir sig að leggja, og því nauðsynlegt, að þeim geti orðið sem mest úr því litla, er þeir hafa handa á milli.

Enn fremur má gera ráð fyrir því, að eldsneyti sparist við, að matur er eldaður handa mörgum í einu, og þá er ekki síður vinnusparnaður að því. Eins má gera ráð fyrir því, að allmikil drýgindi verði á fæðuefnunum, þar sem matreitt er í stórum stíl.

Yfirleitt má segja, að þessi starfsemi hafi gefist ágætlega vel erlendis, og á sumum stöðum svo vel, að talið er sjálfsagt, að henni sje haldið áfram að ófriðnum loknum.

Hjer á landi hefir þetta ekki verið reynt enn sem komið er. En búast má við því, að afkoma manna verði æ erfiðari eftir því, sem ófriðurinn stendur lengur, og er því auðsætt, að ekkert má láta ógert til þess að draga úr erfiðleikunum hjá þeim, er við þrengstan kost búa. Og þessi till. stefnir einmitt að því að draga úr dýrtíðinni og bjarga þeim, sem bágast eiga.

Menn munu nú spyrja, hver þörf sje á því að senda menn utan, þó að þeir eigi að annast um starfsemi almenningseldhúsa. Því er þar til að svara, að sjón er sögu ríkari. Hjer er ekki völ á mönnum, er hafa kynt sjer þetta mál, að minsta kosti ekki svo rækilega, sem kostur á, ef menn væru sendir til útlanda í þeim tilgangi.

Ef þessi starfsemi á að ná tilgangi sínum, er nauðsynlegt, að forstöðumenn hennar sjeu stjórnsamir og kunni vel að færa sjer í nyt þau efni, sem þeim eru fengin í hendur. Og þó að utanför þessara manna kosti talsvert fje, þá hygg jeg, að sú upphæð verði margborguð í starfsemi þeirra, er heim er komið.

Til þess er ekki ætlast, að þeir, sem sendir verða utan, læri matreiðslu eða því um líkt. Þeir eiga að kynna sjer fyrirkomulag þessarar starfsemi, hvernig hún er rekin og henni er stjórnað. Þeir gætu haft gagn af að kynnast því, hvaða áhöld og tæki eru aðallega notuð, og gætu þeir þá um leið keypt þau áhöld, sem þeir álíta heppilegust til þessarar starfsemi hjer á landi.

Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir sent bjargráðanefndum beggja deilda áskorun þess efnis, að þær leggi til við þingið, að það veiti 2—3 mönnum styrk til utanfarar í þessu skyni.

Bjargráðanefnd þessarar deildar hefir tekið þessari málaleitun vel, svo sem sjá má af till. þessari, og einnig hafa þeir bjargráðanefndarmenn úr háttv. Ed., er jeg hefi átt tal við um málið, tjáð sig því hlynta.

Vitanlega hefði Reykjavíkurbær getað borið þennan kostnað sjálfur og ekki endilega þurft að fá fje frá landssjóði í þessu skyni. En gera má ráð fyrir, að þessi starfsemi komi víðar að haldi en hjer í bæ, t. d. í 3—4 stærstu kaupstöðunum. Þaðan gætu menn komið og lært af þeim, sem sendir yrðu úr Reykjavík, hvernig haga ætti þessari starfsemi í þeirra bygðarlagi. Og þar sem því má búast við, að þessi starfsemi komi öllum þorra almennings að haldi, virðist ekki nema sanngjarnt, að Alþingi leggi fram einhvern styrk.

Jafnvel þótt þinginu hefðu engar óskir borist í þessa átt, þá hygg jeg, að þingið hefði samt átt að taka þetta upp hjá sjálfu sjer og beitast fyrir málinu, svo að menn færu að hefjast handa. Því að jeg er á þeirri skoðun, að þetta geti orðið fátæklingum allmikil hjálp í dýrtíðinni.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en vona, að háttv. deild taki því vel.