11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Matthías Ólafsson:

Jeg er í miklum vafa um það, að þessi fjárveiting, þótt veitt yrði, kæmi að nokkrum notum, og allra síst eins og nú stendur á. Því að annaðhvort hefðu þessir menn lítið að læra, og væri þá fjárveitingin óþörf, eða ef þeir hefðu mikið að læra, mundi það taka talsverðan tíma, og gæti þá svo farið, að námi þeirra yrði ekki lokið fyr en öllum vandræðunum væri lokið.

En það er hreinn óþarfi að fara af landi burt til þess að læra þetta. Þessi starfsemi er kunn hjer á landi. Menn vita það, hve miklum mun ódýrara mönnum hefir reynst mötuneyti á ýmsum skólum, t. d. Akureyrarskóla og víðar.

Ef menn væru fengnir til þess að kynna sjer hagfeldustu kaup og aðdrætti á vörum, þyrftu þeir ekki að fara út úr landinu. Og auk þess víkur öðruvísi við erlendis. Matföng, sem annarsstaðar eru mest notuð, fást annaðhvort alls ekki hjer, eða þá að eins við ránverði, Má nefna til dæmis kálmeti alt, sem erlendis er mjög notað í slíkum almenningseldhúsum.

Jeg hygg því, að árangurinn af utanför nokkurra manna yrði ekki mikill. Það mundi verða eins notadrjúgt að kynna sjer samlagsmötuneyti hjer á landi.

Fyrsta skilyrði til þess, að almenningseldhús komi að notum, er að hafa hentugt húsnæði. En á því er ekki völ hjer í Reykjavík. Í útlöndum hefir verið höfð tvennskonar aðferð við borðhaldið. Annaðhvort hafa menn etið sameiginlega, eða maturinn hefir verið eldaður í almenningseldhúsum, en síðan verið fluttur út um bæina. Víðast hvar hefir reynslan orðið sú, að fyrir fjölskyldur hefir þessi matur orðið jafndýr og hann hefði verið eldaður í heimahúsum. En fyrir einhleypa menn hefir þetta orðið ódýrara, eins og skiljanlegt er, þar sem matur er soðinn við sama eldinn handa mörgum.

Jeg býst við því, að fleiri en háttv. frsm. (J. B.) láti í ljós álit sitt á þessu máli, og áskil jeg mjer þá rjett til andsvara síðar meir.