11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Matthías Ólafsson:

Það er rjett til getið hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að jeg er ekki mótfallinn málinu, þótt jeg sje ekki með því að senda út menn. Jeg er málinu einmitt hlyntur. En hitt er skakt, að jeg hafi ekki hugsað um málið. Jeg hefi hugsað þetta mál eins og allar aðrar samvinnuleiðir eða samlagsaðferðir. Er jeg að talsverðu leyti samþykkur þessari aðferð, en að vegurinn sje sá, að senda utan menn, verð jeg að halda fram að sje algerlega skakt. Jeg hefi sýnt fram á það áður, að slíkt er til hjer, og þarf því ekki að senda menn til þess að fá nýja og dýra þekkingu á því erlendis Enginn vafi er á því, að sá maður, sem staðið hefir vel fyrir litlu kosthúsi, geti staðið fyrir stóru, og þarf ekki annað en stækka húsakynnin og auka allar útveganir matvæla.

Alt, sem hjer þarf, eru „praktiskir“ menn og ráðvandir menn. Ef senda á út mann eingöngu til þess að læra að stjórna þessu, þá er það misskilningur. Það er ekki sagt, að það fólk, sem kann að búa til mat, sje ætíð „praktískasta“ fólkið. Það þarf að hafa nægilegt fje milli handa, svo að það geti keypt inn í stórum stíl. Og enn fremur þarf það gott húsnæði. Það þarf að vera fólk, sem kann að hagnýta peningana sem best og haga blöndun fæðunnar svo, að sem notadrýgst sje og næringarbest. En þetta liggur í eðli hvers „praktisks“ manns og húsmóður. Það verður að koma upp nokkurskonar þjóðarmatreiðslu, þar sem fengið sje sem mest úr innlendum afurðum og efnum. Það væru ef til vill aðalþægindin við þetta, að vjer lærðum að nota íslenskar matjurtir, og hver veit nema oss tækist þá að hagnýta oss purpurahimnuna og maríukjarnann.

Það er ekki nokkur vafi á því, að það getur verið sjerstaklega gott fyrir „lausafólk, og mikill sparnaður að því, en jeg hefi áður tekið það fram, að fyrir þá, sem hafa börn, muni það ekki verða svo mikill sparnaður að kaupa matinn á þessum stöðum, því að börnin þurfa talsvert mikið fyrir utan það, sem þau fá þar; þau þurfa t. d. meiri mjólk, enda hefir reynslan orðið sú, þar sem slík almenningseldhús hafa verið, að fjölskyldum með mörg börn hefir varla þótt það borga sig að matast þar. En það hefir þótt langt um ódýrara fyrir menn, sem sem hafa orðið að ganga að fæðu sinni annarsstaðar, utan heimilis síns, og vitanlega orðið að borga lífsuppeldi sitt. Allir vita líka, að það er miklu betra að matreiða í stórum heldur en smáum stil; þarf ekki annað en benda á bökunarhúsin í því efni, enda sjá menn það oftast, að það verður miklu ódýrara að láta baka þar en heima hjá sjer, nema þá því að eins, að þau taki óhæfilega hátt verð fyrir.

Jeg raun því styðja að því, að þetta fyrirtæki verði styrkt með einhverju fjárframlagi, en með því að vitanlegt er, að það kemur Reykjavíkurbæ að mestu gagni, þá þætti mjer sanngjarnt, að hann legði til fullan helming, en ekki 1/4 hluta, þess fjár, er til þarf.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) bjóst við, að hægt væri að undirbúa alt saman meðan sendimennirnir væru utanlands, en það er ekki rjett. Það er ekki hægt að undirbúa svo sem neitt fyr en þeir koma aftur og segja, að svona og svona eldavjelar og svona og svona áhöld þurfi að kaupa, því að það segir sig sjálft, að t. d. eldavjelarnar þurfa að vera miklu stærri og betri en hjer tíðkast, ef þetta á að borga sig, sem auðvitað er að það á að gera.

Þá bjóst sami háttv. þm. (J. B.) við að ýmsir menn, sem hafa fjölskyldu, mundu kaupa mat þar. Jeg get nú ekki hugsað mjer það, að minsta kosti ekki um þá, sem þegar hefðu sett bú. (B. J.): Þeir senda eftir matnum og borða hann heima hjá sjer). Þeir þurfa þó ekki stóru pottana til þess að borða úr heima hjá sjer, en það er reyndar annar kostur við það. Þeir komast af með miklu minna húsnæði, því að þeir þurfa ‘ enga geymslu, að eins tæki til þess að hita matinn hjá sjer. Þess vegna verður þetta ódýrara, og því í alla staði æskilegt, að það komist á. En jeg verð að halda því fram, að það sje engin þörf á að vera að senda menn út úr landinu til þess að koma þessu í framkvæmd. Það, sem til þess þarf, eru duglegir og „praktiskir“ menn, sem kunna til matreiðslu. Það verður að búa til sæmilega rjetti úr þeim fæðutegundum, sem hægt er að fá á landi hjer, og þá dugir auðvitað ekki að fara stranglega eftir því, sem menn kunna að hafa lært í útlendum matreiðslubókum áður.