21.06.1918
Neðri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Bjargráðanefnd hefir leyft sjer að bera fram brtt. á þgskj. 372. Mergur brtt. þessarar er sá, að „álítist þess eigi þörf að senda menn utan í þessum erindum, er landsstjórninnj heimilt að verja fjenu til styrktar því, að almenningseldhúsi verði komið á fót“.

Bjargráðanefnd hefir gert þetta fyrir þá sök, að við fyrri umr. málsins komu hjer fram raddir, að eigi mundi ástæða til að senda menn utan, en hins vegar nauðsynlegt að koma almenningseldhúsi á stofn. En það má fullyrða, að bjargráðanefnd leggur samt engu að siður áherslu á, að vandað sje til vals þeirra manna, sem eiga að veita eldhúsinu forstöðu, því að án þess mundi það ekki geta náð tilgangi sínum. Ef hjer eru einhverjir heima, sem beinlínis þekkja af eigin sjón og reynd, hvernig almenningseldhús eru starfrækt erlendis, og þeir geta veitt almenningseldhúsi forstöðu hjer, þá vitanlega gefur nefndin ekki um, að menn sjeu sendir utan í þessum erindum, en nefndin leggur ríka áherslu á, að val forstöðumannanna verði sem allra best vandað.

Nefndin lítur enn fremur svo á, að fyrirtæki þetta sje svo gagnlegt og mundi koma að svo miklum notum, að hún telur sjálfsagt, að þingið ýti undir framkvæmdir þess. Eins og vjer þekkjum, hefir almenningseldhúsum verið kornið víða upp erlendis og gefist vel. Má t. d. fá góða máltíð fyrir 75—90 aura, og eftir því verðlagi, sem nú er á matvöru, munu menn sjá, að þetta er miklu ódýrara en kostur heima.

Jeg sje eigi ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti, að háttv. deild taki málinu vel, því að hjer er um mjög svo mikilsvert mál að ræða.