14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Gísli Sveinsson:

Mjer fer eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að jeg stend upp til þess að mæla með brtt. minni, sem kemur fram við aðalfrv. Af þessu geta háttv. þm. sjeð, að jeg hallast helst að þessu frv., eða, með öðrum orðum, að frv. hæstv. landsstjórnar.

Jeg er alls ekki ánægður með brtt. háttv. meiri eða minni hluta bjargráðanefndar, er hjer liggja fyrir. Það sem má segja, að sjerstaklega skilji í sundur með mjer og háttv. meiri hluta bjargráðanefndar, er það, að bann fer þá leið, sem jeg tel ófæra, ef tekið er fult tillit til fjárhags landsins, sem sje lánaleiðina.

Jeg mælti svo í fyrra, er talað var um þessi dýrtíðarmál, að jeg teldi lánaleiðina óhagstæðari heldur en þá leið, að veita þeim styrk, jafnvel óafturkræfan, sem vegna dýrtíðar hafa lent í svo mikill neyð, að þeir sjeu eigi á neinn veg megnugir að bjarga sjer. Og þessi leið er þá líka farin í frv. stjórnarinnar.

Þó að styrkurinn eftir frv. stjórnarinnar sje nokkuð takmarkaður, þá get jeg þó sagt, að í öllum aðalatriðum felli jeg mig algerlega við þá úrlausn málsins, sem þar er komist að.

Það má segja, að sá styrkur, sem ákveðinn er í stjórnarfrv., komi ekki öllum hlutum landsins til jafnmikils gagns, eftir eða í samræmi við þarfirnar, en þessi styrkur er einmitt bundinn þeim styrk, sem bœjar- og sveitarfjelög eiga að veita. Og þótt segja megi, að landssjóður hlaupi ekki nægilega undir baggann, t. d. hjer í Reykjavík, þá er ekki svo mjög mikið við það að athuga, því að landssjóður á ekki að hlaupa undir baggann fyr en alt um þrotnar annað og bœjarfjelagið hefir lagt alt sitt til og gert sitt ítrasta.

En þó að meiri hluti bjargráðanefndar sje hjer að nokkru á rjettri leið, þá hefir hann þó ekki komist á heppilegri braut heldur en stjórnin. Það hefir sem sje sýnt sig, að allsendis ókleift er að fylgja lögum síðasta þings um lánin; bæði er, að fje hefir ekki fengist, eða verið handbært til slíkra hluta, og svo er það sannarlega ekki auðvelt að gera upp á milli bæjar- og sveitarfjelaga er um lán biðja, um það, hvar þörfin sje mest. Jeg býst við, að landsstjórnin geti ekki skorið úr því, hvernig ástandið sje heima í hjeruðunum, heldur verði hún yfirleitt að taka sveitarstjórnirnar trúanlegar í því efni.

Það kom fram í fyrra sem andmæli móti mjer, að ekki mætti trúa sveitarstjórnunum fyrir styrkbeiðnunum, eða meðmælum með þeim, en að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til þess að hverfa frá því, sem jeg hjelt fram þá, að trúa yrði sveitarstjórnunum fyrir því að gefa skýrslu um ástandið heima fyrir, enda finst mjer, að ef þær væru svo óábyggilegar, þá væri ekki heldur þorandi að trúa þeim fyrir lánum, nje yfirleitt til skýrslugjafa, sem þó verður að gera, svo sem lög lands mæla fyrir um.

Brtt. mínar við frv. stjórnarinnar er í tveim liðum. Fyrri liðurinn miðar að því að koma atvinnubótunum inn á nokkuð aðra braut en gert er ráð fyrir í 1. gr. stjórnarfrv., og vil jeg því, að aftan við þá grein bætist ákvæði, sem gefi það til kynna, að stjórninni sje heimilt að veita fje til atvinnubóta, á ábyrgð bæjar- eða sveitarfjelags. Þessi hugsun er í samræmi við hugsun meiri hl. bjargráðanefndar, sem sje þá, að koma atvinnubótunum sem mest í hendur bæjar- og sveitarstjórna.

Þá er breytingin, sem jeg vil að gerð verði á 6. gr. stjórnarfrv. Jeg vil láta orða hana þannig, til þess að það orki ekki tvímælis, að það fje, sem varið er til atvinnubóta, verði notað að eins í „beinar þarfir framleiðslunnar“ og til þess að styðja að atvinnuvegum bæjar- eða sveitarfjelagsins, sem síðar kæmi því í verð, sem unnið er. Hjer er jeg þá aftur kominn inn á hugsanaleiðir hv. meiri hl. bjargráðanefndar.

Mjer finst sem sje, að sú reynsla, sem fengin er um atvinnurekstur landsstjórnarinnar, sýni, að ekki sje rjett að halda honum áfram. Það er öllum kunnugt, að í fyrra var gripið til þess að láta menn fara að vinna að grjótvinnu, og er síst hægt að segja, að sú vinna hafi verið rekin í beinar þarfir framleiðslunnar, því að hún er bæði ófrjósöm og óarðsöm. Það yrði að vera beinn markaður fyrir grjót, og það yrði að vera keypt fullu verði, ef landssjóður ætti ekki að skaðast á þeirri atvinnu. En nú er hvorki markaðurinn til, og svo hefir grjót þetta orðið svo dýrt, að það svarar ekki verði, langt í frá.

En nú mundi, ef til vill, einhver spyrja, hvað átt væri við með því, að atvinnustyrkur ætti að ganga í „beinar þarfir framleiðslunnar“. Þá er því að svara, að það getur bæði náð til sjávar og lands. Setjum nú svo, sem vel er hugsanlegt, að landssjóður fari að gera út, annað hvort í smærri eða stærri stíl, þá væri það fje, sem til þess væri veitt, notað í beinar þarfir framleiðslunnar. Og að því er til landsins kemur, má nefna ýmislega ræktun jarðarinnar, jafnvel, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S) tók fram, heyskap og garðrækt. En hins vegar get jeg ekki fallist á aðalefnið í till. hans, sem kom mjer þó ekki á óvart, að landssjóður fari að veita fje eða láta vinna að stærri áveitufyrirtækjum, og þá auðvitað að Flóaáveitunni. því að honum liggur hún þyngst á hjarta, sem dýrtíðarvinnu. Jeg sje ekki nein tök á að heimila stjórninni fje til slíkra hluta, því að jeg býst við, að á sínum tíma verði verkið í heild boðið út, og að fjelag eða einstaklingur taki það að sjer. Það væri ekki heldur rjett að telja þessa vinnu unna í beinar þarfir framleiðslunnar, því að það getur ekki komið að notum fyr en að svo og svo mörgum árum liðnum og ekki fyr en verkið er búið að fullu Svo er það enn eitt, sem mælir á móti því að láta vinna þetta verk sem dýrtíðarvinnu, og það er, að það getur komið sjer mjög illa fyrir þá eða þann, sem aðalverkið tæki að sjer, að aðrir hafi verið að fást við það á undan honum að einhverju leyti og ef til vill með lítilli forsjá.

En að þessu öllu sleptu, þá er einn aðalhængur á þessu, sem er nægilegur til þess að útiloka það, að unnið verði að þessu í dýrtíðinni, og hann er sá, að til þessa verks þarf verkfæri, sem ekki eru til hjer í landinu og engin tök eru á að útvega fyr en að stríðinu loknu, því að iðnaði meðal stórþjóðanna er nú beint í aðra átt heldur en að framleiða saklaus jarðyrkjuverkfæri. Hins vegar er jeg ekki með öllu mótsnúinn till. hv. þm. (S. S), því að hún er í mörgu mjög nœrri minni till., en vegna þessa atriðis tel jeg vissara að samþykkja hana ekki.

Þá talaði hv. þm. (S. S.) um, að ekki væri hægt að telja vegagerð sem vinnu beint í þarfir framleiðslunnar, en um þetta atriði get jeg ekki verið honum alls kostar sammála, því að jeg verð að segja, að svo má lita á, sem vegagerð sje einn liðurinn í framleiðslu landsmanna, þar sem vegir landsins eru annar höfuðþátturinn, bæði hvað aðdrætti snertir, og svo hitt, að koma vörunum frá sjer. Vegna þessa mætti því gjarna vinna að vegagerð, og jafnvel brúargerð líka, sem dýrtíðarvinnu En nú vil jeg ekki, að landssjóður fáist neitt við dýrtíðarvinnu með slíkum hætti, heldur styðji hann bæjar- og sveitarfjelögin til þess að framkvæma hana, bæði með því að kaupa þær afurðir, sem fram koma við dýrtíðarvinnuna, og svo með því að styrkja t. d. útgerðina. En hvað sem landssjóður nú styrkir, eða lætur gera, þá verður það að vera unnið í beinar þarfir framleiðslunnar, því að á henni stendur alt, og vel getur svo farið um hana, að landssjóður þurfi beinlínis að taka í taumana, einkum að því er sjóinn snertir.

Mjer þykir ekki ástæða til þess að tala meira um þessa till. mína, en jeg hefi komið fram með hana til þess að sýna afstöðu mína til málsins, enda álít jeg, að ef þessi till. nær fram að ganga, þá sje málinu vel borgið, eða sæmilega.

Jeg hefi ekki minst verulega, hvorki á nál. nje brtt. meiri eða minni hl. hv. bjargráðanefndar; þó hefi jeg getið þess, að jeg mundi ekki greiða meiri hl. brtt. atkvæði mitt, og get jeg nú þegar lýst yfir því, að svo er og um minni hl. till., þó að þær sjeu nokkuð í sama stíl og stjórnarfrv.