15.06.1918
Neðri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

97. mál, efniviður til opinna róðrarbáta

Pjetur Ottesen:

Jeg get ekki látið hjá líða að þakka háttv. bjargráðanefnd fyrir þessa till. Hún er orð í tíma talað, og álít jeg hana einhverja þá bestu og sjálfsögðustu bjargráðaráðstöfun, sem unt er að gera á þessu landi. Það getur altaf komið fyrir á þessum voðatímum, að aðflutningar geti tepst á þeim vörum, sem öll stærri útgerð er rekin með, en það eru steinolía og kol. Er þá ekki annað að leita en til róðrarbátanna. Og þá er nauðsynlegt að hafa nægan efnivið til þess að halda þeim við og fylla í skörðin.

Á síðasta þingi hreyfði jeg ásamt hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) þessu máli í bjargráðanefndinni. Var okkur falið að leita upplýsinga um bátaviðarbirgðir hjer í Reykjavík. Það kom þá í ljós, að hjer voru þá mjög miklar birgðir af bátavið, svo að af frekari framkvæmdum í þessa átt varð ekki í það sinn.

En nú er altaf að kreppa meir og meir að, og upplýsingar þær, sem hv. frem. (S. St) mintist á um opna báta, sem til eru í landinu, og efnivið til bátagerðar, sýna það, að það má ekki lengur dragast, að eitthvað sje aðhafst til tryggingar því, að ekki verði bátaskortur. Því að ef aðflutningar teptust, væri ilt, ef við þyrftum að standa sem glópar og hefðum ekki fleytu til þess að fara á út fyrir landsteinana.

Jeg vona því, að hæstv. stjórn verði vel við þessari áskorun og að háttv. deild láti till. ná fram að ganga.