21.06.1918
Neðri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

98. mál, erfðaábúð á þjóðjörðum og kirkjujörðum

Flm. (Björn R. Stefánsson); Þegar þing þetta kom saman í vor, hygg jeg, að það hafi verið vilji og von flestra eða allra utanbæjarþingmanna, að það stæði sem allra styst, enda var þá eigi búist við, að sambandsmálið tefði tímann, eins og nú hefir raun á orðið.

Þess má geta, að margir þingmenn í Reykjavík voru svo framsýnir, að þeir sáu fyrir, að þingið mundi standa lengi.

Þeir þm., sem vonuðu og vildu, að þingið stæði ekki lengi, komu sjer saman um að tefja ekki störf þess með því að flytja þau mál, er mættu biða að skaðlausu næsta sumars. Að minsta kosti voru samtök um þetta í þeim flokki, sem jeg telst til.

Eftir þessu samkomulagi hefi jeg hagað mjer og gengið lengra í því en átt hefði að vera, eftir því sem nú er fram komið. Því að jeg tel fjarri fara, að lög um erfðaábúð megi bíða að skaðlausu næsta sumars, hvort sem á það er litið frá sjónarmiði þeirra, sem vilja selja sem fyrst þessar þjóðareignir, sem og hinna, er vilja, að landið haldi þeim og heldur auki þær en eyði þeim.

Jeg tók það fram í fyrra, að ef byggingarskilmálar leiguliða væru ekki færðir í það horf, sem jeg teldi æskilegt, þannig að þeir hefðu sömu hvöt til að bæta ábúðarjarðir sínar eins og þeir ættu þær sjálfir, þá vildi jeg heldur, að landið seldi jarðirnar, heldur en láta við svo búið standa. En helst vildi jeg, að landið ætti jarðirnar áfram, ef hægt væri að búa svo um, að þær yrðu eins vel setnar og eins mikið bættar sem sjálfsábúðarjarðir. En það tel jeg að fengist með erfðaábúð í líkingu við það, sem gert var ráð fyrir í frv. því, sem jeg flutti í fyrra. Þar gerði jeg grein fyrir, hvernig jeg vildi koma þessu fyrir, að landbúnaðarnefnd svæfði málið.

Eftir þjóðjarðasölulögunum hefir stjórnin eiginlega ekki heimild til þess að neita um kaup á jörðum, nema hlunnindi fylgi jörðunum eða aðrar sjerstakar ástæður sjeu fyrir hendi. Þess vegna virðist mjer það ligggja í hlutarins eðli, að þeim, sem eigi vilja selja jarðirnar, ætti að vera það áhugamál að stöðva eftirsókn leiguliða til þess að kaupa þær. En sje það eigi hægt með erfðaábúð, mun það eigi verða með öðru móti.

Kaupbeiðnirnar drifa að úr öllum áttum, svo að innan lítils tíma verða allar þær jarðir seldar, sem seldar verða, ef salan heldur áfram.

Jeg hafði jafnvel vonast eftir, að stjórnin mundi leggja fyrir þetta þing frv. um erfðaábúð. Því að mjer er kunnugt um, eftir því sem fram kom í fyrra að minsta kosti, að meiri hluti hennar er mótfallinn sölu þjóðjarða. Því hefði verið eðlilegt, að hún hefði flýtt fyrir erfðaábúðarlögunum, til þess að draga úr eftirsókninni.

Einnig veit jeg um allmarga leiguliða, sem eiga ósvarað frá stjórnarráðinu 1—2 ára gömlum kaupbeiðnum, að þeir ætluðu að bíða fram yfir þetta þing með að herða á svörunum og draga sig alveg til baka, ef á þessu þingi yrðu samþykt erfðaábúðarlög, svipuð frv. því, sem jeg flutti í fyrra.

Aðrir hættu við að sækja um kaup á býlum sínum síðastliðið vor, af sömu ástæðu. Þeir ætluðu að bíða og sjá, hvað þetta þing gerði. En jeg fæ eigi skilið, að þessum mönnum litist biðin álitleg ef þessi till. verður feld.

Jeg drap á það áðan, að þeim, sem eigi vildu selja jarðirnar, ætti að vera það áhugamál, að erfðaábúðarlög kæmust á sem fyrst, og þeir hinir sömu menn ættu því að vera tillögu minni hlyntir, því að eins og menn vita og jeg hefi líka drepið á áður, verður bráðlega svo komið, ef salan heldur áfram, að ekki verður annað óselt af þjóðjörðum og kirkjujörðum en hlunninda- og kostajarðirnar mestu, sem eigi verða seldar, eða þær jarðir, sem eru sjerstaklega vel fallnar til stórfeldra umbóta, Þær einar verða þá eftir í höndum leiguliða.

En þar sem þjóðjarðasölumenn gera svo mikið úr því, hve sjálfsábúðarjarðir sjeu betur setnar og betur ræktaðar, þá skil jeg ekki, að þeir geti unað við, að bestu jarðirnar sjeu í höndum leiguliða. Ef þeim er svo mikið áhugamál, sem virðist, um lakari jarðirnar, hjelt jeg, að þeir vildu tryggja landinu einhverjar umbætur á betri jörðunum.

Þá er að lita á þá hlið málsins, sem að landssjóði snýr. Flestir gera sjer glæsilegar vonir um framtíð þessa lands. Hjer verði mjög starfað að ýmsum verklegum framkvæmdum af landsins hálfu, og jarðir stigi þá í verði. Og mjer virðist rjettlátast, að hver njóti sinna verka. Ábúendurnir eiga að græða á sínum verkum, en eigi því, sem landssjóður lætur vinna. Samt vil jeg fremur selja jarðirnar en halda ábúendum við þau kjör, sem þeir eiga nú við að búa.

Um þetta mál verður að eins ein umr., og sje jeg eigi ástæðu til þess að fela nefnd málið til meðferðar. Eftir kynni mín af meðferð landbúnaðarnefndar á því í fyrra kýs jeg helst, að hún verði ekki látin fjalla um það, enda liggur það ljóst fyrir.