20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Af því að þingsályktunartill. þeirri, er hjer um ræðir, fylgir engin greinargerð, þá verð jeg í fám orðum að skýra hana nokkuð frá sjónarmiði fjárveitinganefndar.

Eigendur klæðaverksmiðjunnar „Álafoss“ sendu fjárveitinganefnd erindi, þar sem þeir fara þess á leit, að landssjóður láni þeim 100 þús. kr. til þess að auka og endurbæta verkamiðjuna. í nefndu brjefi skýra þeir og frá, hvernig þeir hugsa sjer að verja fjenu, og er það á þennan hátt:

1. Til kaupa á fleiri vjelum til ullariðnaðar kr. 40.000

2. Til kaupa á vjelum til nærfata- og sokkagerðar — 15.000

3. Til kaupa á vjelum til þorskanetagerðar — 25.000

4. Til óhjákvæmilegra mannvirkja — 20.000

Samtals kr. 100.000

Eftir að fjarveitinganefndin hafði kynt sjer verksmiðjuna nokkuð nánar og fengið skýringar á því, í hverju endurbæturnar yrðu fólgnar, þá afrjeð hún að verða við beiðni verksmiðjueigenda og ber því fram till. á þgskj. 366. Hún varð að líta svo á, að hjer væri um afarþarft fyrirtæki að ræða, nokkurskonar bjargráð á þessum tímum, er landinu væri skylt að styðja, ef unt væri.

Það er öllum kunnugt, að í landinu sjálfu höfum vjer mikið meira en nóg efni til þess að klæða alt landsfólkið, nefnilega ullina. Og á þessum tímum er það hin mesta lífsnauðsyn að nota sem mest öll innlend efni, allar innlendar afurðir, til þess að vjer sjeum sem minst upp á aðrar þjóðir komnir, sem samband vort við getur slitnað þegar minst varir. Hygg jeg, að allir sjeu samdóma um það. Þess vegna verður að álíta ullarverksmiðjur og klæðaverksmiðjur nokkurskonar bjargráð. En til þess, að nokkur von sje til þess að fullnægja fataþörfum landsbúa, verður sem mest að notfæra sjer náttúruöflin til vinnunnar.

Hjer hafa nú ötulir framtaksmenn hafist handa. Keyptu þeir Álafossverksmiðjuna í fyrra og reka hana með dugnaði, að því er sjeð verður. Því fanst fjárveitinganefnd ekki óeðlilegt, að landið reyndi að styðja þá á þann hátt, sem hjer er farið fram á, með láni, til þess að bæta og fullkomna verksmiðjuna, svo að hún geti leyst meiri og margbreyttari störf af hendi.

Á síðari árum hafa verið flutt inn í landið kynstrin öll af fötum og fataefnum. Bæði er nú það, að aðflutningar geta tepst eða minkað þegar minst varir. Og þótt svo væri ekki, þá væri þó nokkru kostandi til að framleiða mikið meira en nú af fatnaði úr ullinni okkar, þar sem útlenda efnið er nú rándýrt og oft handónýtt.

Nærfötin útlendu og sokkarnir, sem hjer fást í búðunum, eru ekki við okkar hæfi. Alt er skjóllaust, endingarlaust og geipidýrt. Nú ætla þessir menn að fá sjer vjelar til sokkagerðar og nærfata. Er það í fyrsta sinni hjer á landi, að verksmiðjur gera tilraun til að framleiða prjónaðar vörur. Jeg skal geta þess, að jeg hefi heyrt, að hálfullarsokkar kostuðu nú hjer í verslunum kr. 2,50, en ef þeir væru unnir hjer úr íslensku efni í íslenskum tóvinnuvjelum, er ganga fyrir vatnsafli, myndu þeir að minsta kosti verða helmingi ódýrari. Mjer hefir verið frá þessu skýrt af kunnugum mönnum. Þá ætla þessir menn og að bæta við vefstólum og láta verksmiðjuna ganga nótt og dag. En nú mun ekki hægt að fá vefstóla, nema ef hægt væri að ná samkomulagi við eigendur „Iðunnar“. Og á þennan hátt hugsa eigendur Álafossverksmiðjunnar sjer að auka ullariðnaðinn, að bæta bæði við sig sokka- og nærfatavjelum og fjölga vefstólum.

Þá hafa þeir og hugsað sjer að koma upp vjelum til veiðarfæragerðar. Eftirspurn eftir þorskanetum er að aukast meir og meir. Mjer hefir verið tjáð, að í Vestmannaeyjum einum væru um 30 bátar, er stunda netaveiði. Þessir bátar þurfa hver 100—200 net, 60 faðma löng og 24 möskva djúp og möskvavídd 4 þuml. Netin er ekki hægt að fá búin til erlendis, og ómögulegt að fá eins mikið af þeim og þarf með handavinnu einni saman. Hjer ætlar nú Álafossverksmiðjan sjer að hjálpa. Til kaupa á vjelum til netagerðar ætla verksmiðjueigendurnir 25 þús. kr., og búast þeir þá við, að verksmiðjan geti fullnægt eftirspurninni úr Vestmannaeyjum og víðar.

Af þessu geta menn sjeð, að það sýnist vera um hið mesta þarfa- og nauðsynjamál að ræða, og þar sem hjer eiga hlut að máli áhugamenn, sem vilja, að verksmiðjan geti framleitt enn meira, þá sýnist það þess vert að koma í móti þeim og rjetta þeim hjálparhönd með þetta fyrirtæki.

Jeg skal þá leyfa mjer að minnast örlítið á verksmiðjuna sjálfa. Álafoss, sem verksmiðjan er kend við, er, eins og kunnugt er, í Varmá í Mosfellssveit. Það er sá kostur við það vatnsfall, að vatnið í því er altaf volgt. Það afl, sem vatnið .hefir nú, nemur 25 hestöflum með þeirri fallhæð, sem það hefir nú; en þetta er oflítið, og þess vegna hafa eigendurnir fengið verkfræðing til þess að skoða vatnsaflið og allan útbúnaðinn; hefir hann áætlað svo, að ef stýflugarðurinn, sem er á fossbrúninni, væri hækkaður um eina stiku, fengist afl, sem næmi 40 hestöflum. Þetta ætla eigendurnir að gera, og jafnframt ætla þeir að stækka húsrúm verksmiðjunnar um 220 ferstikur; á það alt að byggjast úr steinsteypu, en hin nýja áætlun, sem þeir hafa fengið yfir húsagerðina og stýflugarðinn, nemur 42.000 krónum. Það, sem því þarf að leggja í verksmiðjuna, til þess að hún geti fullnægt þeim kröfum, sem þeir hugsa sjer, verður 122.000 krónur. Þeir búast við að geta fengið 100.000 króna lán úr landssjóði, en 22.000 krónur ætla þeir að leggja til sjálfir.

Nýju eigendurnir, Sigurjón kaupmaður Pjetursson og fjelagar hans, keyptu verksmiðjuna í fyrra, og kostaði hún þá 85.000 krónur. Skuldir, sem á henni hvíla, mest við banka, eru 58.700 kr.; skuldlaus eign verður þá 26.300 krónur, auk rúmlega 9.000 króna, sem var rekstrarágóði árið 1917, sem eigendurnir hafa varið til ýmsra endurbóta á fyrirtækinu, svo að nú má telja 35.000 krónur skuldlausa eign.

Fjárveitinganefndin hefir ætlast til, að landssjóður lánaði út á alt það, sem óveðsett er af verksmiðjunni, en það eru þá nær 35.000 krónur, og svo nýju viðbótina, sem búast má við að verði um 120.000 krónur. Það yrði þá í óveðsettri eign um 155.000 kr., og svo kærni til persónuleg ábyrgð verksmiðjueigendanna sjálfra. Þeir eru þrír, og munu að minsta kosti tveir þeirra vera vel stæðir menn, sem óhætt sje að trúa fyrir nokkru. Nefndin álítur því, að engin sjerstök hætta sje fyrir landssjóð að lána þetta. Eins og sjest af till., er gert ráð fyrir, að lánið verði borgað á 20 árum með jöfnum afborgunum og 5% í vexti, en það eru sömu kjör og hinar verksmiðjurnar hjer á landi hafa fengið.

Þá skal jeg geta þess, að nefndin hefir nokkuð kynt sjer reikninga verksmiðjunnar síðastliðið ár, eða einkanlega frá þeim tíma, er hinir nýju eigendur tóku við henni, frá 1. ágúst til ársloka. Rekstrarkostnaðurinn hefir alls numið 25.451 kr., þar af kaup verkafólksins 84.99 kr. og fæðiskostnaður þess 2.704 kr. Alls varð hreinn ágóði 9.121 kr., og kom sá ágóði einkanlega eftir 1. ágúst. Fyrirtækið sýnist því vel lífvænlegt til frambúðar, og má búast við, að það blómgist því betur, sem það getur betur fært út kvíarnar og fullnægt betur eftirspurn almennings, en nú fullnægir verksmiðjan ekki nándar nærri þeirri eftirspurn, sem orðin er síðan hún varð sú einasta verksmiðja hjer á Suðurlandi, sem vinnur úr ull, eftir að „Iðunn“ fjell úr sögunni.

Þó að nú þingið gefi fyrirheit um þetta lán, þá er þrátt fyrir það ekki hægt að segja með neinni vissu, að stjórnin hafi fje handbært til að lána, en jeg býst við, að svo framarlega sem fjeð verður fyrir hendi myndi stjórnin verða fús til þess, ef þingið vildi samþ. þessa till., því að næst eftir því að forða okkur frá hungri kemur það að hjálpa við fataþörf landsbúa, og svo er hitt, að ekki er lítið í það varið að geta átt kost á því innanlands, að bætt sje úr veiðarfæraskorti þeirra, er sjó stunda.

Jeg vænti nú, að háttv. deild taki vel þessari till., og sje ekki ástæðu til að fara nánar út í málið að sinni. Býst jeg líka við, að háttv. deild geti nokkurn veginn áttað sig á því, sem hjer er á ferðinni.