20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að eins að benda háttv. fjárveitinganefnd og frsm. hennar (Þorl. J.) á, að ef það er meiningin, að það eigi að eins að vera persónuleg ábyrgð eigenda verksmiðjunnar fyrir láninu, þá er óþarfi að taka það fram, því að þeir ætla sjálfir að taka lánið, og ábyrgjast þá sem lántakendur. Þess vegna er það hlægilegt að nefna persónulega ábyrgð þeirra. Ef það því er meiningin, að eigendur verksmiðjunnar taki lánið sjálfir, og engin önnur trygging sje en veð í verksmiðjunni, þá þarf að laga till. á þann hátt, að orðin: „... og ábyrgð, er stjórnin tekur gilda ...“ falli burt. Annars er jeg mótfallinn þessari lánsheimild og vil, að heimtuð sje næg trygging, ef í lánið er ráðist. Það sýnist meiningarlitið að vera að heimila lán nú úr landssjóðnum, þegar hann sjálfur verður að taka stórlán hvað eftir annað.