10.07.1918
Efri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

100. mál, lán handa klæðaverksmiðjunni á Álafossi

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hefi litlu að bæta við það, sem tekið er fram í nál. þgskj. 471. Jeg hygg, að allir háttv. þm. geti verið sammála um, að það sje nauðsynlegt að styðja að slíkri framleiðslu, er hjer um ræðir. Það færi óneitanlega best á því að vinna sem mest klæði úr ull vorri, svo að vjer þyrftum ekki að kaupa erlendan klæðnað. Það má að vísu fá erlendan klæðnað, sem er jafngóður og sá, sem vjer höfum, en hann kostar þá svo mikið fje, að það er flestum ofvaxið að kaupa hann.

Hjer er farið fram á að styrkja með lánveitingu klæðaverksmiðjuna á Álafossi, svo að hún verði fær um að afkasta meiru en verið hefir. Hjer er að ræða um stóra lánsupphæð, 100.000 kr., eftir íslenskum mælikvarða, en ef slík lánveiting gæti orðið til þess, að klæðaverksmiðjan gæti afkastað meira og betra verki, þá dylst mjer ekki, að rjett sje að veita lánið, einkum ef lánið er jafnframt sæmilega trygt, og nefndin lítur svo á, sem svo megi telja. Verksmiðjan verður fullkomnari og meira virði fyrir endurbæturnar en áður, og auk þess leggja eigendurnir fram aðra tryggingu, sjálfskuldarábyrgð eða annað, sem stjórnin samþykkir. Líta ber og á það, að endurbætur þær, sem á að gera, kosta meira en 100.000 kr., eða lánsupphæðina, því að eigendurnir ætla að leggja fram 22.000 kr. til þeirra frá sjálfum sjer, svo að allar endurbæturnar koma til að kosta 122.000 kr.

Í nál. er það tekið fram, að 20.000 kr. verði varið til ýmsra óhjákvæmilegra mannvirkja, og er það aðallega til þess að auka vatnsmagnið. Vatnsmagn það, sem nú fæst, er 25 hestöfl, en ef flóðgarðarnir eru hækkaðir um 1 metra, þá verður það aukið upp í 40 hestöfl, en auk þess ætla eigendurnir að taka til notkunar annan foss, sem er neðar í ánni, og nota hann annaðhvort til netagerðar, eða til þess að framleiða ljós og hita, en það er nú gert með afli frá efra fossinum. Við þetta eykst líka vatnsaflið, svo að verksmiðjan ætti að geta afkastað enn meiru.

Mál þetta er ekki flókið. Ef menn vilja styðja og efla framleiðslu þessa, er rjett að samþ. till., og jeg hygg, að hv. Ed. gæti, eins og hv. Nd., látið sjer nægja að fela stjórninni að fara með trygginguna og gæta þess, að hún verði sem best.