24.06.1918
Neðri deild: 54. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

101. mál, raflýsing á Laugarnesspítala

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Ástæðan til þess, að fjárveitinganefnd hefir komið fram með þessa till., er sú, sem allir vita, að á Laugaarnesspítala er alt lýst með steinolíu. Steinolíuljósin hafa þar sem annarsstaðar mikla galla, þurfa mikils viðhalds, óþrifnaður talsverður að þeim, og síðast en ekki síst stafar brunahætta af þeim, þar sem spítalinn er timburhús. En að þessi till. kemur nú fram stafar aðallega af því, að erfitt er að halda við þeim, þar sem spítalinn er timburhús. En að þessi till. kemur nú fram stafar aðallega af því, að erfitt er að halda við ljóstækjunum. Skortur er á steinolíulömpum, og ef eitthvað bilar í þeim, þá er ekki ætíð hægt að fá sömu tegund í staðinn, og verður því oft að kaupa nýja lampa, þó að ekki vanti annað en lampaglas, kveik, dreifara eða því um líkt. Og sjerstaklega hefir það ýtt undir nefndina með að með þessa till., að svo gæti farið, að alls ekki yrði unt að útvega steinolíulampa.

Hjer hafa nú verið settar upp smárafmagnsstöðvar, og hafa þær flestar reynst vel. Kostnaðurinn við að koma þessari stöð upp yrði 23165 kr., samkvæmt tilboði, er gert hefir verið. Gert er ráð fyrir, að 6 hesta vjel framleiði rafmagnið, og er hún og alt, sem tilheyrir, innifalin í þessu tilboði.

Nefndin hefir ekki fengið fullkomlegar upplýsingar um það, hvort rafmagnsstöð sje ódýrari í rekstri en steinolíuljós. Þeir menn, er hafa komið sjer upp smárafmagnsstöðvun, hafa ekki langa reynslu í því efni, og reynslu þeirra ber ekki saman. Sumir segja, að rafmagnsljós sjeu mun ódýrari. Einn maður hefir t. d. látið það í ljós við nefndina, að 100 kerta rafmagnsljós kosti 8 aura um klukkustund, en sama steinolíuljós 17 aura, með því olíuverði, sem nú er. Má því búast við, að rafmagnsljósin verði ekki mun dýrari, en sá er munurinn á, að miklu minni vinnu þarf við þau en steinolíulampa. Og þar að auki er talsverð áhætta að nota steinolíulampa þar, sem sjúklingar eru margir veikir og svo farlama, að þeir geta ekki notað hendurnar, og eru ósjálfbjarga, ef bruna bæri að höndum. Ekki myndi þurfa að bæta manni við til þess að hirða vjelina; það gætu sjúklingarnir annast.

Jeg býst við, að margir mundi segja, að óþarfi sje að koma þessari stöð upp nú, þar sem þess muni skamt að bíða, að komið verði upp aflstöð fyrir bæinn. Þetta er að vísu rjett, að bærinn muni koma sjer upp rafmagnsstöð áður en líður á löngu. En þó að sú stöð komi, er hjer ekki kastað út miklu fje. Allar leiðslur og lampa er þá hægt að nota áfram, og þarf ekki að kaupa þá hluti oftar en einu sinni. Það yrði þá að eins vjelin og rafmagnsgeymirinn, sem yrði óþarft. En gera má ráð fyrir því, eftir því sem horfur eru á, að menn muni setja upp smáaflstöðvar víða úti um land, og eru fullar líkur til þess, að þá megi selja vjelina og rafmagnsgeyminn á affalla. Þarf því ekki að óttast, að þessu fje verði á glæ kastað, heldur muni fást sæmilegt verð fyrir alt það, er síðar kann að verða óþarft á spítalanum.

Eins og jeg tók áður fram, er ekki hægt að segja með fullri vissu um rekstrarkostnaðinn. Nefndin hefir ekki fengið beina áætlun um hann. En sú er reynsla sumra manna, að rafmagn sje ódýrara en steinolía. Maður sá, er gert hefir tilboð um að koma stöðinni upp, kveður rekstrarkostnaðinn, munu verða minni, en aftur segja aðrir, að hann muni verða fult svo hár. Hefir nefndin því ekki getað áttað sig á þessu atriði.

Það er óhætt að segja, að rekstrarkostnaðurinn geti orðið meiri, en þá fæst líka meira ljósmagn en áður fyrir sama verð.

Vjer spurðum líka mann þann, er tilboðið gerði, hvort ekki myndi verða hægt að spara þá olíu, sem notuð er þar á spítalanum til suðu, og áleit hann, að vafalaust mundi mega spara steinolíuvjelar þær og »primusa«, sem notaðar eru til kaffihitunar.

Jeg get þá ekki gefið frekari upplýsingar í svip, þótt verið geti, að jeg þyrfti að taka fleira fram. En ef jeg skyldi geta gefið einhverjar frekari upplýsingar, sem háttv. þm. þætti æskilegt að fá, þá vona jeg, að þeir láti til sín heyra.