06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg held, að á hverju þingi, sem jeg hefi átt sæti með háttv. þm. N. Ísf. (S. St.), hafi jeg altaf heyrt hann flytja eina glymjandi, orðmarga ræðu um sparnaðinn. En þegar jeg á eftir hefi farið að hugleiða, hvað háttv. þm. (S. St.) hafi sagt, þá hefir mjer dottið í hug sama erindið og háttv. þm. (S. St.) hafði yfir og hljóðar svo á latínumáli: „Partiriunt montes, nascitur ridiculus mus“. Fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús.

Því var skotið að mjer þegar í byrjun þings, á biblíumáli því, er háttv. þm. (S. St.) temur sjer, að hann mundi ætla að vaka eins vandlega yfir sál fjármálaráðherrans, eins og sá gamli lengra niðri vakir yfir mannssálunum. En eftir að jeg hefi hlýtt á ræðu hans, þá sje jeg, að hann ætlar sjer ekki eingöngu að vaka yfir minni sál, heldur ætlar hann að láta barnslegu, saklausu fjármálaaugun sín vaka yfir allri stjórninni, enda eru frv. þau, er hjer liggja fyrir, ákveðin í sameiginlegu ráði.

Þeim árásum, sem hv. þm. (S. St.) hóf mál sitt með, var aðallega beint að forsætisráðherranum, sem þm. (S. St ) sjerstaklega styður með sinni alkunnu trygð. Háttv. þm. (S. St.) fáraðist yfir því, að stjórnin hefði kallað þingið svo snemma saman. Og hann spurði með sínum mikla eldmóði: „Hvers vegna var þingið kallað svo snemma saman?“ Jeg held, að hver einasti kjósandi í þessu landi gæti svarað þessu spursmáli. Svo stór og mikilsverð mál eru nú á dagskrá þessarar þjóðar, að það er stórfurðulegt, að öldungurinn úr Vigur, sem var að vitna í gráu hærurnar sínar, skuli spyrja þannig. Í raun og veru er nægilegt að minna á fánamálið, minna á synjunina í ríkisráði á því, og ætti það mál eitt að vera ærið nóg til þess, að stjórnin kallaði þingið saman. Nóg ástæða var þar fyrir stjórnina til þess að kalla fulltrúana saman til að ráða ráðum sínum við þá um, hvað gera skuli. Háttv. þm. (S. St.) lítur nú ef til vill öðruvísi á þetta, og minnist jeg þess af fyrri samvistum, hvað einkennilega loðinn hann var í þessu máli. En þó að þessu máli væri slept, þá liggja hjer fyrir önnur má), sem beinlínis krefjast nærveru þingsins. Mál, sem skifta svo miklu fyrir þjóðina, að hver einasta stjórn mundi telja skyldu sína að ná þinginu saman vegna þeirra.

Eins og kunnugt er, standa nú yfir samningar við Breta. Þeir samningar eru svo alvarlegt mál, að þeir snerta hvert mannsbarn í landinu, og sú niðurstaða getur orðið af þeim, að þessi þjóð þurfi að breyta með öllu lifnaðarháttum sínum. Og skyldi þá ekki vera ástæða til, að þingið sæti, skyldi þá ekki vera ástæða til fyrir stjórnina, að hafa fulltrúana sjer við hlið, ef slíkar snöggar breytingar þarf að gera á lífi þjóðarinnar. Hvernig getur háttv. þm. (S. St.) kvartað yfir því, að þingið er kallað saman út af svo alvarlegu efni? Veit þm. (S. St.), hvað hann er að tala? — Þetta var fyrsta ákæran.

Þá talaði þm. (S. St.) um, að stjórnin hafi ekkert gert í, að undirbúa dýrtíðarmálin fyrir þing. Þetta er rangt — með öllu rangt. Stjórnin hefir lagt fram frv. um dýrtíðarráðstafanir. Háttv. þm. (S. St.) hlýtur að hafa lesið það; hann er í þeirri nefnd, sem hefir frv. til meðferðar. — Sami háttv. þm. (S. St.) kom aftur að því, að þingið væri komið saman til að eyða þúsundum króna í ónýtt hjal. Þetta er algerlega ósæmileg og ranglát árás á Alþingi Íslendinga, og vil jeg mótmæla henni kröftuglega. Síst ættu þingmenn sjálfir að gera sitt til þess að veikja traust og álit þingsins; nóg er að láta utanþingsmenn gera tilraunir til þess að veikja álit þess með gróusögum sínum.

Þá leyfði háttv. þm. (S. St.) sjer að segja, að stjórnin hefði ekkert gert fyrir fjárhag landsins. Jeg vil leyfa mjer að skjóta því undir dóm háttv. þm., sem hjer eru staddir í salnum, hvort ummæli þessi sjeu af sanngirni töluð. Það ættu þó allir að vita, og háttv. þm. (S. St.) einnig, að stjórnin hefir útvegað landinu mikil lán síðan þingi sleit; nema þau í kringum 10 miljónum. Þetta fje hefir fleytt áfram nauðsynjafyrirtækjum landsins, landsversluninni og skipunum. Ummæli háttv. þm. (S. St.) í þessa átt eru því lítt sæmileg. Háttv. þm. (S. St.) segir að stjórnina vanti það, sem sje „nervus rerum“, sem sje peninga. Ekki er þetta með öllu rjett, því að þegar fjárhagurinn var gerður upp 8. apríl, voru til í sjóði á fjórðu miljón og loforð til fyrir l1/2 miljón. Þegar svo mikið fje er til, mundi þó síst af öllu rjett að segja, að sjóðurinn sje tómur.

Yfir höfuð lítur svo út, sem hv. þm. (S. St.) hafi látið blöð andstæðinga stjórnarinnar æsa sig. Er það öllum kunnugt að þau hafa blásið mjög að þeim kolunum, að æsa gegn stjórninni. En þær árásir hefir stjórnin látið sjer í ljettu rúmi liggja. Fyrir oss er það hreinn hjegómi, þótt yfir oss dynji skammir í blöðum, eða annarsstaðar; hitt er oss aðalatriði, að vjer af fremsta megni reynum að ráða fram úr öllum þeim miklu vandræðum, sem yfir dynja á þessum tímum. Hver stjórn, sem finnur til ábyrgðar, lætur smánartilraunir lítilsigldra sálna sig engu skifta. Hitt er aðalatriðið, að vinna svo, að ekki þurfi að draga neitt undan dagsbirtunni. Stjórnin hefir lagt öll sín kort á borðið. Í fjármálaræðu minni í byrjun þingsins, leitaðist jeg við að láta dökku hliðarnar á fjárhagnum koma fram, svo að þingið gæti gert allar ráðstafanir sínar samkvæmt því. Jeg vík að því aftur, sem jeg mintist á áðan í sambandi við þingsamköllunina, að það liggur í hlutarins eðli, að ef þing hefði verið kallað saman seinna en nú var gert, þá er það Ijóst, auk þess sem jeg hefl áður sýnt, að of seint kynni að verða að gera ýmsar ráðstafanir, sem nú kann að þykja þörf á að gera.

Vona jeg því, að háttv. deild játi það með mjer, að það var full og óhjákvæmileg nauðsyn á því, að kalla þingið saman. Og þá vona jeg, að háttv. deild játi einnig með mjer, að sú staðhæfing, að stjórnin hafi ekkert gert til þess, að sjá fyrir fjárhagnum, er hreint og beint — jeg verð að við hafa rjetta orðið — hreint og beint bull. En hitt er annað mál, eins og jeg vjek að í fjármálaræðu minni, að þótt miljónalán hafi verið fengin, og þó að það sje nauðsynlegt, til þess að bera áfram fyrirtæki landssjóðs, þá er hins að gæta, að of mikið af miljónunum fari ekki til þess að fylla í skörðin. En það varð fyrst sjeð, þegar búið var að athuga landsbúskapinn 1917, hvernig tekjurnar mundu hrökkva til, og á því getur maður einnig búið sjer til dálitla framtíðarmynd af því ári, sem nú stendur yfir. En nú var ekki hlaupið að því, að fá yfirlit yfir árið 1917, það var fyrst gert eftir 30. mars, þegar búi var að ljúka reikningunum hjá landsfjehirði. Bókfærslan er en svo gamaldags í stjórnarráðinu, að hún gefur ekkert heildaryfirlit yfir hag landssjóðs og veldur það því mikilli fyrirhöfn, að ná í það yfirlit. En fyrst, að því loknu, ákvað stjórnin, að koma með tekjuaukafrumvörp. Jeg skýt því hjer inn í, að stjórnin er nú að undirbúa nýtísku bókhald í stjórnarráðinu og verður þá öll stjórn fjármálanna ljettari. Ætti að hafa verið búið að bæta úr þessu fyrir löngu. Annars er það dálítið einkennilegt, að háttv. þm. (S. St.) hefir varla minst á frumv. þau, sem hjer liggja fyrir. Það hefir að eins verið notað sem tilefni til þess að hefja eldhúsdagsumræður. Fyrir mjer má herða á þeim eins mikið og hver orkar.

Jeg hefi áætlað, að tekjur samkvæmt frv. þessu mundu nema 2—300.000 kr. En eins og jeg tók fram í dag, þá kæmi mjer ekki á óvart, þótt tekjuaukinn næmi 400.000 kr. á ári, eða 800.000 kr. á fjárhagstímabilinu, og einhverntíma hefði háttv. þm. N. Ísf. ekki talið það neitt smáræði. Háttv. þm. (S. St) sagði, að það hefði átt að koma með tekjuauka, sem næmi miljónum, en það er mjög mikið álitamál, hvort nú sje fært að leggja svo gífurlega skatta á þjóðina, þegar harðast sverfur að. Þinginu yfirsást í því, að skattleggja ekki stríðsgróðann, sjerstaklega á árinu 1916. En þegar frá honum er horfið, þá mun örðugt að hitta á rjettláta tekjustofna. Hvar eru þeir? Getur háttv. þm. (S. St.) bent á nýjar og betri leiðir? Hefir honum á andvökunóttum sínum heima í Vigur, út af fjárhagnum, birst nokkrar nýjar leiðir. Og hverjar eru þær? Trúin á aðfinslurnar verður minni, ef þeir, sem finna að, geta ekki bent á neitt betra, eða á neitt annað. Þá vaknar grunurinn um að hjer sje verið að búa út fótakefli fyrir stjórnina. Ef jeg nú spyr háttv. þm. (S. St.) á hvaða leiðir hann vilji benda, þá býst jeg við, að fá ekkert svar. Jeg veit, að háttv. þm. (S. St.) er meistari í að berja barlómsbumbuna. En er það — einmitt það, sem okkur ríður mest á, á þessum tímum? Jeg efast um það. Hitt er víst, að þessi háttv. þm. (S. St.) setur sjer ekki fyrir mark, að telja kjark í þjóðina; það er eins og hann sje altaf að reyna að sannfæra alla um það, að hún sje að fara niður fyrir bakkann. Og það er eins og guðsmaðurinn í Vigur sje að bíða eftir því, að blessa yfir þjóðina, þegar hún sje komin niður fyrir bakkann.

Þá talaði hv. þm. (S. St.) um skakkaföllin. Jeg spurði við hvaða skakkaföll hann ætti og svaraði hv. þm. (S. St.) því þannig, að hann ætti við Tjörnesnámuna og dýrtíðarvinnuna. Um Tjörnesnámuna skal jeg láta þess getið, að jeg er með öllu ókunnugur rekstri hennar, en veit hins vegar, eins og jeg hefi tekið fram áður, að á henni hefir orðið tap. En jeg hygg, að það sje víst, að námurekstur þessi, sem byrjaður var áður en jeg kom í stjórnina, hafi verið haldið áfram að tilhlutun síðasta Alþingis, sem vildi láta gera tilraun til þess að afla eldneytis.

Að því er hin skakkaföllin snertir, þá er það vitanlegt, að tap hefir orðið á landssjóðsvinnunni, enda fór hún fram á harðasta tíma ársins. Jeg hefi skýrt frá því áður, að tap þetta muni ekki nema minna en 70—80 þús. krónum, en jeg hygg, að ef háttv. þm. (S. St.) hefði verið í sporum stjórnarinnar, þá mundi hann ekki hafa sjeð sjer annað fært en að láta vinna hjer í vetur. Jeg minnist þess, að einu sinni er vjer vorum sessunautar í háttv. Ed., þá var hann að tala um að drottinn Zebaoth heyrði bænir fátæklinganna, þótt embættismenn þessa bæjar heyrði þær ekki inn á hlýjar skrifstofur sínar. Það sem háttv. þm. (S. St.) hamast nú yfir, er að stjórnin daufheyrðist ekki við bænum fátæklinganna; því að það má hann nú gjarnan vita, að svo krefti að hjer í Reykjavík í vetur, að margir hurfu grátandi frá atvinnuskrifstofunni, sem ekki áttu kost á að fá atvinnu. Jeg verð að játa það hjer, að jeg. vildi ekki bera ábyrgð á því, að börn fátækra fjölskyldumanna hefðu dáið eða orðið heilsulaus, þótt á því hefði sparast eitthvað úr landssjóðinum. Og hver vildi bera þá ábyrð?

Háttv. þm. (S. St.) fjargviðrast oft af því, að stjórnin hefði ekki farið frá, þegar verðhækkunartollurinn var feldur á síðasta þingi. Þetta snertir ekki mig heldur fyrv. fjármálaráðh. En um það held jeg að allir muni mjer nú sammála, að það hefði verið barnaskapur af hverri stjórn, sem var á þeim tímum, sem nú standa yfir, að fara frá fyrir ekki meiri ástœðu en þessa.

Háttv. þm. (S. St.) fjargviðraðist einninnig yfir því, að stjórnin hefði fyrir stuttu sagt, að hún kæmi ekki með fjáraukalög. En háttv. þm. (S. St.) mátti marka það á því, að stjórnin lagði engin fjáraukalög fyrir þingið og sagði ekki heldur að hún ætlaði að gera það — að þau yrði ekki lögð fyrir þingið.

Ástæður fyrir því, að jeg kom ekki með fjáraukalög, voru þær, að jeg vissi að í þeim mundi hlaðast upp útgjaldaliðir, sem gott væri að vera laus við. Um þetta veit jeg að sá háttv. sparnaðarpostuli (S. St.) muni vera mjer sammála. — En jeg veit að hann hefir að eins viljað taka þetta með í þá lúsaleit, sem hann er að gera á stjórninni.

Háttv. þm. (S. St) sagði, svo að jeg viki aftur að frv., á biblíumáli sínu, að það væri eins og krækiber í helvíti. Einhverntíma hefði háttv. þm. (S. St.) þótt 800 þús. kr. stórt krækiber. Hv. þm. sagði, að þetta frumv. væri andvandvana fætt. Jeg sje nú varla ástæðu til að komast svo að orði, úr því háttv. þm. (S. St.) ætlar að vera með frv., og hið sama heyrðist mjer á háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Og enginn annar hefir enn mælt á móti frv. Annars er það óneitanlega dálítið einkennilegt, að hv. þm. (S. St.) heldur þrumandi ræðu um það, hve mikil þörf sje á tekjuauka, og haldi svo aðra þrumandi ræðu um hann, þegar hann er kominn, án þess þó að vera á móti honum. Eðlilegra hefði verið, að háttv. þm. (S. St.) hefði notað tíma sinn til þess að koma með ný tekjuaukafrv.

Jeg man ekki eftir, að jeg þurfi að svara háttv. þm. (S. St.) meiru, en hafi jeg gleymt einhverju, mun jeg víkja að því síðar.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skal jeg að eins svara örfáum orðum, því að jeg get vísað til ýmislegs af því, sem jeg hefi tekið fram í svari mínu til háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Annars get jeg ekki neitað því, að öll ræða hans var langt um þinglegri en hin ræðan.

Út af því, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) nú gripur fram í, vil jeg minna á, að hann viðhafði þessi orð: „hyldýpi ráðleysis og hirðuleysi stjórnarinnar“ Þetta kalla jeg fullsterk orð. Minsta kosti þegar háttv. þm. (S. St.) hefir þau um flokksbróður sinn, forsætisráðherrann. Því kemur þingmaðurinn ekki með vantraustsyfirlýsingu á stjórnina, eftir að hann er búinn að fara svona orðum um hana.

Svo að ég víki þá aftur að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þá sagði hann, að hann hefði ekki oltið út af af aðdáun þegar hann sá frv. Því bjóst jeg aldrei við. Því að sjálfur hefi jeg, þótt jeg telji nauðsyn á tekjuaukanum, talið ýmsa galla á frv. Annars býst jeg við, að þótt jeg hefði komið með eitthvað aðdáunarvert, að háttv. þm. (G. Sv.) mundi í lengstu lög dylja aðdáun sína.

Háttv. þm. (G. Sv.) sagði, að fjármálastjórnin hefði ekki haft annað verk með höndum en að undirbúa tekjufrv. Jeg er sannfærður um, að háttv. þm. (G. Sv.) hefir ekkert á móti því, að orða þetta öðru vísi, því að háttv. þm. veit vel, að verk þau, sem stjórnin hefir haft með höndum eru bæði mörg og erfið, og hefir öll stjórnin orðið að taka þátt í þeim mörgum hverjum, eins og líka frv. þessi eru lögð undir samþykki allrar stjórnarinnar.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) lagði áherslu á það, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að þessir tekjuaukar væru litlir, og verð jeg að vísa, að því er það snertir, til þess sem jeg svaraði hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), en spái því, að ef frv. þetta verður að lögum, að það reki einhvern tíma að því, að landssjóð muni um tekjuaukann af því.