29.06.1918
Neðri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

102. mál, almennur menntaskóli

Jeg skal þó ekki fjölyrða hjer um skiftingu hinna einstöku námsgreina, t. d. hvort hafa skuli gömlu málin fyrir kjarna í skiftingu skólans. Og þetta geri jeg af því, að þótt jeg hafi altaf viðurkent, að gömlu málin sjeu vel til þess fallin, þá get jeg ekki fallist á, að þau sjeu ómissandi. En nauðsynlegt er að hafa einhverja fræðigrein í skólanum, sem er valin með það fyrir augum að kenna nemendum að læra. Menn munu nú ef til vill segja, að ein fræðigrein sje kend með það fyrir augum í skólanum, þar sem enskan er. En þetta mál er óhæft til þess að glæða slíkan þroska hjá nemendum. Enskan er ekki vel fallin til þess að þroska málfræðilega þekkingu og hugsun sem mörg önnur mál. Og það stafar af því, að hún er mjög slitið mál að beygingum og blandað. Hún stendur næst kínversku, sem hefir enga málfræði, heldur felst málfræðin og merking orða í því, hvar orðið stendur í setningunni. En þetta er svo frábrugðið því lögmáli, sem mál menningarþjóðanna byggjast á, að ekki er rjett að velja slíkt mál til þess að þroska málfræðivit og rökrjetta hugsun nemandanna. (E J.:

Það er grískan ein).

Það er rjett, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) sagði, að grískan er allra mála best til þess fallin að vekja slíkan þroska. Og vona jeg því, að hann ljái atkvæði sitt til þess, að hún verði tekin aftur inn í mentaskólann, svo að yngri stúdentar geti minst hans með þakklæti fyrir góðar till. hans á Alþingi.