06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

36. mál, stimpilgjald

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi því miður ekki haft tíma til að setja mig inn í þetta frv., en sje þó að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því, frá því frv. sem lagt var fyrir síðasta þing. Það er eðlilegt, að tekjur vanti og að eitthvað þurfi að gera til þess að bæta úr þeim mikla reikningshalla, sem orðið hefir á seinasta ári, og verð jeg að segja, að síðasta þing hafði ekki næga fyrirhyggju í því efni sem skyldi, þegar það nam í burtu verðhækkunartollinn, og gat ekki fallist á að leggja á alment útflutningsgjald. Útflutningsgjaldið er það, sem nú er gerð breyting á með stimpilgjaldinu, og það er ekki í mörgum myndum.

Jeg verð að drepa hjer örlítið á ýms atriði, þó að það þyki ekki tilhlýðilegt þegar við 1. umr.

Stimpilgjald þetta er eiginlega útflutningsgjald í þrem liðum. Það er stimpilgjald af verslunarsamningum, l% eða sem því svarar, það er stimpilgjald af verslunarvíxlum, og svo loks þriðji liðurinn, stimpilgjald af „konnossementum“ 1%; þetta er nú útflutningsgjald í þremur liðum, sem snertir landbúnaðarafurðir, og við þetta bætist svo 4. liðurinn, venjulegt útflutningsgjald, er um sjávarafurðir er að ræða. Þetta er því ekki annað en útflutningsgjald. Þetta er því þrefalt útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum og fjórfalt gjald af sjávarafurðum, og þegar búið er að taka þessar tekjugreinir út úr frv., þá er það alveg eins og venjulegt stimpilgjaldafrv., og gefur út af fyrir sig afskaplega litlar tekjur, en mikið umstang. En eins og gefur að skilja, þar sem vörur eru í mjög háu verði, verður þetta miklu meira en 1%. eftir því sem vöruverð er undir venjulegum kringum stæðum; það verða 2—3%. Jeg lagði það til á síðasta þingi, talaði um það við stjórnina og þingflokkinn, sem jeg vann að nokkru leyti saman við, að leggja alment útflutningsgjald á, 1% af landbúnaðarafurðum og um 11/2% af sjávarafurðum, en það fekk ekki áheyrn, og þyrfti þó að athuga vandlega útflutningsgjaldalöggjöfina, sem er orðin gömul og margbætt og í 7 lagabrotum. Það var því full nauðsyn á að koma útflutningsgjaldslögunum í eina heild.

Mig furðar á því, að stjórnin skyldi ekki heldur endurskoða útflutningsgjaldslögin, gera þau svo úr garði, að þau væri að eins ein lög og hækka svo útflutningsgjaldið; það væri miklu fyrirhafnarminna fyrir þá, sem ættu að innheimta tollinn, en sleppa svo stimpilgjaldinu, sem verið hefir þyrnir í augum manna frá því fyrsta.

1913 var frv. um sama efni lagt fyrir þingið, en komst víst aldrei úr nefnd. Ef hið sanna útflutningsgjald er tekið út úr frumvarpinu, er ekkert annað eftir en það, sem Alþingi hefir aldrei viljað líta við. Þess vegna teldi jeg rjettast að þessir 4 liðir yrðu fluttir yfir á útflutningsgjaldið, og þau lög gerð upp í einu lagi, því að þessi stimpilgjaldslög eru svo afar umfangsmikil og gefa svo litlar tekjur, þegar þau ná ekki lengra en lög um það efni gera venjulega.

Eins og menn muna, var jeg dálítið ósamþykkur nefnd þeirri, sem hafði málið til meðferðar á síðasta þingi; var það einkum út af stimpilgjaldi á víxlum.

Ef nú verður ofan á að breyta frv. í þá átt, sem jeg hefi bent á, þá ætti að fella í burtu víxilstimpilgjaldið, en ef það verður ekki gert, þá vil jeg nota tækifærið til að benda á, að hjer hefir altaf verið gengið mjög illa frá öllu, sem lýtur að víxilstimpilgjaldi.

Jeg benti á það 1913, að það væri ekki venja neinstaðar, að stimpla víxla, er falla í gjalddaga innan 3 daga eða við sýningu. Á þá víxla er litið eins og þeir væri borgun út í hönd, og því er ekkert gjald lagt á þá.

Þegar þetta er nú venja — mjer er óhætt að segja um allan heim —, þá skil jeg ekki, að háttv. þing eigi eitt að skera sig út hvað þetta snertir, og síst ætti slíkt að koma fyrir, þegar kept hefir verið að því, að koma verslunarlöggjöf vorri í samræmi við verslunarlöggjöf Norðurlanda. Má t. d. benda á, að ýms verslunarlög vor, svo sem víxillögin, og almenn viðskiftalög, sem er stór bálkur (E. A.: Og tjekkalögin), já, og svo tjekkalögin, eru orðrjettar þýðingar úr samskonar lögum hinna Norðurlandaþjóðanna.

Jeg skil því ekki, hvernig á því stendur, að ekki er bægt að vera í samræmi við frændþjóðir vorar, í öðru eins lítilræði og þessu, sem þó verður að stórræði í augum útlendinga, ef öðru vísi er ákveðið hjer um, heldur en venja er til annarsstaðar. Þess vegna vildi jeg mælast til, að nefndin, sem kemur til með að fjalla um málið, taki þetta til yfirvegunar, og athugi hvort ekki muni rjett, að undantaka víxla, sem greiðast eiga við sýning eða innan 3 daga.

Þá benti jeg á það á þinginu í fyrra, að smá víxlar, sem ekki eru verslunarvíxlar, ættu að vera gjaldfrjálsir upp að vissu takmarki, t. d. 100 kr.; í Noregi minnir mig að takmarkið sje 200 krónur.

Jeg veit ekki nákvæmlega hvernig hagar til í útibúunum, en hjer í Reykjavík er fjöldinn allur af víxlum, sem bankamir kaupa, keyptir beinlínis til þess að halda fátæklingum frá sveit. Það eru ýmsir kærleiksríkir efnamenn, sem hjálpa vilja, sem skrifa upp á þá, á veturna þegar þröngt er í búi, og svo borga fátæklingarnir þá þegar betur stendur á fyrir þeim.

Það væri því mjög óeðlilegt að leggja skatta á slíka víxla.

Svo kemur annað atriðið, og það er tímatakmarkið fyrir, hversu langan tíma stimpillinn á að gilda af víxlum. Hjer er ekkert ákvæði um það, svo að gjaldið fellur á í hvert skifti sem víxill er keyptur og framlengdur. Hjer er því tímatakmarkið algerlega ótakmarkað, en erlendis gildir stimpillinn fyrir vissan tíma. Vjer getum sjeð hversu órjett þetta er, af því, að ef fátæklingur t. d. tekur víxil til eins árs, og borgar hann upp í árslokin, greiðir hann að eins 1% stimpilgjald. En ef hann borgar 4 sinnum af honum, 25 kr. í hvert skifti á árinu, greiðir hann liðugar 8% í stimpilgjald fyrir utan vextina. Það verður að taka tillit til þessa, enda gera líka allar þjóðir það, en hjer er aftur á móti öllu haugað saman í einn graut.

Mjer finst að stjórnin hefði þó eitthvað getað lært af því, sem fram fór hjer á þinginu í fyrra.

Víxlar fátæklinganna eru oft svo smáir; mjer er kunnugt um, að þeir hafa oft verið 10—25 kr. Discontóin er 1 kr. minst, og þar við bættist svo þetta stimpilgjald, þá er það samtals tilfinnanlegur skattur á efnalausa menn.

Ef því frv. þetta á að verða að lögum, þá er nauðsynlegt að sníða það eftir erlendum lögum um þessi efni.

Það þarf ekki annað en að líta í Hages „Haandbog í Handelsvidenskab“, og auk þess munu margir eiga víxilstimpillög annara landa, bæði norsk og dönsk, sem hægt mun vera að athuga, enda eru þau vitanlega í stjórnarráðinu.

Þá er enn eitt athugavert við þetta frv., og það er að hjer er gjaldið reiknað af þeim víxlum einum, er lánsstofnanir kaupa. Svo er það alls ekki erlendis, því að í Englandi t. d. er mjer kunnugt um, að stimpilgjald er borgað af öllum samningum og víxlum, sem ganga manna á milli, og stór sekt liggur við, ef einhver hefir ekki stimplað tjekk sinn. Mjer finst, að hjer ætti að haga því eins, og láta lögin ná til allra manna, en ekki til þeirra eingöngu, sem skifta við lánsstofnanir. Ef þetta frv. yrði að lögum, gætu sem sje allir stærri braskarar sloppið við að gjalda stimpilgjald af víxlum, sem ganga þeirra á meðal. Sama er að segja um skuldabrjefin, því að á þeim ætti að hvíla alment gjald, sem næði til allra.

Ef að á að búa til stimpilgjaldslög, sem að gagni eiga að koma, þá verður að undirbúa þau betur en hjer hefir verið gert, og varla treysti jeg þinginu til þess að ganga svo frá þeim, að að gagni komi.

Jeg vil því leggja það til, hvað svo sem gert verður við lögin, að nefndin sem málið verður falið, athugi, hvort ekki væri rjett að breyta svo til, að þeir póstar, sem jeg sagði að væru ekkert annað en útflutningsgjöld, yrðu fluttir yfir í útflutningsgjaldalögin. Það þyrfti ekki að taka langan tíma, og skal jeg lána nefndinni uppkast að lögum um útflutningsgjöld, sem jeg hefi heima hjá mjer. Sömuleiðis, vil jeg ráða nefndinni til þess að haga víxilgjaldinu, ef á að halda því á annað borð, líkt og tíðkast í öðrum löndum. Þá ætti auðvitað að fella burtu gjaldið af samningum um vörukaup, en láta það felast í útflutningsgjaldinu.

Jeg hefi nefnt þetta til leiðbeiningar nefndinni, og vona, að bæði henni og þinginu takist að finna tekjuauka, sem eru óbrotnir, og lítill kostnaður við að koma í framkvæmd. En nú er t. d. mjög dýrt að búa til stimpilmerkin.

Að þessu sögðu ætla jeg ekki að þreyta háttv. deild frekar í þessu máli, að svo komnu.