26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Magnús Guðmundsson:

Það er sagt í greinargerðinni fyrir till. þessari, að fjárhagsnefnd og fjárveitinganefnd hafi komið sjer saman um öll aðalatriði hennar. Þetta er ekki alveg rjett frá skýrt, og skal jeg, því til sönnunar, lesa upp kafla úr brjefi fjárhagsnefndar til stjórnarráðsins. Þar segir svo:

„Um síðari liðinn tekur nefndin fram (þessi liður er um launahækkun starfsmanna landssímans) — þótt hann heyri í raun rjettri undir verksvið fjárveitinganefndar. — að hún getur verið því hlynt, ef áður um getin hækkun símagjalda yrði samþykt, að ákveðin upphæð af hinum auknu símatekjum gengi, meðan lögin væru í gildi, til uppbótar á launum fastra starfsmanna símans, eftir þeim mælikvarða, sem stjórnarráðið ákvæði, og án tillits til dýrtíðaruppbótar, lögum samkvæmt, af þeim launum, sem nú hafa þeir“.

Hjer er því ekki sagt annað en að nefndin geti verið því meðmælt, að einhver hluti af þeirri upphæð, sem símagjaldahækkunin nemur, veiði notaður til þess að útbýta meðal starfsmanna landssímans. Háttv. frsm. (M. Ó.) sagði, að í þessari till. fjárveitinganefndar væri ekki að öllu leyti farið eftir till. landssímastjóra, það væri klipið af þeim, en jeg held, að það sje misskilningur; þær liggja fyrir hjer þessar till. hans, og álítur hann sjálfur, að þær nemi um 40.000 kr.; hefir fjárveitinganefnd þannig tekið till hans til greina að öllu leyti, svo að það er alls ekki klipið af þeim, eins og sagt er, og jeg býst satt að segja við, að landssímastjóri hafi samið þessar till. sínar einmitt þannig, að hann byggist við, að af þeim yrði klipið.

Fyrir mig verð jeg að segja, að mjer þykir 40.000 kr. alt of há upphæð til þessa, enda hlýtur hver og einn að sjá, með því að líta yfir þessar uppbætur, sem gert er ráð fyrir, að þær eru hlutfallslega miklu hærri en þær uppbætur, sem ætlaðar eru öðrum starfsmönnum hins opinbera.

Svo var það eitt atriði, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram. Það stendur hjer í till. fjárveitinganefndar, að úthlutun þessarar launahækkunar fari fram eftir till. landssímastjóra. Skil jeg það svo, að stjórnarráðið sje þá algerlega bundið við þær. Það get jeg ekki samþykt. Þá er betra að láta landssímastjórann ráða því einan, en ef það væri ekki ætlunin, þá er betra að orða till. öðruvísi. Þetta orðalag er reyndar víða í lögum, en það hefir áður orkað tvímælis, og þegar af þeirri ástæðu er sjálfsagt að breyta þessu þannig, að skýrt komi fram, hver meiningin er.

Jeg fæ ekki sjeð, að það geti á nokkurn hátt orðið málinu til hnekkis, þótt það verði tekið út af dagskrá. Vil jeg benda háttv. frsm. (M. Ó.) á, að við fyrri umr. málsins voru engar umr. um málið, og held jeg því, að nefndin ætti ekki að vera á móti því, að það sje gert.

En jeg verð að taka það fram, að jeg get ekki litið svo á, að fjárhagsnefnd sje bundin við þessa till, því að hún hefir ekki samþykt hana, heldur að eins látið þá skoðun sína í ljós, að hún væri sammála um einhverja hækkun.