26.06.1918
Neðri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins mælast til þess, því að mjer skildist á háttv. frsm. (M. Ó.), að hann hefði ekki á móti því, að málið væri tekið út af dagskrá núna, að það yrði látið koma mjög fljótt á dagskrá aftur, því að jeg hefi það fyrir satt, að svo sje háttað, að minsta kosti um nokkra starfsmenn landssímans, að þeir hafi ekki þegar sagt upp stöðu sinni fyrir þá eina sök, að þeir hafi bygt á því, að á döfinni væri einhver uppbót á launum þeirra. En nú er þegar svo komið, eins og menn vita, að tveir starfsmenn landssímans, sem víst verður erfitt að fá hæfa menn fyrir, hafa sagt upp stöðu sinni, og er við búið, að fleiri komi á eftir, ef ekki er fengin vissa fyrir bættum launakjörum. Jeg hygg mjer óhætt að segja það, að þetta sje ekki að skoða sem hótun, til þess að fá fram launabót, heldur sje það í raun og veru svo, að hinir hæfari meðal símamanna sjeu ekkert upp á það komnir að halda í stöður sínar, því að það er að verða skortur á mönnum til ýmsra starfa, ekki að eins hjer, heldur jafnvel miklu fremur utanlands. Það vill nú svo vel til fyrir símamenn og verkfræðinga, að þeir eru alls ekki bundnir við neitt land, og því er það, að ef þess er ekki gætt að launa við hóf sjerþekkingu þeirra, þá er alls ekki mögulegt að halda þeim.

Svo framarlega sem menn vilja hafa hæfa menn við ritsímann, þá verða þeir að fá þau laun, að þeir geti lifað af þeim.

Svo hefi jeg ekki meira að segja um þetta, en vil að eins mælast til, að þessu máli verði ekki frestað alt of lengi.