06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

36. mál, stimpilgjald

Sigurður Stefánsson:

Það var nú svo um ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að hefði hún snert mína ræðu nokkuð til muna, þá hefði jeg ef til vill þurft að svara henni nokkuð ítarlega, en það er um þessa ræðu hæstv. fjármálaráðherra, eins og aðrar ræður hans, að orð skáldsins: „umbúðirnar eru vætt, en innihaldið lóð“, eiga mæta vel við um hana.

Hann talaði mikið um, að ræða mín hefði verið árás á stjórnina, en mjer þykir nú hæstv. stjórn vera orðin nokkuð viðkvæm, ef hún þolir ekki, að sjer sje sagt skýrt og skorinort, hvað ábótavant sje gerðum hennar. Eða þykist hún má ske svo fullkomin, að ekki sje hægt að finna nokkurn skapaðan hlut að gerðum hennar? Ef svo er, má hún vera viss um, að enginn heilvita maður trúir slíku.

Þá lagði hann mikið út af því, hvílík nauðsyn hefði verið á að kveðja til aukaþingsins. Jeg hefi ekkert orð látið um það falla, að engin nauðsyn mundi verða á því, að aukaþing yrði kvatt saman á þessu ári, en tók það skýrt fram, að jeg hefði búist við að það yrði kvatt saman.

En hitt sagði jeg að skifti mestu máli, hve nær stjórnin hefði kallað aukaþingið saman á árinu. Og það vitti jeg, að hún skyldi kalla það saman áður en hún hafði undirbúið þau aðalmál, er það átti að fjalla um. En þetta atriði varaðist hæstv. fjármálaráðherra að minnast á, og var ræða hans að þessu leyti hreinasta vindhögg.

Þá fór hann að blanda sjálfum mjer inn í þetta mál, en til þess gaf ræða mín ekkert tilefni. En úr því að hann notaði þetta tækifæri til að bera mjer á brýn, að jeg hefði verið loðinn í sjálfstæðismálinu, þá vil jeg segja honum, að hafi jeg verið „loðinn“ í því, að þá hefir hann verið „snoðinn“ í því.

Þá tók hann það fram, að nauðsyn hefði borið til að kalla saman þingið á þessum tíma, vegna sjálfstæðismálsins. En nú er það komið á daginn, að þingið hefir setið mánaðartíma, og ekkert kvak frá stjórninni enn heyrst, og þó hlutu allir að búast við, að þetta yrði aðalmálið á aukaþinginu. Það er því þegar komið á daginn, að stjórnin hefir kvatt saman þingið mánuði fyr en þörf var á, þessa máls vegna, og fullar líkur á, að meðferð þessa máls á þinginu geti dregist annan mánuðinn til, og það af þeim ástæðum, sem stjórninni máttu vera kunnugri en flestum þingmönnum.

Þá fjargviðrast hæstv. fjármálaráðherra mikið út af því, að ræða mín hefði verið árás á Alþingi. Hvernig í dauðanum getur hann fundið það út úr þeim ummælum mínum, að þingið sje kallað of snemma saman og sitji hjer aðgerðalaust um aðalmálið, sem það var kvatt saman til að fjalla um. Það hefði miklu fremur mátt segja, að ræða mín hafi verið rjettmæt umvöndun til stjórnarinnar, heldur en árás á þingið.

Þá bar hæstv. fjármálaráðherra mjer það og á brýn, að jeg hefði sagt, að stjórnin hefði ekkert gert til þess að útvega landinu fje. Þetta hefi jeg að vísu aldrei sagt. Og þótt stjórnin hafi eitthvað gert í þessa átt og gert það miklu myndarlegar en raun er á orðin, þá sje jeg ekki, að nein ástæða sje til, að lofa hana svo mjög fyrir þau afrek, því að hún hefði ekki gert meira en það, sem bláber skyldan bauð henni. Fjárútveganir hennar hafa sannarlega ekki verið svo merkilegar.

En fyrir það ámælti jeg stjórninni, að hún skyldi ekki strax, þegar þingið kom saman, leggja fyrir það tekjuaukafrv., og það því fremur, sem fjármálayfirlit það, sem hæstv. fjármálaráðherra las upp í þingbyrjun, gaf fullkomna ástæðu til þess. Þar sem nú stjórnin hefir trassað þennan undirbúning, þá lítur ekki út fyrir annað, en að hún, er þingið kom saman, hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð, hvað hún ætti að gera og hvernig hún ætti að útvega landinu tekjur.

Annars veit jeg ekki, hvernig jeg á að taka hæstv. fjármálaráðherra, þar sem hann segir, að „stjórnina vanti ekki fje“. Mjer er spurn: Hví er þá stjórnin að koma með þessi frv.? Ef hana vantar ekki fje, þá er engin þörf á þessum frv. (Fjármálaráðherra: Stjórnina vantar ekki fje, heldur tekjur). Undarlegt er þetta innskot, því að vanti stjórnina tekjur, þá vantar hana líka fje. Jeg býst líka við, að stjórninni hafi verið það fullljóst, þegar hún lagði þessi frv. fram, að hana vantaði fje, þótt hæstv. fjármálaráðherra sje nú orðinn á annari skoðun.

Þá var hæstv. fjármálaráðherra að tala um, að framkoma mín á þinginu væri líkari framkomu leikara, heldur en alvörugefins manns. Það er altaf hægt að slá fram slíkum glamuryrðum, þegar ekkert er til brunns að bera af rökstuddum andmælum. En jeg er alveg óviss um, hver okkar verður talinn meiri pólitískur leikari. Mjer er að vísu ekki tamt að breiða út faðminn móti fólkinu með hávaða og handaslætti og segja: „Elskulega alþýða, hjer stend jeg með útbreiddan líknarfaðminn móti þjer, og vil gera alt fyrir þig og fórna mjer þín vegna“. Enda er jeg óviss um, hvernig slík fleðulæti verða tekin, sjer í lagi þegar faðmlögin verða svo föst, að þau kremja jafnvel hold frá beini fátæklinganna með hvatvíslega ráðnum fjárpyntingum á hendur alþýðunni, eins og stjórnin gerði tilraun til síðastliðinn vetur. Og samkvæmt athugasemdum háttv. 1. þm. G. K. (B. K.), þá er líka með þessu frv. verið að leggja ranglátan skatt á bláfátæka menn, sem eru að reyna að komast hjá sveit, með því að fá smálán í lánsstofnunum landsins til að seðja hungur kvenna og barna; þau faðmlögin eru ekki heldur sjerlega mjúk. Það er hægur vandi að hrópa með orðaskvaldri og handaslætti: „Jeg er óttalega mikill alþýðuvinur“; en betra er að sýna það í verkinu með öðru en slíkum spjátrungsskap.

Þá fanst hæstv. fjármálaráðherra það undrum sæta, að jeg skyldi ekki koma fram með tekjuaukafrv. En hvernig getur hann búist við, að maður, sem kemur utan af landi, í þeirri góðu trú, að stjórnin hafi fundið eitthvað, sem að gagni mætti verða til að afla landinu tekna, og þegar nú þar við bætist, að þessi maður hefir ekki meira til brunns að bera heldur en þm. N.-Ísf. í augum hæstv. fjármálaráðherra, hvernig getur hann þá búist við því, segi jeg, að slíkur maður komi með undirbúið tekjuaukafrv., og fari þannig að hjálpa stjórninni til þess að gera það, sem hana ber heilög skylda til að gera.

Þá get jeg fullvissað hæstv. fjármálaráðherra um það, að mig langar ekki mikið upp í ráðherrastólinn, og það hefi jeg sýnt fyr, að jeg hefi lítið þjáðst af þeim sjúkdóm, sem „ráðherrafeber“ er nefndur. En það get jeg bent á, að síðustu árin hafa ýmsir viljað lafa í þeim tignarsessi, þótt þeir væru lítt hæfir til þess.

Að jeg berji barlómsbumbuna er eitt af þessum rakalausu glamuryrðum hæstv. fjármálaráðherra. Þótt jeg hafi verið gætinn fjármálamaður og hafi viljað sníða oss stakk eftir vexti í fjármálum vorum, þá skammast jeg mín ekkert fyrir það, þótt sú ráðbreytni mín hafi oft mælst miður vel fyrir hjá athugalitlum fjármálafíflum. Jeg veit, að slíkt lætur illa í eyrum lýðskrumaranna, sem ætið þykja allir vegir færir. En það hefir oft sýnt sig, að þeir, sem hægara fara, komast engu ver áfram heldur en þeir, sem lítt hugsað flana beint af augum, jafnvel út í hverja ófæru. Þá get jeg fullvissað hæstv. fjármálaráðherra um það, að mjer þykir alt annað en gaman að því, að sjá þjóðina „fara niður fyrir bakkann“, eins og hann gaf í skyn í ræðu sinni. Jeg mun heldur verja mínum veiku kröftum til þess, að ekki komi til slíkrar ógæfu, þótt sá róður sje erfiður á þessum síðustu og verstu tímum.

Þá mærðaði hæstv. fjármálaráðherra mikið um, að sjer þætti aðferð mín í þessu máli harla skrítin, þar sem svo líti út, sem jeg væri með og móti tekjuauka. En þetta er, eins og svo margt annað, talað út í bláinn.

Jeg sagði, að jeg myndi fegins hendi taka móti hverju því tekjuaukafrv., sem fram kæmi og eitthvert vit væri í, og þetta stend jeg við. En í ræðu minni var jeg að finna að leiðunum, sem stjórnin færi hjer, jafnframt því sem jeg vítti það, að þingið hefði verið látið sitja langan tíma yfir lítilsverðum málum, áður en stjórnin loksins ungaði út þessum tekjuaukafrv.

Þá var hæstv. fjármálaráðherra að brýna mig með því, að jeg hefði notað óþingleg orð um hæstv. forsætisráðherra. En slík orð hefi jeg aldrei viðhaft, enda fann hæstv. forseti ekki ástæðu til að taka fram í fyrir mjer. En það skal jeg láta hæstv. fjármálaráðherra vita, að jeg hefi ekki tekið því ástfóstri við hæstv. forsætisráðherra, að jeg móti betri vitund telji alt rjett, sem hann gerir. Það er heilög skylda hvers þm., hverju flokksbroti sem hann tilheyrir, að finna að því, sem honum þykir aðfinsluvert, hver sem í hlut á. Stjórnarfarið hjá oss er nógu öfugt og snúið, þótt allar þessar flokkanefnur þingsins geri ekki alt sitt til að halda því í sama óheillahorfinu með hræsni og hlífð við þá, sem með völdin fara. Jeg er ekki kominn á þing til þess, að halda dauðahaldi í ráðherrana, og því stend jeg mig vel við, að segja hverjum þeirra sem er til syndanna. Jeg segi ekki, að mjer geti ekki skjátlast í aðfinslum mínum, en þá er að leiðrjetta þær með kurteisi og skynsamlegu viti, en svo hefir ekki verið gert hjer, því að ræða hæstv. fjármálaráðherra var fimbulfamb út í loftið, sem ekkert snertir aðfinslur mínar. Hæstv. fjármálaráðherra var að ögra mjer til þess, að koma fram með vantraustsyfirlýsingu. Einhverntíma hefði ekki þurft að ögra þm. N.-Ísf. til slíkra hluta, en hann er ekkert eggjunarfífl hæstv. fjármálaráðherra.